Líftækninemar leita að lausnum

Áhugaverð viðfangsefni rannsökuð í námskeiðinu Hagnýtt verkefni
Líftækninemar leita að lausnum

Líftækninemar á þriðja ári rannsaka nú fjögur áhugaverð viðfangsefni í námskeiðinu Hagnýtt verkefni. Námskeiðinu er annars vegar ætlað að undirbúa nemendur fyrir lokaverkefni vormisseris og hins vegar að þjálfa þá í að skrifa verkáætlanir, styrkumsóknir og afla forgagna. Stúdentar vinna fjórir í hóp og fá viðfangsefni sem þeir útfæra síðan í formi rannsóknarverkefnis og styrkumsóknar í ímyndaðan verkefnasjóð.

Viðfangsefni haustsins eru af ýmsum toga og í öllum tilvikum spreyta nemendur sig á lífefnaleit (e. bioprospecting). Þeir taka umhverfissýni og einangra örverur sem eru færar um ákveðin efnaskipti, til dæmis geta þær brotið niður fjölsykrur, framleitt lífplast, bundið nitur eða brotið niður prótein.

„Þetta námskeið er nokkuð krefjandi því stúdentar fá ekki fyrirfram útbúna verkseðla eins og gengur og gerist í flestum verklegum námskeiðum á 1. og 2. ári,“ segir Eva María Ingvadóttir, aðjúnkt og umsjónarkennari námskeiðsins í ár. „Það felast tækifæri í þessu „frelsi“ en líka hindranir. Stúdentar verða sjálfir að ákveða markmið, hvað skal gera og hvernig. Hafandi tekið námskeið á borð við örverufræði, lífefnafræði og erfðafræði búa þeir hins vegar yfir þekkingu sem er lykillinn að lausn verkefnisins. Það væri hægt að lýsa þessu sem verkefnastýrðu leiðsagnar- og lausnaleitarnámi,“ bætir Eva við.

Þannig þurfa stúdentar t.d. sjálfir að rýna í heimildir í leit að heppilegum skimunaraðferðum, skilgreina verkþætti og vörður og framkvæma áhættugreiningu.

„Hagnýtt verkefni er krefjandi en afar lærdómsríkt námskeið. Í því fengum við að upplifa hvernig það er í raun og veru að framkvæma okkar eigið rannsóknarverkefni og hvaða áskoranir fylgja því. Við þurftum að sýna frumkvæði í framkvæmd og leggja sjálf mat á markmið og framvindu verkefnisins sem var vissulega ekki alltaf auðvelt. Það var hins vegar hvetjandi að kennari var til staðar á hliðarlínunni sem sýndi bæði rannsóknarviðfangsefninu áhuga og veitti reglulega góða og uppbyggjandi endurgjöf sem átti einungis eftir að styrkja sjálft verkefnið. Áfanginn er góður grunnur fyrir B.S. verkefnið okkar sem og fyrir annað framhaldsnám,“ segir Sara Atladóttir, stúdent á 3. ári í heilbrigðislíftækni.