Þann 11. og 12. ágúst s.l. var haldið námskeið fyrir kennara fjöltyngdra nemenda í grunnskólum Akureyrarbæjar og Dalvíkurbyggðar á vegum Miðstöðvar skólaþróunar (MSHA) og Kennaradeildar Háskólans á Akureyri með stuðningi frá Fræðslu- og lýðheilsusviði Akureyrarbæjar og Fræðslu- og menningarsviði Dalvíkurbyggðar.
Á námskeiðinu var fjallað um kennsluaðferðina og námsefnið Talking Partners eða Samræðufélagar sem byggist á safni verkefna sem henta vel til að efla orðaforða, tjáningu og skilning barna á töluðu máli. Efnið er breskt að uppruna og hefur verið notað um árabil í þarlendum skólum með góðum árangri. Það hefur nú verið þýtt og staðfært á íslensku. Clare Reed, sérfræðingur og eigandi Talking Partners, var kennari á námskeiðinu.
Í opinberum stefnuskjölum, m.a. í fyrstu aðgerðaáætlun (2021-2024) nýrrar Menntastefnu til ársins 2030 er skýr og afmörkuð áhersla á markvissan stuðning við nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og nýlega voru aðalnámskrár grunn- og leikskóla uppfærðar m.t.t. þessa nemendahóps. Markmið breytinganna er að tryggja börnum með annað tungumál en íslensku og öðrum fjöltyngdum börnum menntun sem undirbýr þau betur undir virka þátttöku í samfélaginu og nám á öðrum skólastigum.
„Það er sérstaklega mikilvæg og ánægjulegt að Háskólinn á Akureyri hafi frumkvæði að því að bjóða kennurum upp á starfsþróun á þessu sviði og bregðist við því háværa ákalli sem verið hefur meðal kennara og stjórnenda um námskeið af þessum toga,“ segir Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor við Kennaradeild Háskólans á Akureyri.