Námskeið fyrir kennara fjöltyngdra nemenda um aðferðina Samræðufélaga

Brugðist við ákalli kennara og stjórnenda
Námskeið fyrir kennara fjöltyngdra nemenda um aðferðina Samræðufélaga

Þann 11. og 12. ágúst s.l. var haldið námskeið fyrir kennara fjöltyngdra nemenda í grunnskólum Akureyrarbæjar og Dalvíkurbyggðar á vegum Miðstöðvar skólaþróunar (MSHA) og Kennaradeildar Háskólans á Akureyri með stuðningi frá Fræðslu- og lýðheilsusviði Akureyrarbæjar og Fræðslu- og menningarsviði Dalvíkurbyggðar. 

Á námskeiðinu var fjallað um kennsluaðferðina og námsefnið Talking Partners eða Samræðufélagar sem byggist á safni verkefna sem henta vel til að efla orðaforða, tjáningu og skilning barna á töluðu máli. Efnið er breskt að uppruna og hefur verið notað um árabil í þarlendum skólum með góðum árangri. Það hefur nú verið þýtt og staðfært á íslensku. Clare Reed, sérfræðingur og eigandi Talking Partners, var kennari á námskeiðinu. 

Námskeið fyrir kennara fjöltyngdra nemenda um aðferðina Samræðufélaga

Í opinberum stefnuskjölum, m.a. í fyrstu aðgerðaáætlun (2021-2024) nýrrar Menntastefnu til ársins 2030 er skýr og afmörkuð áhersla á markvissan stuðning við nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og nýlega voru aðalnámskrár grunn- og leikskóla uppfærðar m.t.t. þessa nemendahóps. Markmið breytinganna er að tryggja börnum með annað tungumál en íslensku og öðrum fjöltyngdum börnum menntun sem undirbýr þau betur undir virka þátttöku í samfélaginu og nám á öðrum skólastigum.  

„Það er sérstaklega mikilvæg og ánægjulegt að Háskólinn á Akureyri hafi frumkvæði að því að bjóða kennurum upp á starfsþróun á þessu sviði og bregðist við því háværa ákalli sem verið hefur meðal kennara og stjórnenda um námskeið af þessum toga,“ segir Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor við Kennaradeild Háskólans á Akureyri.

Námskeið fyrir kennara fjöltyngdra nemenda um aðferðina Samræðufélaga