Helstu niðurstöður rannsóknar Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Umfangsmesta rannsókn á þessu sviði hér á landi
Möguleiki er á að fjölga óstaðbundnu starfsfólki hjá ríkisstofnunum verði aukinn fjárhagslegur stuðningur frá ríkinu við slík störf. Þetta kemur fram í viðtölum við mannauðsstjóra ríkisstofnana sem má finna í nýrri skýrslu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RHA) um reynsluna af óstaðbundnum störfum, „Ef þú vilt búa úti á landi þá þarft þú að geta haft þetta val.“ Skýrslan er afrakstur rannsóknar sem styrkt var af Byggðarannsóknasjóði og byggðaáætlun, verkefnisstjóri var Sæunn Gísladóttir, en auk hennar unnu Anna Soffía Víkingsdóttir og Rannveig Gústafsdóttir að rannsókninni. Um er að ræða umfangsmestu rannsókn sem framkvæmd hefur verið um reynsluna af óstaðbundnum störfum hér á landi.
Í rannsókninni voru tekin einstaklingsviðtöl og rýnihópaviðtöl við einstaklinga í óstaðbundnu starfi og mannauðsstjóra með óstaðbundið starfsfólk. Mannauðsstjórum var tíðrætt um að einn helsti ókostur óstaðbundinna starfa væri sá kostnaður sem þeim fylgir m.a. vegna leigu á skrifstofurými og ferðalögum starfsfólks til höfuðstöðva. Slíkur kostnaður getur dregið úr hvatanum að auglýsa óstaðbundin störf, jafnvel þegar slíkt form starfa hentar stofnuninni vel. Einn mannauðsstjóranna sem viðtal var tekið við sagðist vera með fimm óstaðbundna starfsmenn en að hann ætli sér ekki að ráða fleiri, þetta sé farið að kosta svo mikið. Þetta sé peningur sem hann þurfi að taka af fræðslu eða einhverjum öðru. Hins vegar sagðist viðkomandi geta verið með miklu fleiri óstaðbundna ef hann fengi fjármagn með störfunum þar sem eðli starfanna væru slík.
Í ágúst 2024 var stigið skref til að hvetja til fjölgunar óstaðbundinna starfa í landsbyggðum en þá samþykkti Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra, að veita styrki fyrir allt að 150 milljónum kr. af byggðaáætlun til að fjölga þeim. Ríkisstofnanir á höfuðborgarsvæðinu munu geta sótt um styrki fyrir hvert starf óstaðbundið starf í landsbyggð fyrir allt að 2 milljónum króna á ári til að mæta kostnaði við aðstöðu fyrir starfsfólk og ferðakostnað, styrkirnir verða veittir vegna starfs til allt að þriggja ára. Einstaklingar sem störfuðu óstaðbundnir sem tóku þátt í rýnihóp í september töldu að þessi styrkur geti skipt miklu máli. Einhverjir mannauðsstjórar í rýnihóp töldu þetta skref einnig jákvætt, en aðrir töldu betra að fá einfaldlega auka fjármagn með óstaðbundnu starfsfólki sem megi ráðstafa til að greiða fyrir skrifstofukostnað og ferðakostnað frekar en að þurfa að sækja um styrki.
Stéttin á Húsavík er vinnuklasi þar sem mörg sinna óstaðbundnu starfi.
Óstaðbundin störf komin til að vera
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að óstaðbundin störf eru komin til að vera. Starfsfólk er heilt yfir farsælt í starfi, upplifir jákvætt viðhorf gagnvart óstaðbundnum störfum og hefur ekki áhyggjur af neikvæðum áhrifum þess að vera óstaðbundið á framtíðaratvinnumöguleika. Þvert á móti telur það reynslu af óstaðbundnum störfum sýna fram á sjálfstæði í starfi og öguð vinnubrögð. Að mati einstaklinga í óstaðbundnum störfum er einn allra helsti kostur starfanna að geta unnið starf sem væri ekki í boði staðbundið á svæðinu sem þau búa á. Þá fjölga óstaðbundin störf atvinnutækifærum fyrir háskólamenntað fólk í landsbyggðum.
Óstaðbundin störf auðvelda fólki að skipta um starf án þess að flytja maka og fjölskyldu milli landshluta vegna starfs, en geta einnig auðveldað fólki sem vill flytja á nýjan stað að taka starfið með sér. Mannauðsstjórar telja einn helsta kost óstaðbundinna starfa vera að geta boðið fólki upp á búsetufrelsi og þannig stutt við betri samræmingu vinnu- og fjölskyldulífs.
Fjölga umsækjendum
Óstaðbundin störf geta aukið framboð af umsækjendum fyrir vinnuveitendur, bæði nefna mannauðsstjórar að einn helsti kostur óstaðbundinna starfa sé að geta valið hæfasta fólkið óháð búsetu en einnig nefndu einstaklingar í óstaðbundnu starfi að vegna búsetu sinnar myndu sumir ekki sækja um starf hjá stofnunum á höfuðborgarsvæðinu nema ef það væri óstaðbundið. Þó ítreka mannauðsstjórar að til að vera farsælt í óstaðbundnu starfi þurfi fólk sem sinni þeim störfum að vera félagslega sterkt, skipulagt og agað.
Þrátt fyrir tækniframfarir er einn helsti galli óstaðbundinna starfa að mati fólks sem sinnir þeim fjarlægðin frá samstarfsfélögum og áhrif þess á samskipti. Fjarlægðin skapi galla þegar þarf að ná í einhvern með stuttum fyrirvara. Dæmi er um að fólk hafi sagt upp óstaðbundnum störfum vegna samskiptavanda við yfirmenn og samstarfsfólk.
Óstaðbundin störf geta meðal annars nýst sem jöfnunartól þar sem ójafnvægi er milli staðsetningar íbúa og opinbera starfa; meðaltal síðustu níu ára samkvæmt tölum Byggðastofnunar sýnir að á höfuðborgarsvæðinu búa að jafnaði 64% landsmanna en hlutfall stöðugilda ríkisins þar er 71,3%. Á landsbyggðinni búa 36,2% landsmanna og er hlutfall stöðugilda ríkisins þar 29,9%. Mikilvægt var því að kanna reynsluna af slíkum störfum sem lið í að meta hversu vel þessi byggðaaðgerð hefur nýst í byggðaþróun, en skortur hefur verið á greiningum á hvernig hafi tekist til við innleiðingu þeirra.
Ákall er eftir vinnuklösum um land allt til að styðja betur við óstaðbundið starfsfólk. Þetta vinnurými, Stéttin, er á Húsavík.
Skortur á upplýsingamiðlun
Talin er þörf á að kynna fyrirkomulag óstaðbundinna starfa betur fyrir mannauðsstjórum, vísbendingar eru um að skortur hafi verið á upplýsingamiðlun á nýjum reglum, leiðbeiningum og styrkjum er varða óstaðbundin störf. Til dæmis vissu ekki allir mannauðsstjórar sem viðtöl voru tekin við að hægt væri að merkja störf sem óstaðbundin inni á starfatorgi. Þá mætti koma á fót samvinnuhóp mannauðsstjóra stofnana sem hafa bolmagn til að halda úti óstaðbundnum störfum til að styðja betur við þessa byggðaðagerð.
Einnig er talin þörf á að kynna óstaðbundin störf betur sem möguleika fyrir einstaklinga sem starfa fyrir ríkisstofnanir. Þá þyrfti að kynna vel regluverk í kringum þessi störf, vinnuverndarsjónarmið og réttindi.
Ákall eftir vinnuklösum
Mikill áhugi er meðal bæði einstaklinga í óstaðbundnu starfi og mannauðsstjóra fyrir innleiðingu vinnuklasa (fjarvinnslurýma) í sem flestum bæjarfélögum þar sem sporna má gegn félagslegri einangrun óstaðbundins starfsfólks með því að bjóða því upp á vinnurými ásamt öðrum í svipaðri stöðu. Þetta er talið árangursríkara heldur en að einstaklingar fái skrifborð hjá stofnun sem nú þegar hefur aðsetur í bæjarfélaginu til að tryggja jafnræði.
Hér má lesa skýrsluna í heild sinni.