Í lok september heimsóttu níu kennarar Auðlindadeildar Færeyjar með styrk frá Nordplus
Í lok september heimsóttu níu kennarar Auðlindadeildar Færeyjar með styrk frá Nordplus. Styrkurinn fékkst nokkuð óvænt og með stuttum fyrirvara svo starfsfólk Auðlindadeildar lét hendur standa fram úr ermum og skipulagði fimm daga fræðsludagskrá á aðeins nokkrum vikum. Hápunktur ferðarinnar var heimsókn í Háskólann í Færeyjum sem heitir á færeysku Fróðskaparsetur Foroya, þar sem mögulegir samvinnufletir í kennslu og rannsóknum voru ræddir í þaula. Fróðskaparsetrið býður meðal annars upp á grunnnám í sjávarlíffræði, sameindalíffræði, orkufræði og líffræðilegri vistfræði. Þá er fljótlega stefnt á uppbyggingu á nýju háskólasvæði og bíður starfsfólk setursins óþreyjufullt eftir að það raungerist.
„Líffræðileg fjölbreytni á landi og í sjó er í brennidepli hjá þeim - bæði í kennslu og rannsóknum,“ segir Eva María, aðjúnkt við Auðlindadeild HA og ein Færeyjarfaranna. Náttúruvísindadeild setursins heyrir undir vísinda- og tæknisvið og vinna um 50 einstaklingar við sviðið. Rétt eins og stúdentar í grunnnámi í sjávarútvegsfræði og líftækni við HA þurfa stúdentar við náttúruvísindadeild Fróðskaparseturs að vinna lokaverkefni í lok grunnnáms. Þeirra verkefni er hins vegar nokkuð stærra í sniðum eða um 24 ECTS í stað 12 ECTS eins og við Auðlindadeild HA.
Nordplus leiðir fólk saman og skapar tækifæri
„Hér sé ég samstarfstækifæri, til dæmis innan líftæknilegrar örverufræði og sjávarútvegsfræði. Þar sem Fróðskaparsetrið tilheyrir nú Erasmus+ áætluninni gætu áhugasamir færeyskir nemendur unnið hluta lokaverkefnis hjá okkur, notið leiðsagnar kennara við Auðlindadeild HA og öfugt - okkar nemendur farið út. Þannig væri til dæmis auðveldlega hægt að byggja verkefni í kringum samanburð á ákveðnum þáttum á norðanverðu Íslandi og í Færeyjum, hvort sem er innan líftækni eða sjávarútvegsfræði. Þetta er akkúrat dæmi um af hverju Nordplus styrkirnir eru mikilvægir - það er miklu erfiðara að byggja upp svona tengslanet alfarið í gegnum tölvu,“ segir Eva. Báðir hópar sýndu slíkum hugmyndum mikinn áhuga og ætla að halda samtalinu áfram á næstunni.
Eva Ingvadóttir aðjúnkt heldur erindi. Málin rædd af miklum eldmóði (og þekkingu!) í Ocean Rainforest. Á myndinni eru Hreiðar Valtýsson dósent (fyrir miðju) og Johan Christiansen (til hægri).
Eva og Magnús Víðisson, einnig aðjúnkt við Auðlindadeild, héldu erindi í Fróðskaparsetri um uppbyggingu náms við HA, kennsluaðferðir, rannsóknir og íslenskt háskólaumhverfi.
Auk Fróðskaparseturs heimsótti hópurinn stofnanirnar Firum, fyrrum Fiskaaling, og Granskarasetrið INOVA, og fyrirtækin Ocean Rainforest, Hiddenfjord, Framherja, Bergfrost, JFK og Bakkafrost. „Við fengum líka að heilsa upp á aðalræðismann Íslands í Færeyjum, hann Hannes Heimisson,“ bætir Eva við.
Eva segir tengsl Háskólans á Akureyri – og þá sérstaklega Auðlindadeildar - við atvinnulífið á Íslandi standa upp úr eftir allar þessar heimsóknir. „Við getum verið virkilega stolt af því tengslaneti sem starfsfólk deildarinnar er búið að byggja upp og viðhalda í gegnum árin. Það að stúdentar geti unnið lokaverkefni í samstarfi við fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegsfræði og líftækni, án mikilla vandkvæða, er einstakt og alls ekki sjálfsagður hlutur. Ég held að lykillinn að þessum árangri sé fyrst og fremst gott upplýsingaflæði, skýrar væntingar og góð samskipti,“ segir Eva.