Uppskeruhátíð Snjallræðis 2024

Snjallræði, sem í ár var haldið í sjötta sinn, er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri og MITdesignX.
Uppskeruhátíð Snjallræðis 2024

Aðstandendur tíu samfélagslegra nýsköpunarverkefna, sem snerta jafnt unga sem aldna og styðja m.a. við syrgjendur, fólk með fatlanir, skólakerfið og náttúruna, kynntu afrakstur vinnu síðustu mánaða á uppskeruhátíð Snjallræðis sem fram fór í Ráðhúsi Reykjavíkur föstudaginn 13. desember. Snjallræði er styrkt af Reykjavíkurborg, Marel og Vísindagörðum Háskóla Íslands.

Markmið Snjallræðis er að efla og styrkja samfélagslega nýsköpun og er eina verkefni sinnar tegundar á Íslandi þar sem teymin eru valin til þátttöku út frá mati á samfélagslegum áhrifum. Snjallræði veitir teymum sem brenna fyrir bættu samfélagi vettvang til að þróa eigin lausnir áfram og finna þeim sjálfbæran farveg. Hraðallinn hverfist um fjóra hönnunarspretti sem Svafa Grönfeldt og samstarfsfélagar hennar frá MIT leiddu í samstarfi við innlenda sérfræðinga á sviði samfélagslegrar nýsköpunar. Teymin fengu þjálfun og ráðgjöf yfir ríflega fjögurra mánaða tímabil, vinnuaðstöðu í Grósku hugmyndahúsi og aðgang að neti mentora sem leiðbeindu frumkvöðlunum, miðluðu af reynslu sinni og studdu teymin.

Dr. Einar Stefánsson, prófessor emerítus í augnlækningum við Háskóla Íslands og frumkvöðull, hélt opnunarerindi á uppskeruhátíðinni. Þar sagði hann frá sínum frumkvöðlaferli en hann stofnaði, ásamt Dr. Þorsteini Loftssyni, líftæknifyrirtækið Oculis fyrir rúmum 20 árum síðan. Oculis var skráð í kauphöllina á árinu og er nú með verðmætari fyrirtækjum landsins.

Fjölbreytt teymi kynntu verkefni sín

Teymin sem valin voru til þátttöku í Snjallræði í ár hafa áorkað miklu undir leiðsögn reynds hóps mentora á þeim 16 vikum sem liðnar eru frá því að verkefnið hófst. Verkefni teymanna eru afar fjölbreytt og fást við ólíkar samfélagslegar áskoranir. Verkefnið Hvað nú? einfaldar syrgjendum úrlausn hinna fjölmörgu verkefna sem fylgja andláti ástvinar með því að auðvelda aðgengi að upplýsingum og ráðgjöf, Námsheimar er gagnvirkur námsvefur með verkefnum sem stækkar verkfærakistu kennara, Animara stefnir á að opna netverslun með fatnaði fyrir fólk með fatlanir, CodonRed skimar eftir stökkbreytingum og skemmdum í erfðaefni og Velferðalag býður upp á námskeið, fyrirlestra og vinnustofur sem miða að því að bæta líðan ungmenna. CHEMeFuel þróar orkuríkt lífeldsneyti úr úrgangsefnum og grænu metanóli fyrir sjálfbæran flugrekstur með það að markmiði að draga úr kolefnislosun, Textílbarinn safnar og selur ónotaðan textíl til að draga úr úrgangi, NúnaTrix býr til fræðslutölvuleiki fyrir börn sem þurfa að gangast undir læknismeðferð og rannsóknir með það að markmiði að minnka kvíða og bæta heilsulæsi, Heillaspor Center stefnir á stofnun miðstöðvar á Íslandi fyrir snemmtæka meðferð við átröskunum og ALDA Clinical Technologies þróar máltæknitól fyrir snemmtæka greiningu og eftirfylgd með taugahrörnunarsjúkdómum og málröskunum í minni tungumálum.

Pallborð sérfræðinga á sviði sjálfbærni og nýsköpunar veittu teymunum endurgjöf eftir kynningarnar. Við kunnum Elvu Rakel Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Festu, Hauki Hafsteinssyni, yfirverkfræðingi hjá Marel, og Melkorku Sigríði Magnúsdóttur, meðstjórnanda hjá Iceland Innovation Week, bestu þakkir fyrir aðstoðina.

Alexandra Briem, formaður stafræns ráðs Reykjavíkurborgar, flutti lokaávarpið á uppskeruhátíðinni og veitti Snjallræðisteymum ársins 2024 viðurkenningar.