- Hver móta framtíð geimkönnunar á norðurslóðum?
- Mun sú framtíð breyta nálgun okkar varðandi sjálfbæra jörð?
- Hvert er hlutverk Íslands í framtíðaráformum varðandi geiminn?
NordSpace-verkefnið veltir þessum spurningum upp í Noregi, Svíþjóð og Íslandi með því að rannsaka hvaða efnahagslegu þættir eiga við hvað varðar geimgeirann, stefnur landanna í málefnum geimsins og þær hugmyndir sem móta framtíðarsýn um geiminn á norðurslóðum.
„Kannski gerir fólk sér ekki grein fyrir því en síðastliðnir mánuðir hafa verið annasamir þegar kemur að starfsemi tengdri geimnum víðs vegar um Ísland,“ segir Adam Fishwick sem er einn af aðalrannsakendum verkefnisins og ábyrgðarmaður íslenska hlutans. „Ég hef fylgst grannt með þessum viðburðum til að skilja hvað er að gerast á Íslandi í geimgeiranum, hverjir taka þátt og hvað verið er að gera,“ bætir hann við.
Hvað er í gangi í geimgeiranum á Íslandi?
„Það er ótrúlega margt. Í september heimsótti meðal annars alþjóðlegur vinnuhópur um könnun á Mars Ísland og hélt vinnufundi. Þá stóð Geimvísindastofnun Íslands fyrir opnum kynningarviðburði í tengslum við heimsóknina þar sem forseti Íslands var með opnunarávarp. Geimvísindastofnanir víðs vegar að úr heiminum – þar á meðal NASA og Geimvísindastofnun Evrópu – kynntu framtíðarsýn sína um geiminn,“ útskýrir Adam sem segir einnig að umræðuefnin hafi verið afar fjölbreytt eða allt frá tækifærum til að fjárfesta í Mars- og tunglhagkerfunum, til hlutverka lista og kynjajafnréttis í að efla könnun á geimnum.
NordSpace-verkefnið mun halda áfram að rannsaka mismunandi aðila sem taka þátt í geimgeiranum á Íslandi og á Norðurlöndum, með það að markmiði að læra meira um hverjir eru þátttakendur og hvernig þeir móta þróun geiminnviða á svæðinu. Rannsóknin er fjármögnuð til ársins 2026 af norska rannsóknaráðinu og í sumar var veitt viðbótarfjármögnun frá Háskóla Norðurslóðanna til að koma á fót nýju þemaneti um sjálfbærni í geimnum á norðurslóðum. Þetta net verður sett á laggirnar árið 2025 og verður fyrsti fundurinn í Reykjavík næsta sumar.
Kárhóll
Nýlegur fundur SMILE - verkefnis Geimvísindastofnunar Evrópu og Kínversku vísindaakademíunnar sýndi svo glögglega fjölbreytileika þátttakenda geimgeirans. Adam heimsótti einnig kínversk-íslensku heimskautarannsóknastöðina á Kárhóli til að kynnast starfsemi hennar og hlutverki betur þegar kemur að þróun geiminnviða á norðurslóðum og þannig lauk annasömum mánuðum í NordSpace verkefninu.
Adam er einnig rannsóknarstjóri skólans og gestaprófessor.