Starfsfólk heiðrað á ársfundi

Ársfundur HA fyrir starfsárið 2023 fór fram 30. maí
Starfsfólk heiðrað á ársfundi

Ársfundur Háskólans á Akureyri fyrir starfsárið 2023 fór fram 30. maí síðastliðinn. Þar fór fram hefðbundin dagskrá þar sem farið var yfir ársreikning háskólans og rýnt var í starfsárið. Þá fór Eyjólfur Guðmundsson rektor yfir stöðu háskólans, stefnur og horfur. Örkynningar frá rannsakendum hafa einnig fest sig í sessi á ársfundi og í ár voru það Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor við Kennaradeild, og Kristín Þórarinsdóttir, dósent við Framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum, sem kynntu tvær ólíkar rannsóknir.

Starfsfólk heiðrað við starfslok

Í lok ársfundar heiðraði rektor starfsfólk við starfslok með gullmerki háskólans. Eftirfarandi voru heiðruð:

Bragi Guðmundsson, prófessor við Kennaradeild. Bragi hefur starfað við kennaradeild HA frá hausti 1993 og tekið virkan þátt í uppbyggingu Kennaradeildar. Hann hefur í sínum störfum meðal annars sinnt starfi deildarforseta og brautarstjóra, auk þess sem hann ritstýrði útgáfu Afmælisrits deildarinnar fyrir árin 1993-2023.

Hjörleifur Einarsson, prófessor við Auðlindadeild. Hjörleifur hefur starfað við skólann frá árinu 1990 og sat meðal annars í vinnuhóp um tillögu að gæðakerfi HA og gerð verkáætlunar í gæðamálum auk þess sem hann sat í Háskólaráði.

Sigríður Halldórsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild. Sigríður hefur starfað við skólann frá árinu 1991 og tók meðal annars þátt í starfshópi sem fjallaði um stefnu háskólans á sviði fjarkennslu, sat í Vísindaráði, Doktorsnámsráði, stjórn vísindasjóðs og nefnd sem vann að stefnumótun og uppbyggingu Arctic Studies námi.

Háskólinn á Akureyri þakkar Braga, Hjörleifi og Sigríði fyrir ánægjulegt samstarf og þeirra mikilvæga þátt í uppbyggingu og eflingu háskólans. Með von um að nýr kafli reynist þeim ánægjulegur.

Forsíðumyndin var tekin af þeim Braga og Sigríði ásamt rektor en Hjörleifur gat því miður ekki verið viðstaddur ársfundinn.