RHA fékk í gær úthlutað styrk úr Byggðarannsóknasjóði til að rannsaka líðan og seiglu íslenskra bænda. Netkönnun verður lögð fyrir íslenska bændur og niðurstöður hennar verða teknar saman til þess að fá yfirsýn yfir líðan og seiglu bænda, sem og fyrirætlanir þeirra um að skipta um starfsvettvang og flutninga. Þar að auki verður athugað hvort munur sé á líðan bænda og líðan annarra Íslendinga á vinnumarkaði, að teknu tilliti til félagslýðfræðilegra þátta (s.s. kyns, aldurs, menntunar og fjárhagsstöðu). Loks verður skoðað hvort munur sé á líðan bænda eftir því hvort þeir hafi áform um að flytja eða skipta um atvinnugrein á næstu árum.
Bára Elísabet Dagsdóttir, sérfræðingur hjá RHA, leiðir rannsóknina en aðrir samstarfsaðilar eru Bændasamtök Íslands, Gísli Kort Kristófersson og Elín Díanna Gunnarsdóttir hjá Háskólanum á Akureyri.
Umsóknir í Byggðarannsóknasjóð voru 27 talsins, en fimm verkefni voru styrkt.
Frétt fengin af vef RHA.