Símenntun Háskólans á Akureyri (SMHA) stóð fyrir vel heppnuðu málþingi um gervigreind í samstarfi við Drift síðastliðinn föstudag.
Á málþinginu var fjallað um áhrif gervigreindar á menntun og frumkvöðlastarfsemi, og komu sérfræðingar, kennarar og nemendur saman til að deila sýn sinni á þróunina.
Ari Kristinn Jónsson, fyrrum rektor Háskólans í Reykjavík og sérfræðingur í gervigreind, var aðal fyrirlesari dagsins. Einnig var dregið fram mikilvægi ólíkra sjónarhorna þar sem Agnes Ómarsdóttir flutti erindi fyrir hönd nemenda og Helgi Freyr Hafþórsson og Helena Sigurðardóttir, starfsmenn Kennslumiðstöðvar Háskólans á Akureyri, ræddu áhrif gervigreindar á kennslu og nám.
Ajit Jaokar, kennari við Oxford háskóla, fjallaði um hvernig gervigreind hefur þegar breytt kennsluháttum hjá sér, og Magnús Smári Smárason, sérfræðingur við Háskólann á Akureyri, hélt erindi um þróun og notkun gervigreindar innan háskólasamfélagsins.
Deginum lauk með kynningu frá Drift, þar sem farið var yfir nýsköpunarstarf þeirra og hvernig gervigreind getur haft áhrif á frumkvöðlastarf og þróun nýrra lausna.
Málþingið tókst afar vel, og stefnt er að öðru málþingi í haust, þar sem sérstök áhersla verður lögð á gervigreind í skólastarfi fyrir kennara og foreldra barna í grunn- og framhaldsskólum. Fylgist með á smha.is fyrir nánari upplýsingar þegar þær berast.