Rannsóknasetur í lögreglufræði

Rannsóknasetur í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri (RLHA) er sameiginlegur vettvangur til rannsókna fyrir starfsfólk Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu (MSL) og Háskólans á Akureyri (HA), svo og annarra löggæslustofnana.

Hlutverk RLHA er meðal annars:

  • Að efla tengsl rannsókna og kennslu og samhæfa rannsóknir í lögreglufræði sem unnar eru við HA, MSL og aðrar löggæslustofnanir
  • Að styðja við kennslu og þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og veita nemendum í lögreglu- og löggæslufræði aðstoð við rannsóknastörf eftir því sem kostur er
  • Að sinna þjónustuverkefnum í rannsóknum í lögreglu- og löggæslufræði
  • Að gefa út og kynna niðurstöður rannsókna í lögreglu- og löggæslufræði
  • Að veita fræðslu og ráðgjöf varðandi málefni tengd lögreglu og löggæslu

Reglur og samningar um Rannsóknasetur í lögreglufræði

Reglur um akademísk hæfi og veitingu akademískra nafnbóta

HA og MSL hafa gert með sér samkomulag í tengslum við RLHA þar sem starfsfólki MSL gefst kostur á viðurkenningu á akademísku hæfi eða hljóta akademíska nafnbót.

Reglur um viðurkenningu HA á akademísku hæfi starfsmanna MSL og veitingu akademískrar nafnbótar við Rannsóknasetur í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri nr. 1631/2022.

Reglur um Rannsóknasetur í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri

Rannsóknasetur í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri (RLHA) er vísindaleg rannsóknastofnun sem til var stofnað með samstarfssamningi milli ríkislögreglustjóra (RLS) og Háskólans á Akureyri (HA), dagsettum 30. desember 2021.

Á ensku ber rannsóknasetrið heitið „Institute of Police Science Research at the University of Akureyri“.

Reglur um Rannsóknasetur í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri nr. 1630/2022

Samningur um samstarf ríkislögreglustjóra (RLS) og Háskólans á Akureyri (HA)

1 Tilgangur

Með samningi þessum vilja Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu (MSL), sem starfar innan embættis ríkislögreglustjóra, og HA efla kennslu og rannsóknir í lögreglufræði með því að auka samstarf og gera þessa þætti í starfi stofnananna sýnilegri.

2 Stjórn

Yfirstjórn samstarfsins er í höndum sex fulltrúa, þremur frá Háskólanum á Akureyri og þremur frá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu. Þá skipar hvor stofnun einn varamann fyrir sig.

Frá MSL sitja í stjórn forstöðumaður, aðstoðar-yfirlögregluþjónn og starfsmaður MSL, sem skipaður er til tveggja ára í senn.

Frá HA sitja í stjórn forseti Hug- og félagsvísindasviðs, ásamt tveimur akademískum starfsmönnum, tilnefndum af stjórn Hug- og félagsvísindasviðs, skipaðir til tveggja ára í senn.

Stjórnin skipar sér formann til eins árs úr hópi stjórnarfólks og skal formennskan skiptast á milli stofnana.

Stjórnin mótar stefnu rannsóknasetursins og setur reglur um þá þætti í starfsemi þess sem þurfa þykir á hverjum tíma. Þá sker stjórnin úr um vafamál sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi rannsókna­setursins.

3 Samstarfsverkefni

Meðal hlutverka RLHA er að stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaaðila á sviði lögreglufræði, ásamt því að stuðla að sterkum tengslum við löggæslustofnanir.

Þá skal RLHA standa að sameiginlegum málþingum og ráðstefnum á sviði lögreglu- og löggæslufræði og halda eða stuðla að því að haldin séu námskeið og fyrirlestrar.

3.2 Rannsóknir

3.2.1 Rannsóknasetur í lögreglufræði við HA

Rannsóknasetur í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri (RLHA) („Institute of Police Science Research at the University of Akureyri“) er sameiginlegur vettvangur starfsmanna MSL og HA til eflingar rannsókna í lögreglu- og löggæslufræðum. Einnig hefur RLHA það hlutverk að bæta umhverfi fyrir rannsóknanám (meistara- og doktorsnám) við Hug- og félagsvísindasvið HA. Stofnunin getur verið vettvangur rannsókna vísindamanna sem starfa utan MSL og HA enda séu rannsóknir þeirra vistaðar við stofnunina og í samstarfi við aðila innan hennar. Sérstakar reglur gilda um RLHA sem

3.2.1.1 Akademískar nafnbætur

Háskólamenntað starfsfólk MSL, með aðalstarf hjá MSL, á rétt á að sækja um mat á hæfi til að hljóta akademíska nafnbót við RLHA í samræmi við gildandi reglur HA. Viðurkenning á akademísku hæfi veitir viðkomandi starfsmanni heimild til að bera þá akademísku nafnbót sem hann er metinn hæfur til í stöðu klínísks lektors, dósents eða prófessors. Í því felst einnig að starfsmaðurinn birtir verk sín sameiginlega í nafni MSL og Hug- og félagsvísindasviðs HA. Til þess að formfesta þetta hlutverk gera nafnbótarhafi og RLHA formlegan samning sín á milli um þátttöku í starfi sviðsins og það akademíska starf (réttindi og skyldur) sem nafnbótin veitir.
Rektor veitir nafnbætur að fengnu áliti dómnefndar. Nafnbót er veitt til 5 ára en fellur niður leggi starfsmaður niður störf við MSL, eða er ekki í aðalstarfi þar.

3.2.1.2 Stöður til fimm ára

Starfsfólk Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu, sem gert hefur samkomulag við HA og RLHA og uppfyllir hæfisskilyrði um stöðu háskólakennara, sbr. lög nr. 85/2008 um opinbera háskóla, á vettvangi fræða sem annaðhvort eru kennd við Hug- og félagsvísindasvið HA eða tengjast viðfangsefnum þess, getur sótt um akademískar stöður við RLHA. Stöðurnar eru að lágmarki 20% og eru rannsóknastöður við RLHA. Um umbun fyrir vinnuframlag er samið sérstaklega við þá stofnun þar sem umsækjandi er í aðalstarfi. Akademískir starfsmenn RLHA fá sérstaklega greitt fyrir kennslu við HA samkvæmt launataxta stundakennara. Stjórn ákveður hversu margar stöður eru heimilar við RLHA á hverjum tíma. Stöðurnar eru veittar til fimm ára í senn. Forseti fræðasviðs ræður í stöður við RLHA að fengnu áliti dómnefndar HA, stjórnar Hug- og félagsvísindasviðs HA og stjórnar RLHA. Stöðurnar skulu auglýstar á innra neti viðkomandi stofnana.

3.2.2 Afrakstur rannsókna við Rannsóknasetur í lögreglufræði

Rannsóknir við RLHA teljast vistaðar við Hug- og félagsvísindasvið HA. Birting vísindagreina eða annars afraksturs rannsóknanna, s.s. kynningar rannsóknaverkefna og útdrátta á ráðstefnum eða í fjölmiðlum, skal vera í nafni viðkomandi starfsmanns, auk beggja stofnana, HA og MSL.

3.2.3 Fjárframlög og styrkir

Starfsmönnum RLHA með stöðu til þriggja ára er heimilt að sækja um styrki í rannsóknasjóð HA eftir reglum sem um hann gilda. Akademískri nafnbót fylgir ekki réttur til að sækja um fjárframlög úr rannsóknarsjóðum HA. Heimilt er að starfrækja rannsóknasjóð. Um hann gilda þá reglur sem stjórn RLHA setur.

3.4 Málþing og ráðstefnur

Samningsaðilar munu leitast við að halda sameiginleg málþing og ráðstefnur þar sem m.a. skulu tekin fyrir þau málefni/verkefni sem samningur þessi fjallar um, svo og fagleg málefni sem tengjast lögreglu- og löggæslufræði.

4 Ábyrgðarsvið

Hvor samningsaðili fyrir sig ber sjálfstæða ábyrgð á framkvæmd samningsins. Að því marki sem samið er um sameiginleg verkefni skal ábyrgðin vera sameiginleg.

5 Ráðning starfsmanna

Gert er ráð fyrir því sem meginreglu að hvor samningsaðili ráði starfsmenn til starfa með hefðbundnum hætti. Þó er gert ráð fyrir að ráðning geti orðið sameiginleg á grundvelli samnings þessa og einstakra verkefna sem aðilar ráðast í og verður þá gerður sérsamningur þar að lútandi.

6 Húsnæðismál

Báðir samningsaðilar leggja til húsnæði sitt til sameiginlegra verkefna án sérstakrar greiðslu nema um það sé samið sérstaklega vegna eðlis einstakra verkefna.

7 Tæki og búnaður

Báðir samningsaðilar leggja til tæki og búnað í sinni eigu til sameiginlegra verkefna án sérstakrar greiðslu nema um það sé sérstaklega samið fyrirfram. Þannig er gagnkvæmur vilji til að samnýta tæki og búnað MSL og HA. Komi til kaupa á búnaði vegna einstakra verkefna skal við það miðað að sá aðili sem vistar tækin og notar þau í daglegum rekstri sínum eigi og greiði tækin. Sé um sameiginleg not að ræða skulu aðilar semja um fjármögnun, eignarhald og ábyrgð á rekstri tækjanna áður en til verkefnisins er stofnað.

8 Kostnaður

Að því marki sem ekki er um annað samið greiðir hvor aðili um sig sinn kostnað af framkvæmd samningsins eða framkvæmd einstakra verkefna. Samið skal fyrirfram um skiptingu kostnaðar vegna aðkeyptrar þjónustu eða annan sérstakan kostnað sem samningsaðilar þurfa að leggja í og telst ekki vera hluti af almennum daglegum rekstri samningsaðila.

9 Ýmis atriði

9.1 Gildistími - Uppsögn

Samningur þessi er ótímabundinn en hvor samningsaðili um sig hefur heimild til þess að segja honum upp með sex mánaða fyrirvara miðað við áramót ár hvert.

9.2 Tilvísun til lagaákvæða, undirritun o.fl.

Reglur þessar, sem samþykktar voru í háskólaráði 15. desember 2022, eru settar á grundvelli heimildar í 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglurnar öðlast þegar gildi.

Stjórn

  • Eyrún Eyþórsdóttir, tilnefnd af stjórn sviðsins
  • Guðmundur Ásgeirsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn MSL
  • Hrannar Már Hafberg, tilnefndur af stjórn sviðsins
  • Ólafur Örn Bragason, forstöðumaður MSL
  • Tom Barry, forseti Hug- og félagsvísindasviðs
  • NN starfsmaður MSL

Varamenn:

  • Andrew Paul Hill, fyrir hönd Hug- og félagsvísindasviðs
  • NN, fyrir hönd MSL

Starfsmenn

  • Guðmundur Ásgeirsson
  • Ólafur Örn Bragason

Rannsóknir