Raunfærnimat – Viðurkenning á reynslu og þekkingu

Tveir stúdentar að læra saman á Ketilkaffi

Hvað er raunfærni?

Raunfærni er samanlögð færni og þekking sem einstaklingur öðlast í gegnum störf, nám og daglegt líf. Þetta getur verið í gegnum námskeið, félagsstörf eða starfsreynslu. Raunfærnimat veitir viðurkenningu á þessari þekkingu í formi námseininga og getur stytt námstíma.

Skólaárið 2025-2026 er boðið upp á raunfærnimat í:

  • Ákveðnum námskeiðum í grunnnámi í leikskólakennarafræði
  • Ákveðnum námskeiðum í grunnnámi í lögreglufræði

Raunfærnimat í leikskólakennarafræði og lögreglufræði

Skilyrði fyrir þátttöku

  • Þú þarft að vera skráð/ur í grunnnám í leikskólakennarafræði eða lögreglufræði
  • Þú þarft að vera 25 ára eða eldri
  • Þriggja ára samfelld starfsreynsla í leikskóla eða við löggæslu
  • Starfsreynsla þarf að vera staðfest með starfsvottorði frá vinnuveitanda

Hver er ávinningurinn?

  • Getur leitt til þess að þú þarf ekki að sitja námskeið í efni sem þú þegar kannt
  • Getur dregið úr álagi í námi
  • Getur stytt námstíma

Ferlið - Hvernig virkar raunfærnimat?

  1. Kynning fyrir stúdenta. Hópurinn fær kynningu á ferlinu og þeim stuðningi sem er í boði frá verkefnastjórum og náms- og starfsráðgjafa
  2. Samtal. Þú hefur samband við Anítu Jónsdóttur náms- og starfsráðgjafa, anitajons@unak.is
  3. Skimunarlisti. Þú fyllir út skimunarlista þar sem þú metur eigin færni í tengslum við raunfærnimatið. Þau sem uppfylla skilyrði eru boðin í viðtal hjá náms- og starfsráðgjafa. Hér er að finna sýnishorn af skimunarlista fyrir eitt námskeið
  4. Umsókn um raunfærnimat. Að loknu viðtali hjá náms- og starfsráðgjafa og mati á skimunarlista er þér boðið að sækja um raunfærnimat

Viltu vita meira?

Ef þú hefur spurningar eða vilt fá frekari upplýsingar, getur þú haft samband við eftirfarandi aðila:

Nánar um raunfærnimat á háskólastigi

Haustið 2023 hófst undirbúningur umsóknar Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Listaháskóla Íslands um raunfærnimat til styttingar náms á háskólastigi. Styrkur fékkst úr Samstarfssjóði háskóla hjá Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu í byrjun árs 2024.

Háskóli Íslands leiðir þróunarverkefnið og var vinnan unnin á grunni tilraunaverkefnis um raunfærnimat í leikskólakennarafræði við HÍ frá 2021. Markmið verkefnisins er að þróa raunfærnimat á háskólastigi og þróa verkfæri sem nýtast munu í framhaldinu öllu háskólastiginu.

Þær námleiðir sem ríða á vaðið innan Háskólans á Akureyri eru leikskólakennarafræði við Kennaradeild og lögreglufræði við Félagsvísindadeild. Þróunarverkefnið stendur til loka skólaársins 2025-2026 og er vonast til að það verði fyrirmynd að frekara raunfærnimati á háskólastigi.

Frekari upplýsingar veitir Anna Karen Úlfarsdóttir verkefnastjóri raunfærnimatsverkefnisins.