FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Fimmtudaginn 19.09.2019 kl. 14.00. Borgir, R262
Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:37.
Mættir voru auk hans:
Birna G. Konráðsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra
Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Kristján Þór Magnússon fulltrúi háskólaráðs
Óskar Þór Vilhjálmsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Sólveig María Árnadóttir fulltrúi stúdenta
Aðrir mættir:
Martha Lilja Olsen starfsmaður og ritari háskólaráðs
Gestir:
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála
Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu
Rektor setti fund og bauð nýja háskólaráðsfulltrúa velkomna.
Rektor kynnti dagskrá og óskaði eftir breytingu á röð dagskrárliða. Fjármál og rekstur tekið fram fyrir sem fyrsta mál á dagskrá. Engar athugasemdir við breytingu á röð dagskrárliða. Birna óskaði eftir að ræða sérstaklega a-lið undir liðnum bókfærð mál.
1. Fjármál og rekstur
Forstöðumaður fjármála og framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu komu inn á fundinn undir þessum lið.
Forstöðumaður fjármála fór yfir rekstraryfirlit fyrstu sjö mánuði 2019. Reksturinn er í járnum. Heildarniðurstaðan um það bil á pari, en enginn afgangur og því þarf áfram að halda vel utan um reksturinn á síðari hluta ársins. Hluti af þungum rekstri ársins skýrist af framkvæmdum á húsnæði skólans, sem þurfti að tæma vegna myglu en gert er ráð fyrir aukaframlagi frá stjórnvöldum vegna þessara framkvæmda.
Dagmar Ýr Stefánsdóttir kom inn á fundinn kl. 14.
2. Lög og reglur sem Háskólinn á Akureyri starfar eftir
Martha Lilja fór yfir helstu lög og reglur sem Háskólinn á Akureyri starfar eftir, til upplýsinga fyrir nýja háskólaráðsfulltrúa.
3. Starfsreglur, hlutverk og starfsemi háskólaráðs
Rektor fór yfir hlutverk háskólaráðs og háskólaráðsfulltrúa samkvæmt lögum. Jafnframt kynnti hann og fór yfir starfsreglur háskólaráðs.
4. Endanlegar innritunartölur á haustmisseri 2019
Rektor fór yfir endanlegar innritunartölur haustmisseris. Nýnemar eru 1.112 á haustmisseri. Af þeim eru um helmingur sem munu þreyta samkeppnispróf í desember og aðeins 190 af þeim komast áfram á vormisseri eftir samkeppnispróf.
Rektor kynnti tillögu framkvæmdastjórnar háskólans um fyrirkomulag innritunar í nám við Háskólann á Akureyri um áramót.
Í ljósi rekstrarstöðu háskólans samþykkir háskólaráð tillögu framkvæmdastjórnar um að ekki verði opnað fyrir innritun nýrra námsferla í grunnnám um áramót. Nemendur í klásusnámi sem ekki komast áfram eftir samkeppnispróf munu því ekki geta innritast í nám á vormisseri á öðrum námsbrautum þar sem það telst innritun nýrra nemenda á öðrum námsbrautum. Nemendur sem óska eftir innritun inn í sama nám og þeir voru í áður geta innritast aftur eftir námshlé. Heimilt verður að innrita í meistaranám samkvæmt reglum viðkomandi deilda en að tryggt sé að deildirnar hafi fjárhagslegt bolmagn til að taka við fleiri nemendum í framhaldsnámi. Jafnframt verður áfram heimilt að innrita nemendur í doktorsnám samkvæmt reglum um doktorsnám, þ.e. að styrkur eða fjármagn fylgi hverjum doktorsnema.
5. Aukarannsóknamisseri 2020
Rektor lagði til að háskólaráð samþykkti, líkt og undanfarin þrjú ár, að veita aukarannsóknamisseri á árinu 2020 til aðjúnkta, lektora eða dósenta sem hyggjast stunda doktorsnám árið 2020. Leyfin eru veitt í þeim tilgangi að styðja við það markmið skólans að 75% af starfsmönnum á fræðasviðum háskólans séu doktorsmenntaðir. Fjöldi rannsóknamissera á hverju fræðasviði miðast við fjölda starfsmanna, þ.e. eitt rannsóknamisseri á heilbrigðisvísindasviði og viðskipta- og raunvísindasviði og tvö rannsóknamisseri á hug- og félagsvísindasviði. Rektor veitir slík aukarannsóknamisseri á grundvelli 4. gr. reglna nr. 355/2012 um rannsóknamisseri kennara við Háskólann á Akureyri.
Háskólaráð óskar jafnframt eftir að framkvæmdastjórn leggi fram tillögu um stefnu og fyrirkomulag aukarannsóknamissera fyrir doktorsnema til næstu ára.
6. Til kynningar
Mannauðsstefna HA
Háskólaráð samþykkir að mannauðsstefna háskólans sem samþykkt var árið 2011 gildi áfram. Jafnframt óskar háskólaráð eftir að mannauðsstefnan verði rýnd og endurskoðuð með það að markmiði að lögð verði fram drög að nýrri mannauðsstefnu á vormisseri 2020.
Launa- og jafnlaunastefna
Lögð fram til kynningar. Verður lögð fram til samþykktar í október.
7. Bókfærð mál til samþykktar
Skipun fagráðs um viðbrögð við einelti, ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi innan Háskólans á Akureyri
Rektor leggur fram eftirfarandi tillögu að skipun fagráðsins:
- Jóhanna Ella Jónsdóttir, sálfræðingur og mannauðsstjóri, formaður fagráðsins. Ekki hefur verið tilnefndur varafulltrúi.
- Árni Pálsson, hrl. Varafulltrúi hans: Martha Lilja Olsen stjórnsýslufræðingur.
- Árný Þóra Ármannsdóttir náms- og starfsráðgjafi. Varafulltrúi hennar: Solveig Hrafnsdóttir náms- og starfsráðgjafi.
Háskólaráð samþykkir ofangreinda tillögu um skipun fagráðsins. Í reglum um viðbrögð við einelti, ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi innan Háskólans á Akureyri er tiltekið að reglurnar skuli endurskoðaðar í ljósi reynslunnar innan tveggja ára frá því að þær tóku gildi. Háskólaráð óskar eftir að fagráðið skili greinagerð fyrir lok þessa skólaárs um reynsluna af störfum fagráðsins og hvort þurfi að endurskoða reglurnar eða samsetningu fagráðsins.
Staðgengill rektors skólaárið 2019-2020
Rannveig Björnsdóttir hefur verið skipuð staðgengill rektors skólaárið 2019-2020.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:25.