FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Fimmtudaginn 21.11.2019 kl. 13.30. Borgir, R262
Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:30.
Mættir voru auk hans:
Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra (í fjarfundi)
Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Kristján Þór Magnússon fulltrúi háskólaráðs
Óskar Þór Vilhjálmsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Sólveig María Árnadóttir fulltrúi nemenda
Aðrir mættir:
Martha Lilja Olsen starfsmaður og ritari háskólaráðs
Gestir:
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála og greininga
Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu
Steingrímur Sigurgeirsson ráðgjafi hjá Capacent (í fjarfundi)
Þórey Vilhjálmsdóttir ráðgjafi hjá Capacent (í fjarfundi)
Rektor kynnti dagskrá.
1.Fjármál og rekstur
Harpa Halldórsdóttir og Hólmar Svansson sátu þennan lið fundarins.
Rekstraryfirlit – staðan 2019
Forstöðumaður fjármála kynnti rekstraryfirlit janúar til september 2019. Reksturinn er á áætlun og staða skólans í heild í jafnvægi en mikilvægt að ítreka að ekkert má út af bregða til að reksturinn haldist í jafnvægi. Framundan er endurnýjun kjarasamninga og launahækkanir. Það þarf því áfram að gæta aðhalds og varkárni í rekstri.
Fjárhagsáætlun 2020
Fjárhagsáætlun 2020 ásamt greinagerð hefur verið send í menntamálaráðuneytið en ekki hafa borist svör eða staðfesting á áætluninni. Áætlunin sem send var í ráðuneytið liggur fyrir til kynningar.
Stefna ríkisaðila til þriggja ára
Stefna ríkisaðila til þriggja ára (2020-2022) fyrir Háskólann á Akureyri var send menntamálaráðuneyti ásamt fjárhagsáætlun 2020 og þriggja ára áætlun. Þessi skjöl liggja fram til kynningar.
Nemendafjöldi og innritun 2020
Tillögur í vinnslu og verða til umræðu í desember.
2. Úttekt vegna jafnlaunavottunar
Framkvæmdastjóri og forstöðumaður fjármála sátu einnig þennan lið fundarins.
Úttekt vegna jafnlaunavottunar Háskólans á Akureyri hefur farið fram og fyrir liggur að vottunaraðili mælir með að háskólinn hljóti jafnlaunavottun. Endanleg niðurstaða verður ljós innan 8 vikna.
3. Jafnréttisvísir
Þórey Vilhjálmsdóttir og Steingrímur Sigurgeirsson ráðgjafar hjá Capacent kynntu niðurstöður greiningar sinnar í verkefninu Jafnréttisvísi sem þau hafa verið að vinna með Háskólanum á Akureyri síðan á vormánuðum.
Háskólaráð lýsir yfir ánægju með að Háskólinn á Akureyri hafi tekið þetta mikilvæga skref að innleiða Jafnréttisvísi og styður heilshugar við næstu skref verkefnisins.
4. Staða Háskólans á Akureyri í íslensku háskólaumhverfi miðað við stefnu stjórnvalda
Umræða um stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum háskóla.
Háskólinn á Akureyri er í sérstakri stöðu miðað við aðra opinbera háskóla landsins. Aðsókn að HA er meiri en þau ársnemaígildi sem skólinn hefur yfir að ráða og hefur því þurft að þrengja aðgangsskilyrði verulega síðustu tvö ár á meðan að aðrir skólar virðast ekki vera með sömu ásókn, miðað við opinberar tölur. Háskólaráð áréttar bókun frá fyrri háskólaráðsfundi þar sem farið er framá skýra sýn stjórnvalda í uppbyggingu og eflingu háskólamenntunar, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins.
Stuðningur háskólans við uppbyggingu samfélaga utan höfuðborgarsvæðisins er lykilatriði til þess að unnt sé að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf og þar með fjölbreyttari samfélög. Líkt og fram kemur í stefnumótun skólans verður Háskólinn á Akureyri að vera kjölfestan í rannsóknum og nýsköpun sem leiða til öflugs þekkingarsamfélags.
Til þess að svo megi vera verður Háskólinn á Akureyri að fá rými til þess að eflast enn frekar, sérstaklega útfrá rannsóknartengdu meistara- og doktorsnámi á sama tíma og skólanum sé tryggt nægilegt fjármagn til að sinna þeim mikla fjölda nemenda sem vill sækja til skólans. Í þessu samhengi væri eðlilegt að stjórnvöld litu til heildstæðrar stefnu í byggðamálum landsins þar sem meðal annars væri horft til þess mikla og góða árangurs sem náðst hefur í Noregi með uppbyggingu Háskólans í Tromsö, norðurslóðaháskóla Noregs og þeirra sértæku aðgerða sem gripið var til svo að unnt væri að efla rannsóknir við þann skóla.
Háskólaráð felur rektor að ræða sérstaklega við stjórnvöld, sveitarfélög og háskólasamfélagið um nauðsyn á slíkri nálgun fyrir Háskólann á Akureyri.
Þá er rektor falið að skoða sérstaklega árangur HA í rannsóknum, árangur í umsóknum í samkeppnissjóði og með hvaða hætti unnt væri að efla enn frekar árangur á þessu sviði. Málið verði kynnt fyrir háskólaráði í febrúar 2020.
5. Til samþykktar
- Breyting á reglum um ferðasjóð. Ekki er um grundvallarbreytingar, aðeins skýringar á orðalagi. Hámarksstyrkur í ferðasjóð er kr. 400.000 og bætt er inn í reglurnar að heimilt sé að sækja um styrk til að fara á innlendar ráðstefnur, ekki einungis erlendar ráðstefnur.
- Skjalastefna HA. Drög að stefnunni voru kynnt á síðasta háskólaráðsfundi og er stefnan nú lögð fram til samþykktar.
- Nýtt námsframboð: tvær nýjar námsleiðir á meistarastigi við viðskipta- og raunvísindasvið, annars vegar meistaranám í stjórnun auðlinda í samstarfi við Háskóla Íslands og hins vegar meistaranám í sjálfbærri framleiðslu og nýtingu sjávarafurða í samstarfi við þrjá aðra háskóla (Bodö, Gautaborg og Háskólann á Hólum). Námið er innan núverandi fjárhagsramma sviðsins og því er ekki um viðbótarfjármagn að ræða.
Ofangreint er samþykkt.
Í lok fundarins minntist rektor Ólafs Búa Gunnlaugssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra og forstöðumanns við háskólann. Óli Búi, eins og hann var alltaf kallaður, lést þann 15. nóvember síðastliðinn eftir langvarandi veikindi. Hann starfaði við háskólann frá árinu 1988 til 2018, eða í 30 ár og var einn öflugasti stuðningsmaður og talsmaður háskólans. Þátttaka Óla Búa og framlag hans til uppbyggingar og þróunar Háskólans á Akureyri verður seint fullþakkað. Haldin var minningarstund fyrir starfsfólk skólans og var hún vel sótt. Háskólaráð sendir fjölskyldu, ættingjum og vinum Óla Búa innilegar samúðarkveðjur og þakkar fyrir afar farsælt og ánægjulegt samstarf síðastliðin 30 ár.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:00