Fundargerð háskólaráðs
Mánudaginn 24.02.2020 kl 13:30. Borgir, R262
Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:35.
Mætt voru auk hans:
Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra (í fjarfundi).
Katrín Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs.
Kristján Þór Magnússon fulltrúi háskólaráðs (í fjarfundi).
Rúnar Gunnarsson varafulltrúi háskólasamfélagsins.
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins.
Sólveig María Árnadóttir fulltrúi nemenda.
Aðrir mættir:
Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu ritar fundagerð.
Gestir:
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála og greiningar.
Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu.
Rektor kynnti dagskrá.
1. Bókun vegna rafræns aukafundar 10.02.2020
Haldinn var rafrænn aukafundur þann 10. febrúar 2020 til að fara yfir tillögu rektors vegna afgreiðslu háskólaráðs á úthlutun rannsóknamissera. Háskólaráð samþykkir að við túlkun á reglum um rannsóknamisseri sé tekið tillit til beggja sjónarmiða sem koma fram frá rannsóknamisserisnefnd og úthluta rannsóknamisserum í samræmi við það. Það þýðir að fleiri gildar umsóknir eru fyrir hendi en þau rannsóknamisseri sem eru til úthlutunar í fjárhagsáætlun. Háskólaráð samþykkir að fela rektor að finna leið þar sem allir þeir er uppfylla skilyrði fái úthlutað rannsóknamisserum en misserunum verði dreift yfir skólaárin 2020-2021 og 2021-2022, í samráði við forseta fræðasviða. Rektor er falið að gera ráð fyrir þessum aukakostnaði í fjárhagsáætlanagerð áranna 2021 og 2022 þannig að það hafi ekki áhrif á þann fjölda rannsóknamissera sem úthlutað verður í umsóknarferli nk. skólaár. Rektor er einnig falið að sjá til þess að endurskoðun á reglum um rannsóknamisseri fari fram á þessu vormisseri 2020 þannig að endurskoðaðar reglur taki gildi frá og með næsta skólaári.
2. Fjármál og rekstur
Forstöðumaður fjármála fór yfir rekstrarniðurstöðu 2019. Rekstrarniðurstaða 2019 er jákvæð og reksturinn innan marka og í samræmi við áætlun. Reksturinn er í járnum og skólanum er of þröngur stakkur sniðinn miðað við núverandi starfsemi og ljóst að fyrirsjáanlegt er að rekstur næstu tveggja ára verður erfiður ef ekki fæst aukið fjármagn eða dregið verður úr rekstrargjöldum. Umræða skapaðist um mikil veikindi starfsfólks, sem hafa töluverð áhrif á rekstur stofnunarinnar, bæði fjárhagslegan rekstur en ekki síður í formi aukins álags á annað starfsfólk.
Harpa yfirgaf fundinn.
3. Innritun 2020 – nemendafjöldi og aðgerðir
Rektor fór yfir þróun nemendafjölda sl. 5 ár í samanburði við þróun á fjárframlagi stjórnvalda til háskólans. Ljóst er að framlag stjórnvalda pr. nemanda hefur lækkað þar sem fjöldi nemenda hefur vaxið þrátt fyrir hertar aðgangstakmarkanir.
Rektor kynnti jafnframt vinnureglur vegna meðferða umsókna um nám. Vinnureglur þessar eru til að gera inntökuferlið skilvirkara og svara álitamálum um meðferð umsókna. Háskólaráð gerir ekki athugasemdir við vinnureglurnar og teljast þær því staðfestar. Rektor getur uppfært eða gert nauðsynlegar breytingar á reglunum eins og þurfa þykir.
Rektor fór yfir heildarfjölda innritaðra nemenda í Háskólann á Akureyri á vormisseri 2020. Heildarfjöldi nemenda er rétt tæplega 2000 og því ljóst að aðgerðir haustmisseris til að draga úr nemendafjölda báru tilætlaðan árangur þar sem heildarnemendafjöldi í janúar 2020 er sambærilegur við fjölda nemenda í janúar 2019.
Háskólaráð Háskólans á Akureyri hvetur stjórnvöld til að auka fjármagn til skólans svo unnt sé að viðhalda góðu aðgengi nemenda að skólanum í stað þeirrar þróunar sem orðið hefur síðastliðin þrjú ár þar sem að skólinn hefur þurft að takmarka aðgengi að námi við skólann. Ástæðan er fyrst og fremst frysting á nemendafjölda í reiknilíkani háskóla á sama tíma og ásókn í nám við HA hefur aukist mikið. Þetta hefur leitt til þess að innritunarhlutfall nemenda hefur farið úr rúmum 80% í 73% og stefnir í að fara niður fyrir 60% haustið 2020. Háskólaráð telur það með öllu óviðunandi að Háskólinn á Akureyri – einn íslenskra háskóla sem verið hefur í verulegum vexti síðastliðinn fimm ár – þurfi áfram að búa við að herða aðgengi að skólanum. Hvetur Háskólaráð því íslensk stjórnvöld, og menntamálaráðherra sérstaklega, til að takast á við þau áhrif sem frysting reiknilíkansins hefur haft á skólann með því veita auknu fé til skólans svo unnt sé að milda þær hertu aðgangstakmarkanir sem stefnir í fyrir haustið 2020.
Háskólaráð Háskólans á Akureyri hvetur stjórnvöld jafnframt til þess að efla háskólamenntun í landinu öllu með því að auka verulega fjármuni til háskólastigsins í nýrri fjármálaáætlun. Markmiðið ætti að vera sem fyrr að fjármögnun á hvern nemanda sé í samræmi við fjármögnun á hvern nemenda í háskólum á Norðurlöndunum – og að því markmiði verði náð í þrepum innan næstu fimm ára fjármálaáætlunar.
Háskólinn á Akureyri hefur á átt sívaxandi vinsældum að fagna síðastliðinn fimm ár, eins og sést á meðfylgjandi mynd af heildarnemendafjölda við skólann.
Þessi mikli áhugi nemenda er til merkis um gríðarlega gott starf allra sem við skólann starfa þar sem tekist hefur að byggja upp eftirsótt nám sem boðið er uppá með nútíma kennsluaðferðum og bættu aðgengi að háskólanámi í gegnum stafræna miðlun náms. Á sama tíma hafa rannsóknir aukist og birtingar á hvern akademískan starfsmann jafnframt aukist hratt síðustu ár auk þess sem tekist hefur að hefja uppbyggingu doktorsnáms, en doktorsnám er grundvöllur að öflugum rannsóknum til að styrkja samfélagið allt í að takast á við nýjar áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar. Ekki er hægt að ætlast til þess að starfsfólk skólans haldi áfram að auka framlag sitt bæði í kennslu og rannsóknum, ásamt þeirri vinnu sem bætist við í aukinni stjórnsýslu í tengslum við gæðamat háskóla.
Á síðustu þremur árum hefur aukning nemenda orðið til þess að herða hefur þurft aðgengi að skólanum með því að taka inn hlutfallslega færri nemendur af þeim sem sækja um. Haustið 2019 var innritunarhlutfallið komið niður í 73% og gæti með hertum aðgerðum fyrir haustið 2020 farið niður fyrir 60%, allt eftir þróun umsóknarfjölda.
Frá árinu 2014 hefur orðið mikil aukning í umsóknum um nám við Háskólann á Akureyri. Árið 2014 var samþykktarhlutfallið tæp 80% en haustið 2019 komið niður í 73%.
Auknar takmarkanir koma til vegna þess að reiknilíkan ráðuneytisins gagnvart úthlutun fjármuna til háskóla hefur verið fryst með tilliti til nemendafjölda, líkt og fram kemur í nýlegri Grænbók ráðuneytisins um reiknilíkan og fjármögnun háskóla á Ísland. Háskólinn hefur tekist á við þessa staðreynd með ábyrgð og rekið skólann innan fjárheimilda en ljóst er að svo verður ekki gert áfram nema til komi auknar og enn frekari takmarkanir á nýjum námsplássum haustið 2020. Það er von háskólaráðs Háskólans á Akureyri að stjórnvöld séu reiðubúin til að vinna með Háskólanum á Akureyri svo unnt sé að halda uppi námsframboði, sérstaklega í greinum þar sem mikið ákall er um aukið framboð svo sem menntunarfræðum (kennaranám) og hjúkrunarfræði. Jafnframt sé tryggt að það mikla og góð aðgengi sem Háskólinn á Akureyri hefur veitt að háskólanámi fyrir íbúa alls landsins, í gegnum sitt sveigjanlega námsframboð (fjarnám) geti áfram stutt við allar byggðir landsins.
Háskólaráð bókar eftirfarandi vegna innritunar nýrra nemenda á haustmisseri 2020:
Háskólaráð samþykkir að samþykktar umsóknir vegna náms á haustmisseri 2020 verði ekki fleiri en 1100. Miðað við komuhlutfall sl. ár er gert ráð fyrir að nýnemar á haustmisseri 2020 verði 800. Fyrir liggur tillaga til samþykktar um skiptingu nemenda á deildir háskólans og samþykkir háskólaráð fyrirliggjandi tillögu og felur rektor að ræða við forseta fræðasviða um skiptingu nemenda á deildir skólans miðað við tillöguna. Þessi fjöldi nemenda er í samræmi við þann nemendafjölda sem háskólinn telur sig ráða við út frá fjárveitingum svo unnt sé að standa vörð um gæði náms. Ef í ljós kemur að stjórnvöld séu reiðubúin til að auka fjárframlög til skólans svo aðgangstakmarkanir þurfi ekki að koma til framkvæmda lýsir háskólaráð sig reiðubúið til að endurskoða þessa samþykkt um fjölda nýrra nemenda á haustmisseri 2020 á fundi ráðsins í maí.
Hólmar yfirgaf fundinn.
4. Mál til kynningar
Reglur um tölvunotkun, netnotkun og rafræna vöktun
Lagt fram til kynningar. Gert ráð fyrir að reglurnar verði lagðar fram til samþykktar á næsta fundi háskólaráðs og óskað eftir athugasemdum ef einhverjar eru.
Reglur um stjórnunar- og aðstöðugjald
Lagt fram til kynningar. Gert ráð fyrir að reglurnar verði lagðar fram til samþykktar á næsta fundi háskólaráðs og óskað eftir athugasemdum ef einhverjar eru.
Stefnuskjöl frá SHA
Sólveig María, fulltrúi SHA í háskólaráði og formaður SHA kynnti stefnu SHA sem var samþykkt á fundi stúdentaráðs þann 14. febrúar nk.
Katrín yfirgaf fundinn kl. 16:10
5. Bókfærð mál til samþykktar
- Nám- og kennsluskrá 2020-2021. Nám- og kennsluskrá liggur fyrir á vef háskólans.
- Skipun jafnréttisráðs 2020-2022. Tilnefningar í jafnréttisráð liggja ekki allar fyrir. Verður lagt fyrir aftur í mars til staðfestingar.
- Stefna um jafnt aðgengi að námi og störfum við Háskólann á Akureyri. Samþykkt.
Rektor þakkaði Sólveigu Maríu Árnadóttur fyrir störf sín í háskólaráði og sem formaður SHA, en þetta er síðasti fundur Sólveigar. Nýr fulltrúi stúdenta verður kjörinn á aðalfundi SHA þann 29. febrúar nk.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:33.