Fundargerð háskólaráðs
Fimmtudaginn 30. apríl 2020 kl. 13:30
Rafrænn fundur á Teams
Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:33.
Mætt voru auk hans:
Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra
Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Kristján Þór Magnússon fulltrúi háskólaráðs
Nökkvi Alexander Rounak Jónsson fulltrúi stúdenta
Óskar Þór Vilhjálmsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Einnig mætt:
Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu sem ritar fundargerð
Gestir:
Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála og greiningar
Rektor kynnti dagskrá.
1. Fjármál og rekstur
Forstöðumaður fjármála og greiningar og framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu sátu þennan lið fundarins.
Forstöðumaður fjármála fór stuttlega yfir breytingar á Aski, fjárhagskerfi ríkisins. Vegna þessara breytinga eru upplýsingar um rekstrarstöðu háskólans ekki alveg áreiðanlegar en staðan í heild er áfram í járnum og rétt innan marka.
Fyrir liggur kostnaðaraukning vegna covid-19 og sérstaklega er haldið utan um þann kostnað og gert ráð fyrir því að stjórnvöld munu bæta þann viðbótarkostnað.
Forstöðumaður fjármála og greiningar yfirgaf fundinn.
2. Covid-19 – staða og aðgerðir
Aðgengi að HA eftir 4. maí
Rektor sendi út tilkynningu til starfsfólks í dag þann 30. apríl um starfsemi HA og aðgengi að húsnæði skólans eftir 4. maí.
Aukapróftímabil í ágúst
Framkvæmdastjórn hefur samþykkt að bjóða upp á aukapróftímabil í ágúst til að koma til móts við erfiða stöðu í samfélaginu nú á vormisseri 2020.
„Háskólaráð samþykkir eftirfarandi bókun vegna námsmats á vormisseri 2020:
- Boðið verður upp á aukapróftímabil í ágúst, dagana 17. - 21. ágúst 2020.
- Próftökugjald verður ekki innheimt fyrir próftöku á aukapróftímabili né lokaverkefni sem skilað er í ágúst 2020.
- Skrásetningargjald verður ekki innheimt vegna próftöku á aukapróftímabili eða skilum lokaverkefna í ágúst 2020 ef nemandi heldur ekki áfram námi á haustmisseri 2020.
- Ekki verður óskað eftir veikindavottorðum vegna fjarveru nemenda í prófum á vormisseri 2020.
- Opnað verður fyrir skráningu til próftöku á aukapróftímabili þann 5. júní og er skráning opin til 19. júní 2020. Próftafla verður í sömu röð og í maí prófum og liggur fyrir á næstunni.
- Ákvæði f- liðar 5. gr. reglna nr. 921/2018 um námsmat fyrir Háskólann á Akureyri um að nemanda sé einungis heimilt að endurtaka próf í hverju námskeiði einu sinni gildir ekki að þessu sinni og nemendum heimilt að endurtaka próf tvisvar. Nemendur eru hvattir til að ljúka námskeiðum vormisseris í ágúst prófatíð í stað þess að fresta til vormisseris 2021.
- Nemendur sem ná ekki tilskilinni lágmarkseinkunn á reglulegu próftímabili geta nýtt sér próftöku á aukapróftímabili í ágúst.“
Framkvæmdastjóri yfirgaf fundinn.
Skólaárinu lokið með rafrænum hætti
Háskólinn á Akureyri mun ljúka skólaárinu í samræmi við það sem áður var ákveðið, með rafrænum hætti. Engin próf verða haldin í húsnæði skólans þrátt fyrir tilslakanir á samkomubanni.
Brautskráning
Ekki er enn vitað hvernig frekari rýmkun á samkomubanni mun verða háttað eftir því sem líður á vor og sumar og því ekki enn ljóst með hvaða hætti verður hægt að haga brautskráningu í júní.
Háskólaráð samþykkir að Háskólinn á Akureyri hagi brautskráningu í júní með rafrænum hætti. Brautskráningarteymi háskólans verði falið vinna tillögur að fyrirkomulagi og hefja skipulagningu rafrænnar brautskráningar. Lögð er áhersla á forystuhlutverk Háskólans á Akureyri í miðlun náms með stafrænum hætti og því er hér tækifæri fyrir HA til að sýna forystu á þessum fordæmalausu tímum og finna nýstárlegar leiðir til rafrænnar brautskráningar.
3. Innritun 2020
Rektor fór yfir stöðuna í fjölda umsókna um nám fyrir næsta skólaár.
Rektor fór yfir erindi frá félagsvísindadeild vegna innritunar og aðgangstakmarkana haustið 2020. Félagsvísindadeild óskar eftir því að fækkun nemenda við félagsvísindadeild eigi aðeins við um lögreglufræði og þar með að aðrar námsbrautir deildarinnar, sem flestar eru fámennar, fái að innrita alla þá umsækjendur sem uppfylla skilyrði.
Háskólaráð vísar til fyrri samþykkta um æskilegan nemendafjölda við Háskólann á Akureyri. Á meðan ekki kemur til aukið fjármagn af hálfu stjórnvalda þá verður háskólinn að takmarka nemendafjölda vegna þeirrar miklu aðsóknar sem hefur verið í skólann síðustu 3 ár og því er ekki unnt að verða við beiðni félagsvísindadeildar um að taka á móti fleiri nýnemum.
4. Bókfærð mál til samþykktar
- Skipun starfshóps vegna endurskoðunar á reglum HA
- Breyting á reglum um námsmat
- Diplomagráða í starfstengdri leiðsögn við kennaradeild
Ofangreind mál eru samþykkt.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:17.