414. fundur háskólaráðs

Fundargerð háskólaráðs
Fimmtudaginn 28. maí 2020 kl. 13:30
Rafrænn fundur - Zoom

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:33.

Mætt voru auk hans:

Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra
Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Kristján Þór Magnússon fulltrúi háskólaráðs
Nökkvi Alexander Rounak Jónsson fulltrúi stúdenta
Óskar Þór Vilhjálmsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Einnig mætt:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu ritar fundargerð

Gestir:

Hólmar Svansson framkvæmdastjóri
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála og greiningar

Rektor kynnti dagskrá.

1. Fjármál og rekstur

Framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu og forstöðumaður fjármála og greininga sátu þennan lið fundarins.
Forstöðumaður fjármála kynnti rekstrarniðurstöðu fyrstu fjóra mánuði ársins 2020. Reksturinn í heild sinni er betri en áætlanir gerðu ráð fyrir en ljóst að ekki má mikið út af bregða til að sú niðurstaða haldist.
Forstöðumaður fjármála yfirgaf fundinn.

2. Innritun 2020 – fjöldi umsókna

Framkvæmdastjóri sat þennan lið fundarins.
Rektor fór yfir fjölda umsókna eins og staðan var þann 24. maí. Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til 15. júní, nema í lögreglufræði þar sem umsóknarfrestur var 4. maí. Þróunin í fjölda umsókna er mjög sambærileg undanförnum árum og líklegt að heildarfjöldi umsókna verði sambærilegur við síðustu 2 ár, sem voru metár.
Ekki liggja fyrir skýr skilaboð frá stjórnvöldum um hvort fjármagn verði aukið til háskólanna svo hægt sé að verða við óskum stjórnvalda um að taka við öllum umsækjendum sem uppfylla skilyrði. Því mun HA ekki falla frá þeim fyrirætlunum að takmarka fjölda nýrra nemenda sem HA getur tekið við næsta skólaár. Þetta verður ekki endurskoðað nema til komi auknar fjárveitingar. Forsendur hvað þetta varðar hafa ekki breyst og HA kominn að þolmörkum í nemendafjölda miðað við núverandi fjármagn.
Framkvæmdastjóri yfirgaf fundinn.

3. Sumarnámskeið í HA

Rektor sagði frá sumarnámskeiðum sem boðið verður upp á við Háskólann á Akureyri. HA fékk 50 milljónir króna frá menntamálaráðuneyti til að bjóða upp á sumarnámskeið sumarið 2020. Framkvæmdin verður í höndum Símenntunar HA en það eru kennarar úr hinum ýmsu deildum HA sem standa fyrir fjölbreyttum námskeiðum. Verkefnastjóri hefur verið ráðinn í 50% starf til að aðstoða við umsýslu og skipulag vegna sumarnáms í Símenntun.

4. Sumarátaksstörf fyrir námsmenn – sumarstörf í HA

Háskólinn á Akureyri tekur þátt í átaki stjórnvalda um sumarstörf fyrir námsmenn og eru nú þegar komin í auglýsingu þó nokkur sumarstörf við HA inn á vef Vinnumálastofnunar. Gert er ráð fyrir að allt að 50 námsmenn geti fengið störf við HA í sumar. Vinnumálastofnun greiðir sem nemur atvinnuleysisbótum fyrir hvert starf í tvo mánuði. Háskólinn þarf þó að greiða laun samkvæmt kjarasamningum og mun því þurfa að leita leiða til að fjármagna þann aukakostnað sem til leggst vegna þessara starfa. Háskólaráð samþykkir að Háskólinn leggi áherslu á að fullnýta þann 50 námsmanna kvóta sem skólinn fær, jafnvel þó umframfjármagn sé ekki tryggt en rektor er jafnframt falið að leita allra leiða til að sækja aukafjármagn til að fjármagna umframkostnað samkvæmt kjarasamningum.

5. Brautskráning

Fulltrúi stúdenta í háskólaráði lagði fram tillögu frá stúdentaráði SHA vegna háskólahátíðar 2020 þar sem óskað er eftir að ákvörðun um að halda einungis rafræna brautskráningu verði endurskoðuð. Brautskráningarkandídatar eru margir hverjir ekki sáttir við ákvörðun HA um rafræna brautskráningu og hafa óskað eftir endurskoðun. Háskólaráð leggur til að skoðaður verði möguleiki á að halda hátíð til heiðurs nýútskrifuðum kandídötum á afmælisdegi háskólans þann 5. september nk. til að bæta upp fyrir þær sérstöku aðstæður sem nú eru fyrir hendi. Rektor er falið að ræða við stúdentaráð um þennan möguleika sem málamiðlun til að koma til móts við óánægju kandídata með fyrirkomulag rafrænnar brautskráningar. Brautskráning verði þá eins og fyrirhugað var, með rafrænni háskólahátíð og brautskráningarskírteini send í ábyrgðarpósti en hátíð verði haldin til heiðurs nýútskrifuðum kandídötum á afmælisdegi háskólans í september.

6. Breytingar á reglum HA – til kynningar

Lagt fram til kynningar drög að breytingum á reglum HA. Um er að ræða litlar breytingar og uppfærslur á reglunum. Verður lagt fram til samþykktar í júní.

7. Umsögn frá vísindaráði

Háskólaráði hefur borist umbeðin umsögn vísindaráðs um tillögur stjórnar vísindasjóðs að breytingum á rannsóknasjóði HA og hins vegar á reglum um aðstöðu- og stjórnunargjald við HA. Háskólaráð óskar eftir að fá fulltrúa úr vísindaráði inn á næsta háskólaráðsfund til að fara betur yfir málið.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:00.