FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐ
Fimmtudaginn 17.12.2020 kl. 12:04. Rafrænn fundur á Teams
Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 12:04.
Mætt voru auk hans:
Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra
Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Kristján Þór Magnússon fulltrúi háskólaráðs
Nökkvi Alexander Rounak Jónsson fulltrúi stúdenta
Rúnar Gunnarsson varafulltrúi háskólasamfélagsins
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Forföll:
Óskar Þór Vilhjálmsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Einnig mætt:
Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu, sem ritar fundargerð
Gestir:
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála og greiningar
Hólmar Svansson framkvæmdastjóri
Rektor kynnti dagskrá.
1. Fjármál og rekstur
Forstöðumaður fjármála og greininga fór yfir rekstraryfirlit janúar til nóvember. Lítil breyting á stöðunni frá fyrri mánuði og reksturinn í jafnvægi. Rektor fór yfir niðurstöðu HA í fjárlögum fyrir 2021 og þar er aukaframlag til háskólanna í samræmi við yfirlýsingar stjórnvalda sl. vor. Þetta þýðir að fyrri fjárhagsáætlun HA sem var skilað með neikvæðri niðurstöðu um rúmlega 146 milljónir verður lagfærð í samræmi við breytingar á fjárveitingum.
Háskólaráð lýsir yfir ánægju með niðurstöðu fjárlagafrumvarps en minnir jafnframt á að huga þurfi að fjármögnun næstu ára svo rekstur háskólans sé tryggður til framtíðar. Fjárhagsáætlun 2021 verður endanlega samþykkt á fundi í janúar þegar samþykkt fjárlagafrumvarp liggur fyrir á Alþingi.
2. Skólastarf á vormisseri
Umræða var um breytingarnar sem fyrirhugaðar eru á inntökuskilyrðum í háskóla í lögum og hvaða áhrif þær breytingar koma til með að hafa á inntöku í háskóla ef frumvarpið verður samþykkt. Ljóst er að ef breytingarnar verða samþykktar liggur fyrir gríðarleg vinna við að skilgreina inntökuskilyrði í allt nám við Háskólann á Akureyri. Búast má við að umsóknum í háskóla fjölgi í kjölfar þessara breytinga og þá er mikilvægt að það liggi fyrir með skýrum hætti hvernig val á umsækjendum fer fram, hversu mörgum nýjum nemendum Háskólinn á Akureyri telur sig geta tekið við, bæði út frá mannauði háskólans og út frá þeim fjárhagsramma sem skólanum er settur af stjórnvöldum. Nýtt reiknilíkan háskólanna er ekki enn tilbúið og því liggur ekki enn fyrir hvernig fjármagni verður úthlutað næstu árin og því erfitt að ákveða hversu mörgum nýjum nemendum er unnt að taka við ef þessi lagabreyting verður að veruleika. Þarna verður grundvallaratriði að standa vörð um gæði náms ásamt því að standa vörð um mannauð skólans.
Háskólaráð beinir því til framkvæmdastjórnar að farið sé í samtal við fræðasvið háskólans og framhaldsskóla á svæðinu, um hvernig inntöku nýrra nemenda á haustmisseri 2021 verði háttað, inntökuskilyrði verði skilgreind í allt nám ásamt þeim fjölda nemenda sem gert er ráð fyrir að sé hægt að taka inn á hverja námsbraut.
Miðað við þróunina í Covid-19 faraldrinum eru allar líkur á því að starfsemi á vormisseri verði með rafrænum hætti. Mikilvægt er að starfsfólk sé undirbúið fyrir það að kennsla verði áfram rafræn en hugsanlegt er að hægt verði að halda staðbundnar lotur, aðrar en þær sem snúa að verklegu og klínísku námi, þegar líða tekur á misserið en þær verða alltaf skipulagðar í samræmi við sóttvarnarreglur á hverjum tíma. Varðandi lokapróf á vormisseri þá verða þau skipulögð í samræmi við sóttvarnarreglur og þurfa kennarar að vera viðbúnir því að það verði sambærilegt fyrirkomulag og nú á haustmisseri. Ákvörðun um fyrirkomulag lokaprófa mun liggja fyrir í mars. Skoðað verður hvort mögulegt sé að setja fram aðgerðaráætlun þannig að fyrirsjáanlegt verði hvernig kennsla og lokapróf sé skipulagt og framkvæmt út frá stöðunni í samfélaginu á hverjum tíma.
3. Úthlutun rannsóknarmissera 2021-2022
Sigfríður Inga vék af fundi undir þessum lið.
Fyrir liggur tillaga frá rannsóknamisseranefnd um úthlutun rannsóknamisseri fyrir næsta skólaár. Tillaga nefndarinnar er samþykkt.
4. Ráðning forseta Viðskipta- og raunvísindasviðs
Rektor fór yfir ferlið við ráðningu á forseta viðskipta- og raunvísindasviðs og kynnti niðurstöðuna. Niðurstaðan er að Oddur Þór Vilhelmsson sé hæfastur umsækjenda til að gegna stöðunni og verður honum því boðið starfið. Háskólaráð gerir ekki athugasemd við ráðninguna og ferlið.
5. Samstarfsnet háskóla frá smáríkjum
Rektor sagði frá því að Háskólanum á Akureyri hefur verið boðið að taka þátt í sérstöku samstarfsneti háskóla frá smáríkjum (e. Network of Universities of Small Countries and Territories). Háskólaráð tekur undir að mikilvægt sé að starfa með þessu neti sérstaklega þar sem að Fróðskapasetur Færeyja og Háskólinn í Grænlandi séu hluti af netinu.
6. Háskólanám á Austurlandi
Í stefnumótunarvinnu HA 2017-2018 kom fram skýrt ákall úr nærsamfélaginu um breiðara námsframboð og áhersla á að HA bjóði upp á nám í tæknifræði. Undirbúningur að námi í tæknifræði varð því að markmiði í stefnu HA 2018-2023 og fyrirhugað að tæknifræðinámi væri komið á fót við HA fyrir árið 2023. Upp úr því hófst samstarf við verkefnahóp um háskólasetur á Austurlandi um þróun náms í tæknifræði við Háskólann á Akureyri. Ekki tókst að fá fjármagn í það nám en nú er komin af stað vinna í samstarfi við menntamálaráðuneytið og með aðkomu annarra háskóla um stofnun háskólaútibús á Austurlandi. Þetta þýðir að ekki er líklegt að hægt verði að bjóða upp á sjálfstætt nám í tæknifræði við Háskólann á Akureyri eins og stefna HA gerir ráð fyrir, heldur verði það þá í samstarfi við annan háskóla ef af verður. Menntamálaráðuneytið hyggst koma á fót nefnd um framhald málsins og háskólaráð samþykkir að rektor taki þátt í starfi þeirrar nefndar og Háskólinn á Akureyri verði þátttakandi í því samtali sem nú er í gangi og þeirri vinnu sem framundan er um háskólanám á Austurlandi.
7. Lykilmælikvarðar og markmið í stefnu HA: Ánægja starfsfólks, framhaldsumræður
Umræður um mannauðsmál og markmið í stefnu HA um innra starf og mannauð. Komið hefur upp óánægja ákveðins hóps starfsfólks.
Háskólaráð beinir því til starfsfólks að nýta þá ferla sem fyrir eru til að koma málum sínum á framfæri innan háskólans. Háskólaráð samþykkir að rektor haldi áfram þeirri vinnu sem hefur verið í gangi undanfarin ár við að styðja við líðan og ánægju starfsfólks. Samþykkt er að rektor leiti leiða til að auka samtalið við starfsfólk og greina stöðuna að því er varðar starfsánægju og koma fram með tillögur að aðgerðum til úrbóta.
Margt hefur verið gert undanfarin ár til að bæta starfsumhverfi starfsfólks Háskólans á Akureyri, s.s. umbætur og vinna tengd jafnréttismálum í gegnum verkefnið Jafnréttisvísir, umbótaverkefni og skipulagsbreytingar á hug- og félagsvísindasviði og nú liggja fyrir tillögur frá gæða- og mannauðsstjóra um aðgerðir til að til að draga úr streitu og álagi. Kannanir meðal starfsfólks hafa bent til aukins streitu og álags og ljóst er að starfsfólk hefur verið undir miklu álagi vegna mikilvægra verkefna eins og sjálfsmat deilda og stofnanaúttektar. Ekkert af þessum verkefnum er hægt að vinna að án mikilvægs framlags starfsfólks til gæða og úrbóta innan skólans og því er mikilvægt að vel sé búið að starfsumhverfi innan skólans.
Kristján Þór yfirgaf fundinn kl. 14:05.
8. Bókfærð mál til samþykktar:
- Kennslualmanak 2021-2022. Samþykkt.
9. Til fróðleiks og upplýsinga:
- Samkomulag um matskerfi opinberu háskólanna.
- Umsögn HA um frumvarp um breytingu á lögum um háskóla og lögum um opinbera háskóla.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 15:30.