424. fundur háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐ
Fimmtudaginn 18.03.2021 kl. 13:30. Borgir, R262

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:30.

Mætt voru auk hans:

Bjarni S. Jónasson varafulltrúi háskólaráðs
Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra (í fjarfundi)
Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Nökkvi Alexander Rounak Jónsson fulltrúi stúdenta
Óskar Þór Vilhjálmsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Forföll:

Kristján Þór Magnússon fulltrúi háskólaráðs

Einnig mætt:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri Rektorsskrifstofu, sem ritar fundargerð

Gestir:

Hólmar Svansson framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður Fjármála og greiningar
Katrín Árnadóttir forstöðumaður Markaðs- og kynningarmála
Yvonne Höller prófessor, formaður Umhverfisráðs

Rektor kynnti dagskrá.

1. Fjármál og rekstur

Framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu og forstöðumaður Fjármála og greiningar komu inn á fundinn undir þessum lið.

Farið yfir rekstraryfirlit janúar. Framlag ríkisins stemmir ekki við áætlað framlag samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun. Er í skoðun hjá forstöðumanni Fjármála og greiningar. Reksturinn annars í jafnvægi, gjöld örlítið undir áætlun. 

Forstöðumaður Fjármála og greiningar yfirgaf fundinn.

2. Staða og aðgerðir vegna Covid-19

Starfsemi háskólans gengur vel innan þeirra sóttvarnarreglna sem eru í gildi. Gert er ráð fyrir að núgildandi reglur gildi a.m.k. til 30. apríl. Miðað við núverandi stöðu er ekki gert ráð fyrir að þurfi að grípa til sérstakra aðgerða vegna framkvæmdar prófa í vor og því gert ráð fyrir hefðbundnu prófahaldi í samræmi við ákvarðanir deilda innan gildandi sóttvarnarreglna. 

Niðurfelling skrásetningargjalda fyrir þá sem brautskrást í október 2021 (2103064)

Háskólaráð samþykkti eftirfarandi bókun: 

„Þrátt fyrir ákvæði reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009 og reglna um gjaldskrá Háskólans á Akureyri vegna þjónustu við nemendur og innheimtu og ráðstöfun skrásetningargjalds nr. 1211/2020 gildir eftirfarandi um skrásetningargjöld 2021: Skrásetningargjöld stúdenta sem brautskrást frá Háskólanum á Akureyri í október 2021 verða felld niður. Ákvörðun þessi er aðgerð vegna Covid-19 til að tryggja að stúdentar sem þurfa að seinka brautskráningu árið 2021 hafi þann kost að brautskrást í október 2021 án greiðslu skrásetningargjalda.“

Hólmar yfirgaf fundinn.

3. Ályktun frá Félagsvísindadeild um rannsóknamisseri

Lögð fram ályktun frá deildarfundi Félagsvísindadeildar vegna breytinga sem gerðar voru á reglum um rannsóknamisseri árið 2020. Félagsvísindadeild óskar eftir að breytingarnar verði afturkallaðar. Rektor reifaði málið en hann óskaði eftir afstöðu formanns rannsóknamisseranefndar vegna ályktunarinnar og var svar formanns einnig lagt fram á fundinum. Jafnframt lagt fram yfirlit yfir fjölda rannsóknamissera sem hefur verið úthlutað árin 2014-2020.

Háskólaráð þakkar deildarfundi Félagsvísindadeildar ábendingarnar en tekur ekki undir að ástæða sé til að afturkalla þær breytingar sem gerðar hafa verið á reglum um rannsóknamisseri. Háskólaráð felur rektor að funda með starfsfólki Félagsvísindadeildar og fara yfir niðurstöðuna.

4. Staða umhverfismála við HA

Yvonne Höller prófessor í sálfræði og formaður Umhverfisráðs kom inn á fundinn og kynnti starfsemi Umhverfisráðs. Stærstu verkefnin eru innleiðing háskólans á Grænum skerfum í ríkisrekstri, þátttaka og viðhald HA í grænfánaverkefninu og svo eru smærri verkefni til að auka umhverfisvitund, t.d. plastlaus september, bíllaus dagur, plokkdagar, málstofur um umhverfismál o.fl. Umræður sköpuðust um hugsanleg viðbrögð háskólans þegar mörk svifryks á Akureyri fara yfir hættuleg mörk, en slíkar aðstæður skapast nokkrum sinnum á ári á Akureyri.

Formaður Umhverfissráðs yfirgaf fundinn.

5. Umræða um mælikvarða í stefnu HA: Áhrif á samfélagið

Katrín Árnadóttir forstöðumaður Markaðs- og kynningarmála komi inn á fundinn. Katrín kynnti áherslur í markaðs- og kynningarmálum, grunn að samfélagsmiðlastefnu, ímyndaruppbyggingu, almannatengslum, samskipti við hagsmunahópa og samstarfsaðila og hvernig rannsóknum starfsfólks er komið á framfæri.

Katrín yfirgaf fundinn.

6. Bókfærð mál til samþykktar

  • Námsmatsreglur fyrir Sálfræðideild - stöðlun einkunnar
  • Fjöldatakmarkanir í hjúkrunarfræði á vormisseri 2022
  • Fjöldatakmarkanir í sálfræði á vormisseri 2022

Ofangreind mál samþykkt.

7. Til upplýsinga

  • Gæðaúttekt - staða 
    Rektor fór yfir stöðuna í undirbúningi fyrir stofnanaúttekt sem fram fer á haustmisseri og niðurstöðu úttektar á námsbraut í lögreglufræði.

  • Listnám á Akureyri
    Rektor upplýsti háskólaráð um stöðuna í samtali um aðgengi að listnámi á háskólastigi á Akureyri. Um er að ræða samtal hagsmunaaðila og þar er Listaháskóli Íslands lykilaðili sem eini háskólinn á Íslandi með nauðsynlega viðurkenningu fyrir slíkt nám.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:18.