425. fundur háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐ
Fundur var haldinn 15. apríl 2021 gegnum fjarfundarbúnað á Teams

Rektor, Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:31.

Mætt voru auk hans:

Bjarni Jónasson varafulltrúi háskólaráðs
Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra
Kristján Þór Magnússon fulltrúi háskólaráðs
Nökkvi Alexander Rounak Jónsson fulltrúi stúdenta
Óskar Þór Vilhjálmsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Forföll boðaði: 

Katrín Björg Ríkharðsdóttir fulltrúi háskólaráðs

Einnig mætt:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu sem ritar fundargerð

Gestir:

Hólmar Svansson framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður Fjármála og greiningar
Elín Díanna Gunnarsdóttir forseti Hug- og félagsvísindasviðs
Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir forseti Heilbrigðisvísindasviðs
Oddur Þór Vilhelmsson forseti Viðskipta- og raunvísindasviðs

Rektor kynnti dagskrá.

1. Fjármál og rekstur

Forstöðumaður Fjármála og greiningar og framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu sátu þennan lið fundarins. Forstöðumaður Fjármála og greiningar kynnti rekstraryfirlit janúar og febrúar. Reksturinn í jafnvægi og í samræmi við áætlanir.

Forstöðumaður fjármála og greiningar yfirgaf fundinn.

2. Innritun nýrra nemenda á haustmisseri 2021 - staðan

Farið yfir stöðu umsókna um nám á haustmisseri 2021. Fjöldi umsókna í heild sinni er mjög sambærilegur við fyrra ár og stefnir því í að heildarfjöldi verði ekki undir umsóknum síðustu ára.

Framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu yfirgaf fundinn.

3. Staða og aðgerðir vegna Covid-19

Forsetar fræðasviðanna, Elín Díanna Gunnarsdóttir, Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir og Oddur Þór Vilhelmsson, komu inn á fundinn.

Rektor fór yfir stöðu mála almennt vegna Covid-19 og sagði sérstaklega frá óánægjuröddum í hópi nemenda með þá ákvörðun í sumum námskeiðum að vera með próf á prófstöðum á vormisseri. Ekki hefur verið talin þörf á breytingum á áætlunum um prófahald þar sem framkvæmdin er talin rúmast innan núverandi sóttvarnarreglna og stúdentum því tilkynnt að námsmat verði í samræmi við það sem áður hefur verið áætlað samkvæmt námskeiðsáætlunum í hverju námskeiði.

Forsetar ræddu stöðuna og starfsemi á fræðasviðum sl. ár. Sérstaklega vildu þau koma á framfæri hrósi til starfsfólks fyrir viðbrögð og eljusemi við að komast í gegnum þennan vetur. Starfsfólk hefur lagt mikið á sig til að hlutirnir hafi getað gengið upp, sérstaklega hvað varðar framkvæmd og skipulagi verklegs og klínísks náms.

Fulltrúi stúdenta lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd Stúdentafélags Háskólans á Akureyri:

„Stúdentaráð SHA lýsir yfir áhyggjum sínum á því hvernig framkvæmd lokaprófa verður háttað á vormisseri 2021. Í kjölfar þess að Viðskiptadeild tilkynnti stúdentum að öll lokapróf deildarinnar yrðu haldin á prófstað spratt fram umræða meðal stúdenta sem lýstu yfir áhyggjum sínum og einkenndist umræðan meðal annars af reiði og sárindum, og þróaðist umræðan í baráttu af hálfu SHA. Þrátt fyrir að hafa fylgt ferlum háskólans og unnið fyrir hönd stúdenta hefur SHA sem og stúdentar ekki fengið neinn rökstuðning fyrir því hvers vegna ákveðnar deildir tóku til þessara aðgerða. Af því sögðu, þá gerir SHA sér fullkomlega grein fyrir stjórnsýslu og regluverki stofnunarinnar og tekur tillit til þess sem gefur til kynna að ákvörðunarvald sé í höndum deilda og umsjónarkennara. Þrátt fyrir að þetta sé verklagið, þá verður að koma til greina hvers vegna kennarar við háskólann hátti námsmati sínu svo að halda próf á prófstað þegar kennsla hefur alfarið fram með rafrænum hætti, fyrir utan nauðsynlegar verklegar lotur. Í Gæðastefnu Landssamtaka íslenskra stúdenta (bls. 6) segir að tryggja skuli samræmi á milli lærdómsviðmiða, kennsluaðferða og námsmats. Í því tilliti og því skyni væri eðlilegt að meirihluti prófa hverrar deildar væru heimapróf. Þrátt fyrir að því sé lofað að engin hætta skapist með tilliti til sóttvarna og að próf á prófstað standist allar reglur, þá lýsir SHA yfir óánægju með þá staðreynd hversu mörg próf verða haldin á prófstað og þá sérstaklega að Viðskiptadeild hafi gefið það út að öll próf deildarinnar yrðu haldin á prófstað (fyrir utan þau örfáu námskeið sem gerðu ráð fyrir öðruvísi námsmati í kennsluáætlun). Viðskiptadeild kynnir og leggur áherslu á að námið sé óháð stað og stund og að það sé allt kennt í fjarnámi. Það hefur verið raunin í Covid-19 faraldrinum og er sérkennilegt að deildin sé ósamkvæm sjálfri sér og að kennarar fylgi ekki þeim aðferðum sem stuðst hefur verið á misserinu með því að hafa prófin í formi heimaprófs. COVID-19 hefur sett upp á yfirborðið ákveðna galla á kerfinu. Því munum við halda áfram að berjast fyrir því að t.d. ef námskeið sem kennt sé eingöngu í fjarkennslu skuli ekki krefjast staðprófs en það er gott dæmi um að kennarar séu ekki samkvæmir sjálfum sér.
Fyrir hönd Stúdentafélags Háskólans á Akureyri
Nökkvi Alexander Rounak Jónsson, Formaður SHA”

Málið var rætt og háskólaráð þakkar SHA fyrir málefnalegt erindi. Núverandi námsmat var tilkynnt í upphafi annar og þar sem að námsmatið rúmast innan sóttvarnarreglna mun námsmat fara fram með áður tilkynntum hætti. Umsjónarkennarar námskeiða bera ábyrgð á námsmati í sínum námskeiðum og það er ekki á forræði háskólaráðs að grípa inn í slíkt ef framkvæmdin er innan reglna skólans og innan sóttvarnarreglna.

Forsetar fræðasviða yfirgáfu fundinn.

4. Ályktun frá Félagsvísindadeild um jafnrétti á vinnustað

Lögð fram ályktun frá félagsvísindadeild um jafnrétti á vinnustað. Í ályktuninni er m.a. gagnrýnd sú tilhögun háskólans að bjóða út og útvista ræstingum og talið að það gangi gegn jafnréttisstefnu. Einnig er lögð fram spurning um hvort háskólinn styðjist við aðferðir kynjaðrar fjárhagsáætlanagerðar og ef ekki hvort fyrirhugað sé að nýta slíkar aðferðir við fjárhagsáætlanagerð skólans. Háskólaráð þakkar ályktunina og felur rektor að svara því fyrir hönd ráðsins. Sérstaklega er tekið undir mikilvægi þess að nýta aðferðir kynjaðrar fjárhagsáætlanagerðar. Háskólaráð vill taka fram að spurningum sem varða ákvarðanir um einstaka þætti í daglegum rekstri háskólans ætti að beina til rektors sem formanns framkvæmdastjórnar áður en þeim er beint til háskólaráðs þar sem framkvæmdastjórn fer með daglegan rekstur háskólans samkvæmt stefnu og fjárhagsáætlunum sem samþykktar eru af háskólaráði.

Kristján yfirgaf fundinn.

5. Norðurslóðamál - Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar

Rektor hefur tekið þátt í nefnd á vegum utanríkisráðuneytisins um fyrstu tillögur að nýrri norðurslóðastofnun, Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar. Háskólinn á Akureyri ásamt fleiri stofnunum sem starfa að Borgum hafa myndað klasa fræðasamfélags um rannsóknir og nám í málefnum norðurslóða. Sú uppbygging hefur staðið í rúm 20 ár. Háskólaráð felur því rektor að halda áfram samtali um stofnun ÓRG en telur mjög mikilvægt að Norðurslóðamiðstöð Íslands verði staðsett á Akureyri og að ekki verði fallið frá þeirri stefnu stjórnvalda að Akureyri sé miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi.

6. Til samþykktar

  • Áætlun um jafna stöðu kynjanna við Háskólann á Akureyri 2021-2024

Samþykkt. Háskólaráð fagnar framlagðri jafnréttisáætlun og þakkar jafnréttisráði fyrir vel unnin störf og faglega og vel fram setta áætlun sem mun í framhaldinu verða samþætt við heildarstefnu skólans. 

7. Til upplýsinga

  • Stafræni Háskóladagurinn
  • Háskólafundur 17. maí 2021

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:51.