FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Fundur var haldinn fimmtudaginn 15.12.2022.
Fundarstaður: Borgir, R262.
Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:32.
Mætt voru auk hans:
Bjarni S. Jónasson varafulltrúi háskólaráðs
Guðmundur Kr. Óskarsson varafulltrúi háskólasamfélagsins
Hulda Dröfn Sveinbjarnardóttir fulltrúi stúdenta
Karl Frímannsson varafulltrúi ráðherra
Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Sigríður Margrét Sigurðardóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Forföll:
Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Guðmundur Ævar Oddsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Kristrún Lind Birgisdóttir fulltrúi ráðherra
Einnig mætt:
Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu sem ritar fundargerð
Gestir:
Hólmar Erlu Svansson framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála og greiningar
Elín Díanna Gunnarsdóttir aðstoðarrektor
Rektor kynnti dagskrá.
1. Fjármál og rekstur
2201085
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála og greiningar og Hólmar Erlu Svansson framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu komu inn á fundinn.
- Rekstraryfirlit – útgönguspá 2022
Forstöðumaður fjármála og greininga fór yfir útgönguspá fyrir árið 2022. Miðað við útgönguspá er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða háskólans í heild verði neikvæð um rúmlega 18 milljónir, sem er ásættanleg niðurstaða miðað við aðstæður.
- Fjárhagsáætlun 2023, þriggja ára áætlun og stefnuskjal 2023-2025
Forstöðumaður fjármála kynnti fjárhagsáætlun 2023 ásamt áætlun fyrir 2024 og 2025. Fjárhagsáætlun 2023 hefur verið skilað og byggir á úthlutuðu fjármagni í fjárlögum en áætlun 2024 og 2025 byggir á áætluðu fjármagni samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Áætlun fyrir árið 2023 gerir ráð fyrir neikvæðri afkomu um tæplega 42 milljónir, sem er ásættanleg niðurstaða og innan marka þar sem skólinn á eigið fé til ráðstöfunar á móti neikvæðri afkomu.
Hins vegar líta áætlun fyrir árin 2024 og 2025 ekki vel út ef tekið er mið af fjármálaáætlun stjórnvalda, sem er það viðmið og forsendur sem háskólanum ber að fylgja við áætlanagerð. Ef fjármálaáætlun ríkisstjórnar verður ekki endurskoðuð mun háskólinn verða kominn í verulegan hallarekstur í lok árs 2025 miðað við óbreytta starfsemi.
Rektor kynnti bréf sem rektor Háskóla Íslands sendi ráðherra háskólamála fyrir hönd rektora allra opinberu háskólanna þar sem óskað er eftir lagabreytingar til að heimila hækkun skrásetningargjalda í opinberu háskólana. Óskað er eftir að hámarksupphæð skrásetningargjalda í lögum verði kr. 95.000. Stúdentaráð HA hefur ekki fjallað um málið en mun álykta um það og koma á framfæri við háskólaráð.
Framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu yfirgaf fundinn.
2. Úthlutun rannsóknamissera 2023-2024
2204014
Háskólaráð samþykkir tillögu rannsóknamisseranefndar og beinir því til forseta fræðasviða að ganga úr skugga um að kennsluskylda viðkomandi starfsfólks sé leyst og að unnt sé að verða við öllum umsóknum en fjárhagslega stendur háskólaráð við að unnt sé að veita öll umbeðin rannsóknamisseri.
Forstöðumaður fjármála og greininga yfirgaf fundinn.
3. Stefnumótun
2204037
Elín Díanna Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor, kom inn á fundinn undir þessum lið og kynnti fyrstu niðurstöður stefnuþings sem haldið var í lok október, sem var upphafsfundur stefnumótunar háskólans 2024-2029.
Góðar umræður sköpuðust um þann ramma sem er að mótast og Díanna upplýsti háskólaráðsfulltrúa um ferlið fram undan á vormisseri. Gert er ráð fyrir hálfsdagsvinnufundi háskólaráðs í febrúar eða mars þegar línur og fyrstu drög að stefnu eru farin að skýrast betur.
Bókfærð mál til samþykktar
- Reglur um rannsóknasetur í lögreglufræði. Samþykkt.
- Reglur um viðurkenningu HA á akademísku hæfi starfsmanna MSL og veitingu akademískra nafnbóta við Rannsóknasetur í lögreglufræði. Samþykkt.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:53.