453. fundur Háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS

Fundur var haldinn fimmtudaginn 26. október 2023 á Borgum, R262.
 
Starfandi rektor Elín Díanna Gunnarsdóttir setti fund kl. 13:30.
 
Mætt voru auk hans:
Bjarni S. Jónasson fulltrúi háskólaráðs
Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Guðmundur Kristján Óskarsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Hulda Dröfn Sveinbjörnsdóttir fulltrúi stúdenta
Kristrún Lind Birgisdóttir fulltrúi ráðherra
Sigríður Margrét Sigurðardóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
 
Einnig mætt:
Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu sem ritar fundargerð
 
Gestir:
Hólmar Erlu Svansson framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu
Eyjólfur Guðmundsson formaður stjórnar Végeirsstaðasjóðs
Brynhildur Bjarnadóttir fulltrúi í stjórn Végeirsstaðasjóðs
Trausti Þorsteinsson verkefnastjóri Végeirsstaðasjóðs
 
Starfandi rektor kynnti dagskrá og tilkynnti um breytingu uppröðun á dagskrárliðum.
 

1. Fjármál og rekstur

2302002
Hólmar Erlu Svansson framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu sat fyrstu tvo dagskrárliði fundarins.
Hólmar fór yfir rekstraryfirlit janúar til september. Rekstrarstaða fyrir háskólann í heild er í jafnvægi og ekki mikið um frávik frá áætlun fyrir utan það sem áður hefur verið rætt og komið fram en þar er helst um að ræða aukinn kostnað vegna öryggisbrests í upphafi árs.

2. Markmið Háskólans á Akureyri um kolefnisjöfnun

2310033
Hólmar kynnti markmið um aðgerðir HA til kolefnisjöfnunar en markmiðin og aðgerðir eru unnar í samráði við umhverfisráð. Frá og með næstu áramótum verður kolefnisjöfnun vegna flugferða starfsfólks færð sem sýnilegur kostnaður við ferðir starfsfólks. Háskólinn mun síðan gera upp árlega þann kostnað og kaupa kolefnisjöfnun sem því nemur.
Hólmar yfirgaf fundinn.

3. Málefni Végeirsstaða

2209050
Eyjólfur Guðmundsson formaður stjórnar Végeirsstaðasjóðs, Brynhildur Bjarnadóttir fulltrúi í stjórn Végeirsstaðasjóðs og Trausti Þorsteinsson verkefnastjóri stjórnarinnar komu inn á fundinn.
 
Farið var yfir sögu Végeirsstaða og tilurð þessarar gjafar til Háskólans á Akureyri en fyrir liggja tillögur um nýtingu Végeirsstaða sem fræða- og fundaseturs Háskólans á Akureyri.
Jafnframt kynntar þær tillögur sem nú liggja fyrir og fela í sér að notkun svæðisins verði þríþætt: aðstaða fyrir rannsakendur og fræðimenn, kennslu- og rannsóknaraðstaða og fundaraðstaða fyrir starfsfólk. Að síðustu var farið yfir þær framkvæmdir og viðhald sem farið var í sl. sumar.
Lagt er til að HA leggi til grunnreksturs 5 milljónir á ári og fái á móti full afnot af aðstöðunni og húsunum. Einnig stefnt að því að sækja um í ýmsa sjóði til frekari uppbyggingar á svæðinu.
 
Tillögurnar ræddar ítarlega.
 
Háskólaráð samþykkir að fela starfandi rektor að ljúka við gerð tímabundins samnings til tveggja ára við stjórn Végeirsstaðasjóðs í samræmi við þessar tillögur en að innan árs liggi fyrir skilgreind verk- og framkvæmdaáætlun með ítarlegri fjárhagsáætlun og skilgreining og útfærsla á nýtingu á húsnæðinu, lóðinni og aðstöðunni til framtíðar. Jafnframt liggi fyrir greining á því innan háskólans um hvernig svæðið og aðstaðan verður nýtt til starfseminnar.

4. Samstarf háskóla – Samtal við Háskólann á Bifröst

2308052
Starfandi rektor gerði grein fyrir stöðu samtalsins við Háskólann á Bifröst og starfi stýrihópsins sem vinnur að fýsileikakönnuninni.

5. Stefnumótun og nýsköpun

2204037
Formleg stefnumótunarvinna er enn í gangi og heldur áfram á vormisseri en nokkrir fundir hafa verið haldnir undanfarið og gagnaöflun staðið yfir.

6. Starfsþróun og endurmenntun starfsfólks

2310067
Frá árinu 2016 hefur starfsfólki HA sem skráð er í doktorsnám staðið til boða að sækja um til sviðsforseta að fá úthlutað aukarannsóknamisseri vegna námsins. Rektor hefur svo staðfest fjögur misseri á hverju almanaksári. Veiting þessara aukarannsóknamissera hefur verið fyrir utan hefðbundna úthlutun rannsóknamissera í samræmi við reglur sem um þau gilda og var ætlað að stuðla að aukinni rannsóknavirkni og uppbyggingu mannauðs í akademískum deildum háskólans.
 
Starfandi rektor leggur til að þessu fyrirkomulagi verði breytt en fjármagninu úthlutað til fræðasviðanna og nýtt þar til þróunar og uppbyggingar á mannauði, þar á meðal til einstaklinga í doktorsnámi. Það væri þá í höndum forseta fræðasviðs að nýta fjármagnið til stuðnings á starfsþróun innan fræðasviðsins innan ákveðins ramma. Háskólaráð felur starfandi rektor að vinna tillögur að umræddu fyrirkomulagi fyrir næsta fund ráðsins.

7. Til fróðleiks og upplýsinga

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:08.