465. fundur Háskólaráðs

Fundur var haldinn fimmtudaginn 31. október 2024.

Rektor Áslaug Ásgeirsdóttir setti fund kl. 13:34.

Mætt voru auk hennar:

Bjarni S. Jónasson fulltrúi háskólaráðs
Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi háskólaráðs (í fjarfundi)
Guðmundur Kristján Óskarsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Kristrún Lind Birgisdóttir fulltrúi ráðherra
Sigríður Margrét Sigurðardóttir fulltrúi háskólasamfélagsins (fjarfundi)
Silja Rún Friðriksdóttir varafulltrúi stúdenta

Forföll:

Lilja Margrét Óskarsdóttir fulltrúi stúdenta

Einnig mættar:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu sem ritar fundargerð
Sólveig Elín Þórhallsdóttir lögfræðingur á Rektorsskrifstofu (í fjarfundi)

Gestir:

Helga María Pétursdóttir forstöðumaður fjármála og greininga
Hólmar Erlu Svansson framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu

 

Rektor kynnti dagskrá

1. Fjármál og rekstur

2401050
Helga María og Hólmar sátu þennan lið fundarins.

Rekstraryfirlit
Helga María fór yfir rekstraryfirlit janúar til september. Staða háskólans í heild er neikvæð um rúmlega 65 milljónir, sem er umfram áætlun. Beðið er svara frá stjórnvöldum varðandi beiðni um aukafjármagn vegna ófyrirséðs umframkostnaðar á þessu ári ásamt því að úthlutað fjármagn vegna sameiningarsamtals við Háskólann á Bifröst hefur ekki borist og gert er ráð fyrir að eftir eigi að koma uppbætur vegna kjarasamninga ársins 2024.

Helga María yfirgaf fundinn.

Rektor kynnti heildarnemendafjölda á haustmisseri 2024, sem er samtals 2853, fjölgun um tæplega 100 frá fyrra ári.

2. Húsnæðismál

Hólmar fór yfir stöðuna í húsnæðismálum, bæði stöðunnar í kjölfar að mygla greindist á Borgum og heilt fyrir stöðuna í ljósi fjölgunar starfsfólks og stúdenta undanfarin ár. Háskólinn hefur tekið á leigu viðbótar húsnæði í Hafnarstræti á Akureyri og standa yfir flutningar í það húsnæði þessa dagana, en það eru sjálfsaflaeiningar háskólans sem flytja þangað, þ.e. RHA, Símenntun og MSHA. Einnig er í gangi samtal bæði við ráðuneyti háskólamála og FSRE um langtíma þarfir Háskólans á Akureyri í húsnæðismálum, þar á meðal bygging og staðsetning færni- og hermiseturs. Ekki liggur fyrir niðurstaða eða loforð um þá nýbyggingu sem þörf er á að ráðast í en samtalið heldur áfram.

Hólmar yfirgaf fundinn.

3. Samstarf háskóla – samtal við Háskólann á Bifröst

2404025
Þann 28. og október sl. var sameiginlegur fundur fulltrúa frá Háskólanum á Akureyri og Háskólanum á Bifröst. Frá Háskólanum á Akureyri sóttu fundinn rektor og aðstoðarrektor ásamt Kristrúnu Lind og Bjarna Smára háskólaráðsfulltrúum.

Rektor fór yfir umræður og niðurstöður þessa fundar. Fyrir liggur samantekt á niðurstöðu fulltrúa háskólanna á fundinum um framhald málsins. Málið ítarlega rætt. Háskólaráð samþykkir að halda áfram viðræðum við Háskólann á Bifröst á grunni niðurstöðu þessa fundar og að halda áfram með vinnuna sem hófst með fýsileikaskýrslunni.

Háskólaráð leggur áherslu á að það fari fram víðtækt samtal og samráð við allt háskólasamfélag Háskólans á Akureyri ásamt samtali við hagaðila í nærsamfélagi og að tekinn verði sá tími í ferlið sem nauðsynlegur er. Rektor falið að halda áfram samtalinu við ráðuneyti háskólamála um að tryggja fjármögnun vegna málsins.

Fulltrúi stúdenta lagði fram eftirfarandi bókun frá stúdentaráði Stúdentafélags Háskólans á Akureyri varðandi aðkomu stúdenta að málinu.

Stúdentaráð harmar þá ákvörðun háskólaráðs á háskólaráðsfundi 463 þann 29. ágúst síðastliðinn að hafna stúdentum sæti í viðræðuhópi vegna samtalsins við Háskólann á Bifröst.

Stúdentaráð hefur frá fyrstu fréttum um mögulega sameiningu verið skýrt í sínum kröfum um mikilvægi aðkomu stúdenta að málinu t.d. með bókun sinni á háskólaráðsfundi 452, þann 26. september árið 2023. Einnig hefur Stúdentaráð kallað eftir því að sameining eigi sér stað á þeim forsendum að auka gæði, efla nám og styrkja lærdómssamfélag stúdenta.

Háskólaráð hefur einnig lagt áherslu á ofangreindar forsendur í sínum fundargerðum varðandi málið. Með því að hafna stúdentum sæti í viðræðuhópnum er Háskólaráð ekki að sýna fram á að raunverulegur vilji fyrir aðkomu stúdenta sé til staðar. Stúdentaráð telur það alvarlegt í ljósi þess að möguleg sameining er mikið hagsmunamál fyrir stúdenta.

Þann 15. desember síðastliðinn var fýsileikaskýrsla birt sem vakti frekar upp spurningar en svör og Stúdentaráð furðar sig á að ekki eigi að bregðast við gagnrýni stúdenta og ekki eigi að gefa stúdentum kost á því að eiga aðkomu að málinu.

Háskólaráð leggur áherslu á að tekið verður tillit til þessara athugasemda og að stúdentar munu fá aðkomu að þeirri vinnu sem fram undan er við áframhaldandi viðræður við Háskólann á Bifröst ásamt starfsfólki og öllu háskólasamfélaginu.

4. Úthlutun rannsóknamissera 2025-2026

2409173
Rektor lagði fram tillögu rannsóknamisseranefndar um úthlutun rannsóknamissera skólaárið 2025 til 2026. Lagt er til að allt starfsfólk sem uppfyllir skilyrði reglna um rannsóknamisseri fái úthlutað þeim misserum sem það sótti um. Samþykkt.

5. Bókfærð mál til samþykktar

  • Breytingar á reglum um vísindasjóð (2409064). Málinu frestað og háskólaráð óskar eftir að formaður stjórnar vísindasjóðs komi á næsta fund háskólaráðs.
  • Skipun fagráðs frumkvöðla og nýsköpunar (2410020). Samþykkt.
  • Skipun stjórnar Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar (2410022). Samþykkt.
  • Skipun nefndar um tillögu til veitingar heiðursdoktorsnafnbótar (2410059). Samþykkt

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:53.