466. fundur Háskólaráðs

Fundur var haldinn fimmtudaginn 28. nóvember 2024.

Rektor Áslaug Ásgeirsdóttir setti fund kl. 13:32

Mætt voru auk hennar:

Bjarni S. Jónasson fulltrúi háskólaráðs
Guðmundur Kristján Óskarsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Katrín Björg Ríkarðsdóttir varafulltrúi háskólaráðs (í fjarfundi)
Kristrún Lind Birgisdóttir fulltrúi ráðherra
Lilja Margrét Óskarsdóttir fulltrúi stúdenta (í fjarfundi)
Sigríður Margrét Sigurðardóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Forföll:

Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi háskólaráðs

Einnig mætt:

Sólveig Elín Þórhallsdóttir lögfræðingur á rektorsskrifstofu, sem ritaði fundargerð

Gestir:

Elín Díanna Gunnarsdóttir aðstoðarrektor
Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms
Helga María Pétursdóttir forstöðumaður fjármála og greiningar
Hildur Friðriksdóttir formaður jafnréttisráðs HA

Rektor kynnti dagskrá.

1. Fjármál og rekstur

2401050

Helga María sat þennan lið fundarins.

Helga María fór yfir rekstraryfirlit janúar til október. Staða háskólans í heildina með sértekjueiningum er nú neikvæð um 33 mkr. Þá á eftir að bóka reikning vegna samstarfsnets opinberu háskólanna, en hann er í áætlun í október. Eins komu tekjur vegna Nansen í október sem eru áætlaðar í desember. Hins vegar á Fjársýslan eftir að bóka launa- og verðlagsbætur þessa árs og er því reiknað með að afkoma háskólans verði jákvæð í árslok.

Helga María yfirgaf fundinn.

2. Breytingar á reglum um Vísindasjóð

2409064

Guðrún Rósa kom inn á fundinn.

Guðrún Rósa kynnti tillögur stjórnar Vísindasjóðs um breytingar á ákvæðum reglna nr. 723/2023 um Vísindasjóð Háskólans á Akureyri sem lúta að Ferðasjóði og breyttu fyrirkomulagi við úthlutun úr sjóðnum. Umræður urðu að kynningu lokinni og háskólaráð sammæltist um eftirfarandi bókun:

Bókað í háskólaráði að árið 2025 verði farið í greiningu á stuðningi við rannsóknir akademísks starfsfólks og að niðurstaðan liggi fyrir síðla hausts 2025.

Breytingar á reglum um Vísindasjóð voru samþykktar.

3. Staða rannsókna við Háskólann á Akureyri

Guðrún Rósa sat þennan lið fundarins.

Guðrún Rósa kynnti stöðu rannsókna við HA, stuðning við rannsakendur og rannsóknavirkni akademískra starfsmanna.

Guðrún Rósa yfirgaf fundinn.

4. Jafnréttisáætlun og aðgerðaáætlun

2408049

Hildur Friðriksdóttir sat þennan lið fundarins.

Hildur kynnti tillögu að nýrri jafnréttisáætlun HA. Áætlunin var unnin í víðtæku samráði við stúdenta, starfsfólk og jafnréttisráð HA undir leiðsögn ráðgjafanna Herdísar Sólborgar Haraldsdóttur og Sóleyjar Tómasdóttur. Jafnréttisáætluninni mun fylgja mælaborð sem aðgengilegt verður á Uglu, innri vef HA, þar sem hægt verður að fylgjast með stöðu einstakra aðgerða.

Háskólaráð samþykkti nýja jafnréttisáætlun og hrósaði jafnréttisráði og þeim sem að málinu komu fyrir framúrskarandi vinnu við gerð áætlunarinnar. Stúdentar voru sérstaklega ánægðir með þeirra aðkomu að gerð jafnréttisáætlunar. Allt samstarf við stúdenta var til fyrirmyndar.

Hildur yfirgaf fundinn.

5. Stefnumótun HA

2407015

Elín Díanna sat þennan lið fundarins.

Elín Díanna fór yfir stöðu mála varðandi vinnu við stefnumótun HA til ársins 2030.

Elín Díanna yfirgaf fundinn.

6. Samtal við Háskólann á Bifröst - staða

2404025

Rektor greindi frá því að hún og rektor Háskólans á Bifröst hafi verið að vinna í sameiginlegri verkáætlun fyrir ráðuneytið. Næstu skref verða að lögfræðingar geri tillögur að mögulegu skipulagi nýs háskóla, einnig að það verði gerð viðhorfskönnun vegna sameiningar í báðum háskólum. Stefnt er að því að ráðinn verði verkefnastjóri vegna undirbúningsvinnu við sameiningu háskólanna. Eftir fund með ráðuneytinu fyrr í dag er það almennur skilningur að sameining háskólanna geti tekið 2 – 3 ár. Stefnt er að því að fljótlega verði undirritaður samningur vegna fjármögnunar vinnu við mögulega sameiningu og í kjölfar þess verður hægt að halda áfram með þá undirbúningsvinnu sem þegar er ákveðin.

7. Bókfærð mál til samþykktar

  • Kennslualmanak 2025-2026 (2411075). Samþykkt.

8. Til fróðleiks og upplýsinga

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:10.