Reglur um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar við Háskólann á Akureyri

NR. 1180/2024

SAMÞYKKTAR Í HÁSKÓLARÁÐI 26.9.2024

Vefútgáfa síðast uppfærð 20.11.2024

Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
og í PDF skjali gildir PDF skjalið

1. gr. Almennt

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er rannsókna- og fræðastofnun sem er starfrækt við Háskólann á Akureyri. Stofnunin er vettvangur rannsókna í norðurslóðafræðum og starfar í alþjóðlegu vísindaumhverfi með áherslu á þverfagleg mannvísindi. Stofnunin heyrir undir Hug- og félagsvísindasvið. Forseti Hug- og félagsvísindasviðs, í samráði við forstöðumann, undirbýr samstarfssamninga um stofnunina við aðila utan Háskólans á Akureyri sem rektor staðfestir.

2. gr. Hlutverk

Hlutverk Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar er:
  1. Að afla nýrrar þekkingar í norðurslóðafræðum með því m.a. að stunda rannsóknir í viðfangsefnum er varða velferð íbúa og sjálfbærni svæðisins í tengslum við samfélagsþróun, auðlindanýtingu, aðlögun að loftslagsbreytingum og efnahagsþróun.
  2. Að vera öndvegissetur og samstarfsvettvangur um málefni norðurslóða sem eflir samfélag rannsakenda um sjálfbæra samfélags- og hagþróun á svæðinu.
  3. Að starfa með innlendum og erlendum háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum með gagnkvæma öflun og miðlun þekkingar í huga.
  4. Að efla kennslu í grunn- og framhaldsnámi í norðurslóðafræðum og heimskautarétti við Háskólann á Akureyri, m.a. með því að byggja upp frjótt rannsóknaumhverfi fyrir nemendur í rannsóknanámi.
  5. Að efla íslenska og alþjóðlega miðstöð í málefnum norðurslóða á Akureyri.
  6. Að gangast fyrir fræðslu, málstofum, ráðstefnum og fyrirlestrum um norðurslóðafræði.

3. gr. Aðstaða

Háskólinn á Akureyri lætur stofnuninni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað eftir því sem kostur er.

4. gr. Stjórn

Rektor Háskólans á Akureyri skipar fimm fulltrúa í stjórn Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar ásamt þremur varafulltrúum til fjögurra ára í senn. Forseti Hug- og félagsvísindasviðs tilnefnir tvo aðalfulltrúa, þar af skal einn þeirra að vera fulltrúi starfsfólks Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, forseti Heilbrigðis, viðskipta- og raunvísindasviðs tilnefnir einn stjórnarfulltrúa og einn varafulltrúa og rektor skipar tvo stjórnarfulltrúa og einn varafulltrúa án tilnefningar, m.a. frá samstarfsaðilum stofnunarinnar sem samningar hafa verið gerðir við, sbr. 1. gr. Stjórnin kýs formann úr sínum röðum og skiptir sjálf með sér verkum að öðru leyti.
 
Í stjórn skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé ekki minna en 40% sbr. 28. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Í þessu skyni skulu tilnefningaraðilar tilnefna bæði karl og konu. Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá því ef hlutlægar ástæður eru fyrir því að það er ekki mögulegt. Ákvæði þetta kemur ekki í veg fyrir tilnefningu eða skipun fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá.

5. gr. Stjórnarfundir

Forstöðumaður boðar stjórnarfundi í tölvupósti með minnst þriggja daga fyrirvara. Í fundarboði skal tilgreina dagskrá fundar. Formaður stýrir stjórnarfundum. Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Sama gildir ef forseti Hug- og félagsvísindasviðs eða rektor bera fram slíka ósk og hafa þeir þá málfrelsi og tillögurétt á fundinum. Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns. Forstöðumaður situr stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétti en án atkvæðisréttar. Stjórnin heldur fundargerðir þar sem ákvarðanir hennar eru skráðar. Fundargerðir skulu staðfestar í lok fundar, en eigi síðar en viku eftir að fundur var haldinn. Stjórnarfundi skal halda minnst þrisvar sinnum á ári hverju.

6. gr. Verkefni stjórnar

Stjórn stofnunarinnar mótar stefnu og áherslur í rannsóknum fyrir stofnunina og setur henni starfsreglur eftir því sem þörf segir til um. Stjórnin sker úr vafaatriðum sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunarinnar. Stjórn gerir tillögu til forseta Hug- og félagsvísindasviðs um ráðningu forstöðumanns og hlutfallslega skiptingu starfs forstöðumanns í stjórnun, rannsóknir og kennslu.

7. gr. Ráðning og verkefni forstöðumanns

Forstöðumaður skal hafa hlotið hæfnisdóm sem lektor, dósent eða prófessor á sviði fræða sem tengjast starfsemi stofnunarinnar. Forstöðumaður skal að jafnaði hafa doktorspróf og þekkingu og reynslu í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir viðkomandi starfsheiti á fræðasviðinu, staðfest með áliti dómnefndar.
 
Forstöðumaður ber ábyrgð á fjármálum stofnunarinnar gagnvart Forseta hug- og félagsvísindasviðs.
 
Forstöðumaður leggur fyrir stjórn til afgreiðslu rannsóknaáætlun og rekstrar- og fjárhagsáætlun fyrir hvert ár.
 
Forstöðumaður ber ábyrgð á framkvæmd stefnu og á daglegum rekstri stofnunarinnar.
 
Forstöðumaður ber ábyrgð á að rækta tengsl stofnunarinnar við innlenda og erlenda samstarfsaðila, sbr. 1. gr.
 
Forstöðumaður ber ábyrgð á útgáfu ársskýrslu stofnunarinnar.
 
Forseti fræðasviðs setur forstöðumanni starfslýsingu að fenginni tillögu stjórnar stofnunarinnar þar sem nánar er kveðið á um verksvið forstöðumanns.

8. gr. Starfslið og samstarfsfólk

Starfslið og samstarfsfólk Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar er:
  1. Forstöðumaður.
  2. Sérfræðingar sem ráðnir eru til sjálfstæðra rannsókna.
  3. Háskólakennarar sem veitt er rannsóknaaðstaða hjá stofnuninni.
  4. Háskólamenntaðir rannsóknamenn sem lúta verkefnisstjórum við rannsóknastörf, styrkþegar, nýdoktorar, svo og sérfræðingar.
  5. Doktors- og meistaranemar sem ráðnir eru og veitt rannsóknaaðstaða hjá stofnuninni.
  6. Starfslið sem ráðið er til skemmri tíma en eins árs.
  7. Vísindafélagar og gistifræðimenn sem styrkja mannauð, rannsóknargetu og tengslanet stofnunarinnar.
Um ráðningu starfsfólks fer eftir reglum Háskólans á Akureyri.

9. gr. Starfsskyldur

Sérfræðingar, sem ráðnir eru til sjálfstæðra rannsókna, og háskólakennarar, sem veitt er rannsóknastaða hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, njóta akademísks rannsóknafrelsis. Forseti Hug- og félagsvísindasviðs, í samráði við forstöðmann, ákveður skiptingu starfsskyldna milli rannsókna, kennslu, stjórnunar og annarra starfa fyrir starfsmenn stofnunarinnar, samkvæmt ákvæðum reglna nr. 928/2018 um starfsskyldur kennara við Háskólann á Akureyri og skal skipting starfsskyldna koma fram í ráðningarsamningi.

10. gr. Fjármál

Forstöðumaður ber ábyrgð á fjárhagsáætlun og uppgjöri gagnvart fjárveitendum og forseta Hug- og félagsvísindasviðs.
 
Tekjur Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar eru eftirfarandi:
  1. Framlag frá Háskólanum á Akureyri. skv. ákvörðun háskólaráðs.
  2. Fjárveitingar og styrkir til einstakra verkefna.
  3. Greiðslur fyrir þjónustustarfsemi.
  4. Aðrar tekjur eða gjafir.
Reikningshald Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar er hluti af reikningshaldi Háskólans á Akureyri og lýtur reglum þess en skal vera aðgreint í bókhaldi. Fjárhagsáætlun skal borin undir stjórn stofnunarinnar og forseta Hug- og félagsvísindasviðs til staðfestingar.
 
Veiti Stofnun Vilhjálms Stefánssonar þjónustu í frjálsri samkeppni við atvinnustarfsemi annarra aðila skal sú starfsemi afmörkuð frá öðrum rekstri. Gæta ber að þeim ákvæðum samkeppnislaga nr. 44/2005 sem banna niðurgreiðslu samkeppnisrekstrar með opinberu fé. Um stjórnunar- og aðstöðugjöld gilda reglur Háskólans á Akureyri.

11. gr. Gildistaka

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og 26. gr. reglna nr. 694/2022 fyrir Háskólann á Akureyri, öðlast gildi 1. janúar 2025. Reglur þessar skal endurskoða innan þriggja ára frá gildistöku þeirra.
 
Háskólanum á Akureyri, 26. september 2024.
Áslaug Ásgeirsdóttir rektor.