Reglur um viðbrögð við einelti, ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi innan Háskólans á Akureyri voru samþykktar af háskólaráði þann 23. maí 2019.
Flýtileiðir
- Markmið
- Hugtök
- Fagráð
- Tilkynningar
- Málsmeðferð
- Þagnarskylda
- Tölfræðilegar upplýsingar
- Gildistaka
- Endurskoðun
Reglur um viðbrögð við einelti, ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi innan Háskólans á Akureyri, prentskjal (pdf).
1. grein. Markmið
Ofbeldi, einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni, kynbundið og kynferðislegt ofbeldi (hér eftir nefnt brot) er með öllu óheimilt af hálfu starfsfólks, nemenda eða annarra sem að starfsemi HA koma, s.s. verktaka eða gesta. Slíkt er hvorki liðið í samskiptum starfsfólks og nemenda HA, starfsfólks innbyrðis, nemenda innbyrðis né í samskiptum starfsfólks eða nemenda HA við einstaklinga sem teljast ekki til starfsfólks eða nemenda HA enda eigi samskiptin sér stað í tengslum við starfsemi HA.
Markmið reglna þessara er að tryggja að úrræði séu til staðar ef upp koma tilvik varðandi einelti eða hvers konar áreitni eða ofbeldi innan HA. Auk þess er reglunum ætlað að stuðla að forvörnum og aðgerðum gegn slíkum brotum innan háskólans ásamt því að mynda grundvöll fyrir skýrar verklagsreglur til að tryggja að rétt sé brugðist við í samræmi við ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
Starfsfólk, stjórnendur og nemendur bera sameiginlega ábyrgð á að stuðla að góðu og öruggu vinnuumhverfi, jákvæðum starfsanda og umburðarlyndi.
2. grein. Hugtök
Með hugtakinu einelti er átt við síendurtekna hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Með hugtakinu ofbeldi er átt við hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.
Með hugtakinu kynbundin áreitni er átt við hegðun sem tengist kyni þeirrar/þess/háns sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni.
Með hugtakinu kynferðisleg áreitni er átt við hvers kyns kynferðislega hegðun sem er í óþökk þeirrar/þess/háns sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni.
Með hugtakinu kynbundið ofbeldi er átt við ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þeirrar/þess/háns sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.
Með hugtakinu kynferðislegt ofbeldi er átt við brot gegn kynfrelsi einstaklings sem lýst eru refsiverð í XXII. kafla almennra hegningarlaga.
Með hugtakinu starfsfólk er átt við öll þau sem starfa á vegum Háskólans á Akureyri, hvort sem þau eru í beinu ráðningarsambandi við skólann, eru stundakennarar eða starfa við skólann sem verktakar eða undirverktakar.
Með hugtakinu aðilar máls er átt við þann/þá/hán sem talið er að hafi brotið af sér og þá/þann/hán sem talið er að hafi orðið fyrir broti.
3. grein Fagráð
Háskólaráð skipar fagráð til þriggja ára í senn sem hefur það hlutverk að taka til meðferðar mál er varða ofangreind brot innan Háskólans á Akureyri. Sem formann skal skipa einstakling sem hefur fagþekkingu og reynslu af meðferð mála af þessu tagi og er ekki í föstu starfi við HA. Auk formanns skal skipa tvo fulltrúa, einn tilnefndan af skrifstofu rektors og annan tilnefndan af náms- og starfsráðgjöf. Þá skal háskólaráð skipa þrjá fulltrúa sem varamenn samkvæmt sömu reglum. Við tilnefningar í fagráð skal gæta að ákvæði 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Hlutverk fagráðsins er að taka við og rannsaka tilkynningar um brot innan HA og veita yfirmönnum náms- eða starfseininga og aðilum máls umsögn um þær og koma með tillögur til úrbóta eftir því sem við á. Fagráðið skal enn fremur vera yfirstjórn HA til ráðgjafar um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn slíkum brotum.
Ráðið hefur til hliðsjónar málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum ákvæði um andmælarétt, rannsóknarskyldu, jafnræði aðila og málshraða eftir því sem við á. Einnig skal líta til hæfisreglna stjórnsýslulaga varðandi hæfi fulltrúa í fagráði til að fjalla um mál hverju sinni. Fagráð setur sér starfsreglur um málsmeðferð og starfshætti sína.
4. grein. Tilkynningar
Hver sá sem vill tilkynna atvik eða brot sem viðkomandi telur sig verða eða hafa orðið fyrir af hálfu starfsmanns, nemanda, verktaka eða gests við HA eða vill tilkynna um brot sem viðkomandi telur sig hafa rökstuddan grun eða vitneskju um, skal að jafnaði snúa sér til einhvers hinna þriggja fulltrúa í fagráðinu eða til verkefnastjóra mannauðsmála HA.
Starfsfólk HA getur einnig snúið sér til næsta yfirmanns en sé hann sá sem talinn er hafa gerst brotlegur getur starfsfólk snúið sér til þar næsta yfirmanns. Nemendur geta einnig snúið sér til náms- og starfsráðgjafa, viðkomandi deildarformanns eða eftir atvikum forseta viðkomandi fræðasviðs.
Hver sem tekur við tilkynningu um brot skal umsvifalaust vísa erindinu til fagráðsins til faglegrar meðferðar.
Formlegri tilkynningu skal skila á þar til gerðu eyðublaði sem fer til fagráðs.
5. grein. Málsmeðferð
Fagráði ber að rannsaka þau mál sem til þess berast og skila af sér niðurstöðu svo fljótt sem auðið er. Þær aðgerðir sem ráðið grípur til við rannsókn málsins eru ætíð í samráði við meintan þolanda.
Þegar tilkynning um meint brot berst fagráði skal boða brotaþola á fund teymisins þar sem honum er gefinn kostur á að rekja málsatvik. Ráðið metur aðstæður og boðar ýmist meintan geranda á sinn fund, þar sem viðkomandi er gerð grein fyrir tilkynningunni og gefinn kostur á að tjá sig um málið, eða leitar upplýsinga hjá öðrum áður en rætt er við meintan geranda.
Að loknum viðtölum við aðila málsins ákveður fagráð hvort taka skuli málið til formlegrar meðferðar. Fagráðið skal eiga óheftan aðgang að gögnum sem málið varða í skjalasafni HA og skjalasöfnum deilda.
Ákveði ráðið að taka mál til formlegrar meðferðar skal ráðið tilkynna það aðilum málsins ásamt yfirmönnum náms- eða starfseininga(r) þeirra eftir því sem þörf er á. Skulu yfirmenn, að höfðu samráði við fagráðið, grípa til nauðsynlegra ráðstafana varðandi náms- eða vinnutilhögun aðila málsins. Reynt skal að ná sáttum um vinnutilhögun meðan málið er í skoðun. Óheimilt er að flytja þann/þá/hán, sem tilkynnt hefur brot til í starfi/námi nema viðkomandi óski þess.
Fagráð skal bjóða þeirri/þeim/háni sem talið er að hafi orðið fyrir broti sérfræðiaðstoð sálfræðings, félagsráðgjafa eða annars meðferðaraðila með sérþekkingu á umræddum brotum. Jafnframt skal bjóða þeim sem kvörtunin beinist gegn sérfræðiaðstoð telji fagráðið þörf á því. Óski brotaþoli eftir því að kæra mál til lögreglu skal fagráðið vera henni/honum/háni til aðstoðar við það eftir föngum og eins ef brotaþoli kýs að vísa málinu til lögreglu á seinni stigum máls.
Þegar rannsókn málsins er lokið kynnir fagráð aðilum og yfirmönnum náms- og starfseininga niðurstöður sínar með umsögn. Telji ráðið að um brot sé að ræða skal ráðið gera tillögur að viðbrögðum til yfirmanns viðkomandi einingar sem ákveður næstu skref í samráði við verkefnastjóra mannauðsmála og/eða náms og starfsráðgjafa. Endanlegt ákvörðunarvald í málum þessum er í samræmi við lög og reglur sem gilda um Háskólann á Akureyri.
Innan þriggja mánaða frá því að gripið var til úrræða skal fagráðið kalla alla aðila málsins og viðkomandi yfirmenn á sinn fund til að meta árangur af þeim aðgerðum sem gripið var til. Ef fullnægjandi árangur hefur náðst telst málinu endanlega lokið, en að öðrum kosti skal ráðið gera tillögur að frekari aðgerðum.
6. grein. Þagnarskylda
Aðilum í fagráði og öðrum þeim sem að málunum koma er skylt að gæta þagmælsku um einstök mál og óheimilt að veita óviðkomandi aðilum upplýsingar um þau mæli lög ekki á annan veg.
Fara skal með öll gögn og upplýsingar sem tengjast einstökum málum í samræmi við gildandi ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
7. grein. Tölfræðilegar upplýsingar
Fagráð skal halda til haga tölfræðilegum upplýsingum um mál sem berast fagráðinu og birta þær árlega.
8. grein. Gildistaka
Reglur þessar, sem settar eru á grundvelli 2. gr. reglna um Háskólann á Akureyri nr. 387/2009 með áorðnum breytingum og með hliðsjón af lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, öðlast gildi við staðfestingu háskólaráðs.
9. grein. Endurskoðun
Reglur þessar skal endurskoða í ljósi reynslu innan tveggja ára frá því að þær taka gildi.
Samþykkt í háskólaráði Háskólans á Akureyri þann 23. maí 2019