nr. 1144/2022
SAMÞYKKTAR Í HÁSKÓLARÁÐI 29.9.2022
vefútgáfa síðast uppfærð 20.10.2022
Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
og í PDF skjali gildir PDF skjalið
1. gr.
Félagsmenn í Félagi háskólakennara við Háskólann á Akureyri (FHA) sem falla undir matskerfi kennara1 og sérfræðinga og gegna a.m.k. 33% starfi eiga kost á greiðslum fyrir nýsköpun og árangur í rannsóknum umfram ákveðinn þröskuld á liðnu almanaksári. Skulu þeir hafa skilað inn stigamatsskýrslu til stjórnsýslu rannsókna eigi síðar en 1. febrúar ár hvert. Vinnumatsnefnd skipuð af matskerfisnefnd opinberra háskóla ber ábyrgð á matinu. Ekki er greitt úr Vinnumatssjóði fyrir áunnin stig fyrir lokaritgerðir s.s. doktors- og meistararitgerðir, eða fyrir önnur verk sem sérstaklega eru undanskilin í matskerfi opinberra háskóla.
1) Með kennurum er átt við eftirfarandi starfsheiti: aðjúnkt, lektor og dósent.
2. gr.
Vinnumatssjóður FHA er sérstakur sjóður. Andvirði stiga umfram þröskuld úr Vinnumatssjóði eru reiknuð á sama hátt og gert er hjá Háskóla Íslands fyrir alla akademíska starfsmenn og aðjúnkta. Einungis eru tekin til mats þau ritverk sem eru merkt Háskólanum á Akureyri.
3. gr.
Greiðslur fyrir hvert rannsóknastig úr Vinnumatssjóði taka mið af starfshlutfalli hvers og eins. Þannig fær félagsmaður sem er í hálfu starfi greitt fyrir helming stiga að frádregnum helmingi af þröskuldi starfsmanns í fullu starfi sbr. 4. grein.
4. gr.
Við útreikning á rannsóknaframlagi lektora og dósenta í fullu starfi skal miðað við 7 stiga þröskuld, fyrir aðjúnkta í fullu starfi skal miða við 5 stiga þröskuld. Greitt skal fyrir rannsóknastig umfram 7 stiga þröskuld fyrir lektora og dósenta í fullu starfi og 5 stiga þröskuld fyrir aðjúnkta í fullu starfi við HA. Þröskuldur félagsmanns í hálfu starfi er helmingur á við starfsmann í fullu starfi, eða 3,5 stig fyrir lektora og dósenta og 2,5 stig fyrir aðjúnkta. Árleg vinnuskylda þeirra sem eru með 100% rannsóknaskyldu miðast við 14 stig og annarra hlutfallslega þar á milli. Þannig miðast árleg vinnuskylda þeirra sem eru með 60% rannsóknaskyldu við 9,33 stig. Séu rannsóknastig umfram lágmarksstigafjölda fleiri en 60 reiknast þau stig sem umfram eru í veldinu 0,8. Greitt er úr sjóðnum í hlutfalli við umreiknuð rannsóknastig. Stig þeirra sem eru með annað starfshlutfall og/eða annað hlutfall rannsóknaskyldu eru reiknuð hlutfallslega. Starfi kennari við tvær eða fleiri háskólastofnanir getur hann ekki fengið tvígreitt fyrir sömu ritverk.
5. gr.
Árlegt mat skal liggja fyrir í síðasta lagi 15. júní og skal Háskólinn á Akureyri úthluta greiðslum úr sjóðnum 1. september ár hvert. Félagsmaður úr Félagi háskólakennara á Akureyri getur fengið greitt úr sjóðnum á árinu eftir að hann hættir störfum við skólann vegna rannsókna sem unnar eru á því ári sem hann lætur af störfum.
6. gr.
Gefinn er kostur á að skila inn athugasemdum til stjórnsýslu rannsókna við niðurstöðu mats innan 15 daga frá því það liggur fyrir. Ágreiningi skal vísa til málsskotsnefndar skipaðri af matskerfisnefnd. Málskotsnefnd ber að kanna hvort mat hafi verið í samræmi við reglur. Úrskurður hennar er endanlegur.
7. gr.
Reglur þessar eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og reglna nr. 694/2022 fyrir Háskólann á Akureyri. Reglurnar öðlast þegar gildi. Um leið falla úr gildi reglur nr. 1352/2011 um Vinnumatssjóð Háskólans á Akureyri.
Háskólanum á Akureyri, 29. september 2022
Eyjólfur Guðmundsson, rektor