Verkferli vegna ritstuldarmála við Háskólann á Akureyri

Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
 og í PDF skjali gildir PDF skjalið

1. Grunur vaknar um brot. Kennari, leiðbeinandi eða aðrir vekja athygli deildarforseta á málinu.

2. Deildarforseti sér til þess að mál sé stofnað í Gopro og að meint brot sé rannsakað.

a. Afmarka þarf eins ítarlega og hægt er í hverju meint brot nemanda felst.

i. Liður í því getur verið að fá óháðan aðila til að fara yfir ritgerð/verkefni og skila af sér greinargerð um í hverju meint brot felst. Þetta á yfirleitt við ef meint brot er umfangsmikið.

b. Nemandi er kallaður á fund þar sem málið er borið undir hann og rætt.

3. Deildarforseti sendir nemanda 1. bréf (sjá fyrirmynd vegna ritstuldarmála). Þar er hinu meinta broti lýst, tilgreint hvaða lög og reglur meint brot varðar og nemandi upplýstur um mögulegar afleiðingar slíkra brota. Nemanda gefinn kostur á andmælum. Afrit greinargerðar óháðs aðila fylgir, ef það á við.

4. Deildarforseti tekur afstöðu til þess, að teknu tilliti til andmæla nemanda, hvort um brot nemanda sé að ræða. Deildarforseti sendir nemanda 2. bréf (sjá fyrirmynd). Í bréfinu er gerð grein fyrir ákvörðun deildarforseta. Ef um brot er að ræða er farið yfir þær afleiðingar sem brotið hefur, t.d. ákvörðun kennara um að gefa einkunnina 0,0. Þá er nemanda gerð grein fyrir að málið verði sent til sviðsforseta til ákvörðunar um agaviðurlög. Ef ekki er talið að um brot sé að ræða er nemanda tilkynnt um það og máli lýkur.

5. Deildarforseti sendir málið til sviðsforseta ásamt afriti af öllum gögnum málsins.

6. Sviðsforseti tekur málið til meðferðar vegna ákvörðunar um agaviðurlög og sendir nemanda 3. bréf (sjá fyrirmynd). Nemanda er þá aftur gefinn kostur á andmælum.

7. Að teknu tilliti til alvarleika brotsins (sbr. töflu ), athugasemda nemanda og eðli málsins að öðru leyti, tekur sviðsforseti ákvörðun um agaviðurlög, þ.e. áminning eða brottvikning úr skóla. Ákvörðunin er rökstudd í 4. bréfi til nemanda og nemandi upplýstur um kærurétt (sjá fyrirmynd).

Eðli brots Brot: Gáleysi Stórfelld brot: Ásetningur
 

Óvönduð vinnubrögð, kæruleysi

Misferli: Gróf vanræksla, ábyrgðarleysi

Svik / vísvitandi blekking, s.s. uppspuni, misnotkun, rangar og villandi upplýsingar

Viðurlög    
1. brot Áminning Brottrekstur
2. brot Áminning/brottrekstur (eftir eðli og umfangi brots)  
3. brot Brottrekstur  

*Í öllum tilvikum er mál sett í ferli skv. 43. gr. reglna HA, sem stýrt er af deildarforseta.
*Almennt er gefin einkunnin 0,0 fyrir viðkomandi próf /verkefni ef ljóst er að nemandi hefur brotið af sér.
*Ef einkunn hefur verið gefin er rétt þegar um alvarleg eða mjög alvarleg brot er að ræða að afturkalla einkunn. Sé einkunn grundvöllur prófgráðu er jafnframt rétt að afturkalla prófgráðuna/ prófskírteini.
*Um viðmið er að ræða, meta þarf hvert tilvik fyrir sig með tillit til eðlis og umfangs brots og aðstæðna hvers máls.

Staðfest af háskólaráði 25. maí 2022