Verklagsreglur um ráðningu forseta fræðasviðs við Háskólann á Akureyri

SAMÞYKKTAR Í HÁSKÓLARÁÐI 25.05.2022
 
Vefútgáfa síðast uppfærð 3.06.2024

Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
og í PDF skjali gildir PDF skjalið

1. Gildissvið

Samkvæmt 16. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri ræður rektor forseta fræðasviðs til fimm ára samkvæmt verklagsreglum sem háskólaráð setur.

Umsækjendur um stöðu forseta fræðasviðs skulu uppfylla almenn hæfisskilyrði sem akademískt starfsfólk á viðkomandi fræðasviði.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði Háskólans á Akureyri til að undirbúa ákvörðun rektors um ráðningu forseta fræðasviða Háskólans á Akureyri með vísan til 16. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri.

2. Dómnefnd

Dómnefnd HA metur hæfi umsækjenda um stöðu forseta fræðasviðs á grundvelli reglna nr. 258/2016 um störf dómnefndar og ráðningar akademískra starfsmanna við Háskólann á Akureyri. Að auki lítur dómnefnd sérstaklega til starfsferils, starfsreynslu og menntunar umsækjenda m.t.t. áherslna í auglýsingu og eðlis starfsins.

3. Umsögn fræðasviðs

Þegar dómnefnd hefur lokið störfum og skilað rektor áliti sínu óskar rektor eftir umsögn fræðasviðs um þá umsækjendur sem dómnefnd hefur metið hæfa. Umsögn fræðasviðs skal unnin af sérstakri umsagnarnefnd sem rektor skipar samkvæmt tilnefningum frá deildarforsetum fræðasviðs.

4. Skipan og hæfi umsagnarnefndar fræðasviðs

Rektor skipar umsagnarnefnd til að vinna umsögn fræðasviðs um umsækjendur um starf forseta fræðasviðs. Hver deild fræðasviðs tilnefnir einn fulltrúa í nefndina. Rektor skipar nefndinni ritara sem starfar með nefndinni og ber ábyrgð á skjölun og skráningu upplýsinga og gagna sem verða til í störfum nefndarinnar. Í nefndina má aðeins skipa þá sem hafa prófessors-, dósents- eða lektorshæfi. Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga. Rektor setur nefndinni erindisbréf.

5. Verkefni umsagnarnefndar fræðasviðs

Starf umsagnarnefndar fræðasviðs skal miða að því að leggja mat á og veita umsögn um hversu hæfir nefndin telur umsækjendur vera til að gegna starfinu á grundvelli heildarmats á matsþáttum sem fram koma í auglýsingu um starfið. Í erindisbréfi til nefndarinnar skulu koma fram áherslur rektors fyrir starfið og hvaða matsþættir skulu hafa aukið vægi við mat á umsóknum.

Áður en nefndin kemur saman skulu nefndarmenn hafa fengið send gögn allra umsækjenda ásamt dómnefndaráliti. Nefndin fer yfir öll innsend gögn og getur kallað eftir öðrum nauðsynlegum gögnum frá umsækjendum, til viðbótar þeim sem fylgdu umsókn, og lagt til grundvallar umsögn sinni. Nefndin getur einnig óskað eftir að umsækjendur sem metnir eru hæfir af dómnefnd kynni áherslur sínar fyrir nefndinni.

Gæta skal að andmælarétti umsækjenda samkvæmt stjórnsýslulögum.

Nefndin skal gæta þess við mat sitt að samræmis sé gætt þannig að jafnræði sé í heiðri haft.

6. Umsögn nefndar

Umsagnarnefndin undirritar umsögn sína og sendir rektor hana ásamt öllum gögnum málsins.

Heimilt er að undirrita umsögn með rafrænni undirritun. Einstaka nefndarmenn mega gera fyrirvara við undirritun sína eða gera grein fyrir afstöðu sinni í séráliti.

Í umsögninni skal koma fram rökstutt álit nefndarinnar á hæfni hvers umsækjanda í hverjum matsþætti fyrir sig ásamt heildarmati á þeim matsþáttum sem leggja ber til grundvallar við ráðninguna og fram koma í auglýsingu fyrir starfið og erindisbréfi nefndarinnar.

Nefndin skal að jafnaði skila umsögn sinni til rektors innan fjögurra vikna frá því að umsóknargögn bárust henni. Fresturinn getur orðið lengri ef sérstakar ástæður valda.

7. Þagnarskylda

Nefndarmenn skulu gæta þagnarskyldu um viðkvæmar upplýsingar sem leynt eiga að fara er varðar umsækjendur og þeir fá vitneskju um í starfi sínu. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi í nefndinni.

8. Ákvörðun rektors

Þegar dómnefndarálit og umsögn umsagnarnefndar fræðasviðs liggur fyrir er lokaákvörðun um ráðningu í höndum rektors. Áður en rektor tekur lokaákvörðun leggur hann sjálfstætt mat á öll gögn málsins. Við mat á umsóknum er rektor heimilt að líta til sjálfstæðs mats á stjórnunar-, leiðtoga- og samskiptahæfni umsækjenda. Rektor er jafnframt heimilt að afla viðbótargagna frá umsækjendum ef hann telur þörf á því og kalla umsækjendur til viðtals.

9. Gildistaka

Reglur þessar taka þegar gildi.