SAMÞYKKTAR Í HÁSKÓLARÁÐI 27.04.2023
Vefútgáfa síðast uppfærð 21.06.2023
Prentgerð (pdf)Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
og í PDF skjali gildir PDF skjalið
1. gr. Tilgangur
Stúdentar við Háskólann á Akureyri sem eru fatlaðir eða með sértæka námserfiðleika, sem geta á einhvern hátt verið hindrun í háskólanámi, eiga rétt á sértækum úrræðum lögum samkvæmt og eftir því sem kveðið er á um í þessum reglum.
Tilgangur reglna þessara er að gera fötluðum stúdentum háskólans eða stúdentum með sértæka námserfiðleika kleift að stunda nám sitt án mismununar þannig að þeir fái sambærileg tækifæri og aðrir til náms. Sú aðstoð sem kann að vera veitt felur á engan hátt í sér að dregið sé úr eðlilegum námskröfum eða þeim hagað með öðrum hætti gagnvart þeim stúdentum sem aðstoðar njóta en almennt gildir.
2. gr. Skilgreiningar
Með fötlun er átt við afleiðingu skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.
Með sértækum námserfiðleikum er í skilningi þessara reglna átt við sértæka námsörðugleika og hamlanir sem hljótast af langvinnum veikindum, slysum eða af öðrum orsökum.
Með sértækum úrræðum er átt við aðstoð sem ætlað er að koma til móts við þarfir og jafna stöðu stúdenta til náms og tryggja að við námsmat sé tekið sanngjarnt og eðlilegt tillit til fötlunar eða sérþarfa stúdenta.
3. gr. Staðfest greining á fötlun eða sérþörfum
Stúdent sem óskar eftir sértækum úrræðum skal snúa sér til Náms- og starfsráðgjafar Háskólans á Akureyri (NSHA). Forsenda þess að stúdent fái sérúrræði er að hann leggi fram málsgögn, s.s. greiningu sérfræðings á skerðingu eða sérþörfum, í rafrænni þjónustugátt háskólans. Sértæk úrræði eru einstaklingsmiðuð og eingöngu veitt á grundvelli því sérfræðiáliti sem kemur fram í gögnum stúdents og faglegs mats náms- og starfsráðgjafa NSHA og fela á engan hátt í sér að dregið sé úr eðlilegum námskröfum.
4. gr. Veiting sértækra úrræða
Náms- og starfsráðgjöf Háskólans á Akureyri hefur yfirumsjón með þjónustu við fatlaða stúdenta og stúdenta sem þurfa á sértækum námsúrræðum að halda.
Skilyrði fyrir veitingu sértækra úrræða er að stúdent hafi hlotið skólavist og staðfest hana með greiðslu skrásetningargjalds, en það er þó ekki skilyrði fyrir málsmeðferð að hlutaðeigandi hafi fengið skólavist. Því geta væntanlegir stúdentar við háskólann fengið upplýsingar um þau úrræði sem tiltæk eru eða hugsanlega er hægt að bjóða.
Við veitingu sértækra úrræða skal NSHA, eftir atvikum með samþykki viðkomandi stúdents, hafa samstarf við kennara hans, deildarforseta, brautarstjóra, prófstjóra og aðra þá sem koma að því að veita viðkomandi aðstoð. Standi val á milli ólíkra úrræða sem veita stúdent sambærilegan stuðning velur háskólinn hvaða úrræði honum er boðið.
Háskólinn greiðir ekki fyrir sérhæfða þjónustu sem þarf að leita eftir utan skólans né þau vottorð eða greiningar sem skólinn kann að óska eftir frá stúdentum.
Sérúrræði sem háskólinn veitir á grundvelli reglna þessara eru stúdentum að kostnaðarlausu.
5. gr. Umsóknir og tímamörk
Sótt er um sértæk úrræði í námi með því að senda inn rafræna beiðni í þjónustugátt háskólans fyrir 1. október vegna haustmisseris og fyrir 1. mars vegna vormisseris. Æskilegt er að fatlaðir stúdentar leiti til NSHA áður en nám þeirra hefst þannig að unnt sé að taka tillit til þarfa þeirra við skipulag og undirbúning. Almennt skulu samningar um sértæk úrræði gilda fyrir allan námstímann nema annað sé sérstaklega tekið fram, þó aldrei lengur en sem nemur hámarkslengd náms samkvæmt reglum viðkomandi deildar.
Heimilt er að fara fram á að stúdent sem verður fyrir áfalli á námstíma sem dregur verulega úr námsgetu hans leggi fram vottorð frá viðeigandi sérfræðingi þar sem hæfni viðkomandi til áframhaldandi háskólanáms er metin og möguleg úrræði einnig.
Náms- og starfsráðgjafi og stúdent geta ávallt óskað eftir endurskoðun samnings þyki tilefni til.
6. gr. Ábyrgð á framkvæmd sértækra úrræða
Almennt þarf ekki að leita samþykkis viðkomandi deildar, námsbrautar eða kennara vegna sértækra úrræða sem veitt eru samkvæmt reglum þessum. Ábyrgðaraðilar innan háskólans, svo sem starfsfólk skrifstofa fræðasviða, kennarar og annað starfsfólk, tryggja að skipulag einstakra námskeiða, þ.m.t. staðsetning og sértækar lausnir og tiltekin úrræði sem varða próf og annað námsmat skapi fötluðum stúdentum og stúdentum með sértæka námsörðugleika bestu mögulegu tækifæri til fullrar þátttöku í náminu. Náms- og starfsráðgjöf háskólans veitir ráðgjöf við framkvæmdina.
Ef ljóst er að fötlun eða veikindi gera það að verkum að stúdent sé ókleift að ljúka námsmati með hefðbundnum hætti má, í undantekningartilvikum og með góðum fyrirvara, óska eftir breyttu fyrirkomulagi námsmats. Náms- og starfsráðgjöf ásamt umsjónarkennara og prófstjóra meta hvert tilvik fyrir sig og leita leiða að lausn málsins eftir því sem við verður komið.
Náms- og starfsráðgjöf háskólans tryggir, í samvinnu við prófstjóra, að stúdentar njóti skráðra sérúrræða í prófum sem haldin eru á vegum prófstjóra. Þegar próf eru haldin á vegum kennara er nauðsynlegt að stúdent upplýsi kennara sína um að hann hyggist nýta skráð sérúrræði í prófi. Eftir slíka tilkynningu er það á ábyrgð kennara að tryggja að stúdent geti notið skráðra sértækra úrræða.
7. gr. Meðferð upplýsinga
Náms- og starfsráðgjöf háskólans varðveitir trúnaðargögn um fatlaða stúdenta og stúdenta með sértæka námsörðugleika við háskólann sem þurfa á sértækum úrræðum að halda. Meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglur háskólans.
Með umsókn um sértæk úrræði í námi veitir stúdent NSHA umboð til að fylgja málum sínum eftir innan háskólans og fjalla um persónuupplýsingar hans. Náms- og starfsráðgjöf háskólans sér um að miðla nauðsynlegum upplýsingum til starfsfólks sem kemur að framkvæmd sértækra úrræða. Trúnaðarupplýsingar eru einungis veittar í þeim tilvikum þar sem mat og framkvæmd úrræða krefjast þess.
8. gr. Gildistaka og endurskoðun
Reglur þessar öðlast gildi 1. júlí 2023. Reglurnar skal endurskoða reglulega og skal þá taka mið af fenginni reynslu.