Heilsuferðalagið

Um verkefnið

Rannsóknin Heilsuferðalagið – langtímarannsókn á Íslendingum fæddum 1988 mun vera ein af fyrstu rannsóknum á Íslandi til að skoða ítarlega langtímaþróun á heilsufars tengdum þáttum á mótunarárunum frá unglingsaldri til fullorðinsára. Rannsóknin er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands auk erlendra samstarfsaðila.

Markmið rannsóknarinnar er að skoða langtímabreytingar á andlegri, félagslegri og líkamlegri heilsu Íslendinga fæddra árið 1988 frá unglingsárum (15 ára), for-fullorðinsárum (23 ára) til fullorðinsára (við 36 ára aldur í fyrirhugaðri rannsókn). Áætlað er að meta andlega og líkamlega heilsu ásamt félagslegum stuðningi hjá þátttakendum sem nú hafa náð fullorðinsaldri og skoða þversniðstengsl milli þunglyndiseinkenna, einmanaleika, streitu, svefns, þreks, hreyfingar og líkamssamsetningar. Einnig að kanna langtímaáhrif þreks og hreyfingar á unglingsaldri og á for-fullorðinsárum á þunglyndi, kvíða, sjálfsálit, líkamsímynd og lífsánægju á fullorðinsárum. Andleg og líkamleg heilsa verður metin með spurningalista, auk þess sem hreyfing, þrek og svefn verða að metin með hlutlægum mæliaðferðum. Með því að brúa bilið á milli unglings- og fullorðinsára gefst einstakt tækifæri til að skilja hvernig andleg líðan, félagslegur stuðningur, þrek, hreyfing og svefn tengjast og móta heilsu á fullorðinsárum.

Upplýsingar til þátttakenda í rannsókninni

Um er að ræða framhald af rannsóknum sem framkvæmdar voru árin:

  • 2003-2004 Hreyfing, mataræði, heilsufar og lífsstíll 9 og 15 ára Íslendinga
  • 2011-2012 Atgervi ungra Íslendinga

Þú tókst að öllum líkindum þátt í þessum rannsóknum þegar þú varst 15 ára og/eða 23 ára. Í fyrri rannsóknum var mjög góð þátttaka og hafa niðurstöður leitt til umtalsverðrar þekkingarsköpunar á sviði heilsu og forvarna á Íslandi. Við vonumst til að sem flestir sjái sér fært að taka þátt í þessari framhaldsrannsókn.

Þetta verður lokaáfangi rannsóknarinnar og ekki verður haft samband við þátttakendur aftur vegna þessarar eða tengdra rannsókna.

Allir sem taka þátt fá gjöf þegar þau mæta í mælingar, upplýsingar úr heilsufarsmælingum og eiga möguleika á útdráttarverðlaunum. Þeir sem ljúka öllum verkþáttum fá 6000 kr. gjafakort.

Af hverju fæ ég að taka þátt?

Í þessari rannsókn (Heilsuferðalaginu) verður leitað til sömu einstaklinga og tóku þátt í fyrri tveimur rannsóknum. Þessir einstaklingar eru fæddir árið 1988 og verða 36 ára árið 2024. Markmiðið er að skoða breytingar á andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu á þremur aldursskeiðum:

  • Frá unglingsárum (15 ára)
  • For-fullorðinsárum (23 ára)
  • Til fullorðinsára (36 ára)

Með því að rannsaka tímabilið frá unglings- til fullorðinsára gefst einstakt tækifæri til að skilja hvernig almennt heilsufar, andleg líðan, félagslegur stuðningur, þrek, hreyfing og svefn tengjast og móta heilsu á fullorðinsárum.

Hver erum við sem stöndum að þessari rannsókn?

Hópurinn sem stendur að Heilsuferðalaginu er samsettur af aðilum frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, tveimur háskólum í Bergen í Noregi, fræðimönnum hjá Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna og Háskólanum í Porto í Portúgal.

Frá HÍ koma þau Dr. Erlingur Jóhannsson prófessor (ábyrgðarmaður), Dr. Sunna Gestsdóttir dósent og Dr. Ársæll Már Arnarson prófessor. Frá HA kemur Dr. Nanna Ýr Arnardóttir lektor. Auk þess hafa tveir doktorsnemar verið ráðnir í verkefnið.

Persónuvernd

Þátttaka í rannsókninni er að sjálfsögðu valfrjáls. Ef þú ákveður að taka þátt getur þú hætt þátttöku hvenær sem er, án þess að gefa ástæðu fyrir því og án eftirmála. Farið verður með öll gögn sem safnað verður sem og persónuleg samskipti sem trúnaðarmál og allir starfsmenn sem að verkefninu koma eru bundnir þagnarskyldu. Jafnframt verða niðurstöður rannsóknarinnar birtar á nafnlausu formi, þ.e.a.s. án þess að hægt sé að tengja gögnin við þig. Vísindasiðanefnd, Persónuvernd og Geislavarnir ríkisins hafa samþykkt framkvæmd rannsóknarinnar. Öll gögn verða geymd hjá Menntavísindastofnun Háskóla Íslands sem sér jafnframt um að para eldri rannsóknirnar við þessa nýju rannsókn og afhenda rannsakendum gögnin ópersónugreinanleg, þ.e.a.s. án nafns og kennitölu.

Hvar fer rannsóknin fram?

Gagnasöfnun og mælingar fara fram í Reykjavík og á Akureyri, en þátttakendur mæta á þann stað sem hentar best miðað við búsetu. Aðalrannsóknaraðstaðan er staðsett í:

  • HÍ: Rannsóknarstofu í Íþrótta- og heilsufræði, Hagatorgi 1, 107 Reykjavík
  • HA: Norðurslóð 2, 600 Akureyri
  • Einnig mun vera hægt að gera hluta mælinga á Húsavík og Egilsstöðum

Hvað er gert og hvað þarf ég að gera?

Í fyrstu heimsókninni verður upplýst samþykki undirritað, spurningalista svarað (ef því var ekki lokið áður), blóðþrýstingur og gripstyrkur mældur og afhentur verður hreyfi- og svefnmælir sem þátttakendur bera á sér í 7 daga. Framkvæmd verður þrekmæling (einungis í HÍ) og DXA-mæling (framkvæmd í Hjartavernd, Kópavogi eða á Sjúkrahúsinu á Akureyri).

Verkþættir rannsóknarinnar

Spurningalisti: Spurningalistinn inniheldur spurningar er varða andlega og líkamlega heilsu. Það tekur að meðaltali um 30 mínútur að svara listanum.

Gripstyrkur og blóðþrýstingur: Gripstyrkur og blóðþrýstingur verður mældur á hefðbundinn hátt. Gert er ráð fyrir að það taki um 10 mínútur.

Hreyfi– og svefnmælingar: Hröðunarmælar (e. accelerometers) verða notaðir til að meta hreyfingu og svefn þátttakenda. Mælarnir eru á stærð við venjuleg hreyfiúr sem margir bera á sér í dag. Mælarnir eru bornir á úlnlið í eina viku samfellt, einnig þegar farið er í sund eða bað.

Þrekmæling: Til að meta þrek verða þátttakendur beðnir um að undirgangast þrekmælingu (VO2max) á hlaupabretti þar sem þau ganga eða hlaupa á stigvaxandi ákefð þar til þau þreytast. Fylgst verður náið með hjartslætti þátttakenda á meðan á prófinu stendur og tekur það um 15-20 mínútur. Prófið er einungis framkvæmt í Rannsóknarstofu í Íþrótta- og heilsufræði, Hagatorgi 1, 107 Reykjavík.

Röntgenrannsókn fyrir dreifingu líkamsvefja með DXA: DXA-mæling segir bæði til um beinþéttni og vöðva- og fitudreifingu í líkamanum. Gera má ráð fyrir að mælingin taki u.þ.b. 10 mínútur á hvern einstakling en þátttakendur liggja á bekk á meðan rannsóknin fer fram og líkaminn er skannaður. Við mælinguna er notuð röntgengeislun, en geislun vegna þátttöku í rannsókninni er sambærileg við 2–3 daga náttúrlega bakgrunnsgeislun á Íslandi. Náttúruleg bakgrunnsgeislun er í öllu okkar umhverfi. Hún kemur frá himingeimnum, jarðskorpunni og geislavirkum efnum í líkama okkar. Þessi geislun er mjög lítil á Íslandi og mun minni en annars staðar á Norðurlöndum. Miðað við þá geislun sem hér um ræðir er það mat Geislavarna ríkisins að áhætta vegna þátttöku í rannsókninni sé hverfandi. DXA-mælingin er framkvæmd í Hjartavernd í Kópavogi eða á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Ef þú vilt fá frekari upplýsingar er þér velkomið að hafa samband við einhvern af verkefnisstjórum rannsóknarinnar.

  • Dr. Erlingur Jóhannsson, prófessor HÍ, ábyrgðarmaður og verkefnastjóri rannsóknarinnar. Netfang: erljo@hi.is
  • Dr. Sunna Gestsdóttir, dósent við HÍ, verkefnisstjóri rannsóknarinnar. Netfang: gsunnag@hi.is
  • Dr. Nanna Ýr Arnardóttir, lektor við HA, verkefnisstjóri rannsóknarinnar. Netfang: nanna@unak.is 

Rannsakendur

Rannsakendur við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri:

Samstarfsaðilar

  • Dr. Hege Randi Eriksen, Professor, Department of Sport, Food and Natural Sciences at Western Norway Univ. of Applied Sciences, Bergen, Norway
  • Dr. Jorge Mota, Professor, Faculty of Sports Sciences and Director of the Research Center in Physical Activity, Health and Leisure, at Porto University, Portugal
  • Dr. Kong Chen, Senior Clinical Investigator and Director of the Metabolic Clinical Research Unit at the NIH, Bethesda, Maryland, USA
  • Dr. Mari Hysing, Professor, Faculty of Psychology, Univ. of Bergen, Norway
  • Dr. Robert Brychta, Staff Scientist at the National Institute of Diabetes & Digestive & Kidney Diseases, Bethesda, NIH, Maryland, USA

Tengdar rannsóknir

Heilsuhegðun ungra Íslendinga – Rannsókn við Háskóla Íslands (hi.is)