Heilsutengd lífsgæði, lífshættir og verkir - ICEPAIN

Um verkefnið

Verkefnið felst í því að byggja upp víðtækan gagnagrunn um heilsutengd lífsgæði, lífshætti og verki meðal almennings á Íslandi. Verkefnið hófst sem þverskurðarrannsókn en um leið upphaf að langtímarannsókn þar sem þátttakendum sem það hafa samþykkt verður fylgt eftir með sams konar gagnasöfnun eftir 5 og 10 ár.

Við uppbyggingu gagnagrunnsins var safnað upplýsingum um heilsutengd lífsgæði og nokkra þætti varðandi almenna lífshætti fólks s.s. atvinnuþátttöku, neyslu tóbaks, áfengis og annarra vímuefna sem og upplýsinga um reynslu af langvinnum veikindum og streituvaldandi áföllum svo sem slysum og ofbeldi. Einnig var spurt um reynslu af verkjum, eðli og útbreiðslu verkja, áhrif verkja á daglegt líf og lífsgæði sem og aðgang að og notkun á heilbrigðisþjónustu.

Gagnaöflun var í formi spurningalista sem þátttakendur svöruðu rafrænt. Úrtakið byggist á hópi einstaklinga úr svarendahópi gagnaöflunarfyrirtækisins MASKÍNA (Þjóðargátt) Úrtakið er lagskipt m.t.t. aldurs, kyns og búsetu. Fyrsti áfangi gagnasöfnunar fór fram sumarið 2021 þar sem gögn fengust frá 5.550 einstaklingum og samþykktu 4.500 (81%) þeirra að hafa mætti við þá aftur síðar til frekari rannsókna.

Gagnagrunnurinn geymir miklar og dýrmætar upplýsingar um heilsutengd lífsgæði, lífshætti og verki meðal almennings á Íslandi og veitir mikla möguleika á rannsóknum á flóknu samspili allra þessara þátta og þróun til lengri tíma. Með því að fylgja þátttakendum eftir til lengri tíma er mögulegt að skoða þróun og samspil heilsutengdra lífsgæða, ýmissa þátta í lífsháttum fólks og verkja yfir lengri tíma.

Auk þess að safna megindlegum gögnum með spurningalistum er mögulegt að hafa samand við afmarkaða hópa þátttakenda sem það hafa samþykkt og þeim boðið að taka þátt í eigindlegum rannsóknum á ýmsum þáttum sem varða tengsl heilsutengdra lífsgæða, lífshátta og verkja.

Vísindalegt gildi felst í því að bæta við og dýpka þekkingu á flóknu samspili heilsutengdra lífsgæða, lífshátta, og verkja og hvernig þessir þættir hafa gagnkvæm áhrif hver á annan til lengri tíma.

Rannsóknin var samþykkt af Vísindasiðanefnd (VSNb2019040012/03.01) og styrkt af Rannsóknasjóði Háskólans á Akureyri og Lýðheilsusjóði.

Rannsakendur

Samstarfsaðilar

  • Dr. Elizabeth Newnham, University of Newcastle, Australia
  • Dr. Sigríður Halldórsdóttir, University of Akureyri
  • Dr. Harald Breivik, University of Oslo
  • Dr. Tone Rustoen, University of Oslo
  • Dr. Rhonda M. Johnson, University of Alaska Anchorage
  • Dr. Þorvaldur Ingvarsson, prófessor við Heilbrigðisvísindastofnun HA

Birtingar

Ritrýnd grein, Læknablaðið: Tengsl langvinnra verkja á fullorðinsárum og sálrænna áfalla í æsku. 02. tbl. 109. árg. 2023.

Umfjöllum í fjölmiðlum

Fréttablaðið 24 júní 2021. Frétt/viðtal, Tengsl langvarandi verkja við lífshætti og heilsutengd lífsgæði rannsökuð

Morgunblaðið 7. ágúst 2021. Innsend grein, Lífshættir og verkir meðal almennings á Íslandi.

Morgunblaðið 8. febrúar 2023. Frétt, Tengsl eru á milli verkja og áfalla.

Kastljós 3. mars 2023 – Viðtal við Vigdísi Hlíf Pálsdóttur. Áföll í æsku geta haft áhrif á langvinna verki.

Kynning á ráðstefnum

Chronic pain and adverse life experiences. NCNR 2023 – Nordic conference in Nursing, Reykjavík, 2.-4. October 2023.

Pain, lifestyle, and Health-Related Quality of life in Icelandic general population, the ICEPAIN study. NCNR 2023 – Nordic conference in Nursing, Reykjavík, 2.-4. October 2023.

Tengsl svefns við heilsutengd lífsgæði og langvinna verki. Hjúkrun 2023, Ráðstefna Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Reykjavík, 28.-29. sept 2023.

Tengsl svefns við heilsutengd lífsgæði og langvinna verki. Sjónaukinn, ráðstefna Heilbrigðisvísindasviðs HA. 16.-17. maí 2023.

Langtíma afleiðingar hálshnykksáverka á heilsutengd lífsgæði og verki. Sjónaukinn, ráðstefna Heilbrigðisvísindasviðs HA 16.-17. Maí 2023.

Heilsutengd lífsgæði, lífshættir og verkir – fyrstu tölur. Sjónaukinn 2022: Sjónaukinn, ráðstefna Heilbrigðisvísindasviðs HA, Akureyri 19.-20. May 2022.

Algengi og eðli verkja meðal almennings á Íslandi. Hjúkrun 2022, Ráðstefna Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Reykjavík, 29.-30. mars 2022.

Tengsl langvinnra verkja og sálrænna áfalla – kynning á rannsókn. Sjónaukinn, ráðstefna heilbrigðisvísindasviðs HA. 20.-21. maí 2021.