Verkakonur, vellíðan og velferðarkerfið

Um verkefnið

Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á félagslegan veruleika, líkamlega og andlega heilsu, samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs og félagsleg tengsl ólíkra hópa kvenna á Íslandi. Jafnframt er markmiðið að auka skilning á þeirri reynslu sem lágtekjukonur hafa af velferðarkerfinu og mögulegum áhrifum þess á félagslegt misrétti.

Rannsóknir á ójöfnuði hafa lengst af einblínt á ójöfnuð milli ólíkra hópa, til dæmis karla og kvenna, en síðustu tvo áratugi hafa komið fram fleiri rannsóknir sem gefa vísbendingar um vaxandi ójöfnuð innan hópa og fram hafa komið rannsóknir sem benda til þess að aukin skautun (e. polarization) sé að verða á milli kvenna á Vesturlöndum.

Stéttaskipting meðal kvenna hefur þó lítið verið rannsökuð, hvorki á Íslandi né annars staðar. Í þessari rannsókn greinum við svör íslenskra kvenna eftir stéttastöðu þeirra og skoðum hvort tengsl séu til staðar milli stéttar og m.a. andlegrar og líkamlegrar líðanar, félagslegra tengsla, samþættingar fjölskyldu- og atvinnulífs og trausts til opinberrar þjónustu.

Rannsóknin byggir bæði á megindlegum og eigindlegum gögnum. Annars vegar var lögð spurningakönnun fyrir tilviljunarúrtak kvenna á aldrinum 25-64 ára úr tveimur þýðislistum; annars vegar þjóðskrá og hins vegar félagalista Eflingar. Ástæða þess að tekið var úrtak meðal kvenna á félagalista Eflingar var til að auka líkurnar á því að ná til kvenna sem teljast til lágtekjuhópa og einnig kvenna af erlendum uppruna, og ná þannig að endurspegla þýðið betur. Könnunin fór fram í gegnum síma á vormánuðum 2022. Spurningalistinn var þýddur yfir á ensku og pólsku og því voru, fyrir utan íslenskumælandi spyrla, einnig spyrlar sem töluðu ensku og pólsku. Svarhlutfall Í heildarúrtakinu var 3361 kona og svaraði 1251 sem gerir svarhlutfallið 37,2%.

Hins vegar verða tekin einstaklingsviðtöl við konur sem teljast til lágtekjuhópa og eru virkar á vinnumarkaði með börn á framfæri sínu. Viðmælendur eru bæði af íslenskum og erlendum uppruna.

Fyrirspurnir varðandi rannsóknina má senda á konur@unak.is

Smelltu hér til að skrá þig í viðtalsrannsókn

Rannsakendur

Samstarfsaðilar

Birtingar

Umfjöllun í fjölmiðlum