Ráðstefna í tilefni þess að nú eru 25 ár síðan Háskólinn á Akureyri hóf sína vegferð í fjarkennslu
Á þessu ári eru 25 ár síðan fjarkennsla í hjúkrunarfræði hófst við Háskólann á Akureyri en haustið 1998 hóf hópur stúdenta nám í hjúkrunarfræði í fjarnámi frá Ísafirði. Þá var kennt samtímis á Ísafirði og Akureyri í gegnum myndfundabúnað. Að því tilefni stóð Háskólinn á Akureyri og Háskólasetur Vestfjarða fyrir ráðstefnu um fjarnám og fjarkennslu föstudaginn 16. júní á Ísafirði.
„Það var einstaklega skemmtilegt að hlusta á sögur frumkvöðlanna af því hversu hratt af stað var farið og hversu samheldið samfélagið allt var í því að koma á fyrsta árgangi fjarnema í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Þar lögðu margir hönd á plóginn en konur voru áberandi í þessu frumkvöðlastarfi, bæði sem stjórnendur við HA, stúdentar og starfsfólk Háskólaseturs Vestfjarða,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA.
Jákvæð áhrif á byggðaþróun í landinu
Erindi ráðstefnunnar voru fjölbreytt en rauði þráður allra erinda var fjarnám. Helena Sigurðardóttir, kennsluráðgjafi hjá Kennslu- og upplýsingatæknimiðstöð HA (KHA) er ein þeirra sem hélt erindi á ráðstefnunni. „Ég held að það sé erfitt að gera sér grein fyrir því hvaða áhrif Háskólinn á Akureyri hefur haft fyrir landsbyggðina á Íslandi. HA opnar dyr og gefur stúdentum í landinu öllu tækifæri á námi í heimabyggð, sem er gríðarlega mikilvægt og hefur jákvæð áhrif á byggðaþróun í landinu,“ segir Helena.
Stafræn hæfni starfsfólks og stúdenta lykilþáttur
Jákvæður og skemmtilegur andi var yfir ráðstefnunni þar sem sterkt kom fram hversu mikil breyting fjarnámið var fyrir íbúa Ísafjarðar og hversu stórt skref það var að styrkja fjarkennslu fyrir íslenskt háskólakerfi. Upp frá þessu fór fjarnámið við HA að þróast, bæði hvað varðar breidd — og í dag eru allar námsgráður kenndar rafrænt —, auk þess sem námsformið hefur þróast í gegnum árin. Í dag er talað um sveigjanlegt námsform frekar en fjarnám.
„Stafræn hæfni starfsfólks og stúdenta HA er einn af lykilþáttunum þannig að þessi jafna gangi upp. Til þess að starfa sem kennari í HA þarf að búa yfir ákveðnum grunni af stafrænni hæfni. Við hjá KHA þjálfum starfsfólkið markvisst í notkun ákveðinna grunnforrita sem notuð eruð í uppsetningu á námi og kennslu í sveigjanlegu námsformi. Þá eru margir möguleikar fyrir starfsfólk til að auka sína stafrænu færni. Við leggjum líka áherslu á að láta kennslufræðina alltaf stýra för og við nýtum tæknina sem stuðning en ekki sem stjórnunartæki,“ útskýrir Helena.
Við erum öll í þessu verkefni saman
Hörður Sævaldsson, lektor við Auðlindadeild er einn þeirra fjölmörgu kennara sem hefur lagt mikla vinnu í að þróa kennsluaðferðir sínar til þess að styðja betur við sveigjanlega námsfyrirkomulagið. „Í erindinu mínu á ráðstefnunni fór ég yfir þróunina og þær breytingar sem ég hef þurft að fara í. Þetta er að sjálfsögðu mikil vinna en hún er þess virði og í henni felast einnig mörg tækifæri. Ég hef farið frá því að vera með hefðbundna fyrirlestra með glærusýningu í það að vera með myndbönd og gagnvirkar æfingar þar sem allir geta tekið þátt, óháð staðsetningu, svo dæmi séu tekin. Til þess að stúdentar séu virkir þátttakendur og fái öll það sama út úr náminu þarf að þróa og aðlaga allt námsefni, kennsluaðferðir og kennslustofur,“ segir Hörður.
„Stefna háskólans er mjög mikilvæg í þessu öllu. Það að yfirstjórn háskólans hafi verið tilbúin til þess að fara í þetta ferðalag var skref sem gerði þetta allt mögulegt. Þessu fylgir kostnaður, enda hefur heilu kennslurýmunum verið breytt og fjárfest í viðeigandi búnaði og svo framvegis. Það er að mörgu að hyggja en við höfum sannað að það sé unnt að veita hágæða nám með sveigjanlegum hætti og við erum komin á þann stað sem við erum á í dag vegna þess að við erum öll í þessu verkefni saman,“ segir Hörður.
Stoðþjónustan mikilvæg
Helena segir mikilvægt að gera sér grein fyrir því að Háskólinn á Akureyri hafi ekki komist á þann stað sem hann er á í dag nema fyrir skýra sýn, stefnu og metnaðarfullt starfsfólk. „Yfirstjórn háskólans styður stoðþjónustuna sem svo styður starfsfólk og stúdenta HA. Stoðþjónustan gegnir lykilhlutverki í að styðja við sveigjanlega námsfyrirkomulagið. Þar ber að nefna sem dæmi að stúdentar HA geta sótt alla sína þjónustu frá sinni heimabyggð, hvort sem það er þjónusta náms- og starfsráðgjafa, sálfræðings, bókasafns, tækniaðstoð eða annað,“ útskýrir Helena að lokum.