Doktorsnemar kynna fjölbreyttar rannsóknir

Nýlega stóðu doktorsnemar HA í samstarfi við Miðstöð doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna að glæsilegu málþingi
Doktorsnemar kynna fjölbreyttar rannsóknir

Í lok janúar stóðu doktorsnemar fyrir málþingi í samstarfi við Miðstöð doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna. Á málþinginu kynntu sjö doktorsnemar rannsóknir sínar. Fimm voru á staðnum og tveir kynntu í gegnum streymi. Málþingið er liður í því að gera rannsóknir doktorsnemanna sýnilegar og miðla þeim út í samfélagið. Doktorsnemarnir hófu kynningar sínar á persónulegum nótum og sögðu frá því hvað varð til þess að þeir hófu doktorsnám við HA.

Rannsóknir og samfélagið

Áslaug Ásgeirsdóttir rektor opnaði þingið og bauð gesti velkomna. Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður Miðstöðvarinnar, var næst á svið og sagði frá þeim árangri sem náðst hefur við uppbyggingu doktorsnáms við skólann og mikilvægi þess að byggja upp öflugt námssamfélag meðal doktorsnema. Aðspurð segir Guðrún Rósa að sköpun svona vettvangs sé nauðsynleg til að tengja rannsóknir og doktorsnámið samfélaginu. „Það er mikilvægt fyrir doktorsnemana að fá tækifæri til að segja frá rannsóknum sínum á þessum vettvangi og styrkja þannig tenginguna við samfélagið,“ bætir hún við.

Næst í pontu var Natalia Ramirez Carrera sem varði doktorsritgerð sína síðastliðið vor og gegnir nú stöðu nýdoktors við Landbúnaðarháskólann í Malmö í Svíþjóð. Hún sagði frá reynslu sinni sem doktorsnemi við HA og lífinu að loknu doktorsnámi.

Prótein, rjúpur og svifþörungar

Unnur Magnúsdóttir var fyrst doktorsnema í pontu og sagði frá rannsóknum sínum á bindisækni ákveðinna próteina og áhrifum þess á bólgur í fólki en verkefnið vinnur hún í samstarfi við Genis á Siglufirði.

Theodore Edgar Squires kynnti rannsókn sína á áhrifum umhverfisbreytinga á rjúpnastofninn á Íslandi og á norðurslóðum. Þá fræddi Ashani Arulananthan gesti um doktorsverkefnið sitt sem snýr að áhrifum manngerðra efna, svo sem teflons, á svifþörunga í sjónum. Ef efnin safnast fyrir í svifþörungum geta þau borist upp fæðukeðjuna, jafnvel alla leið til fólks sem neytir sjávarfangs.

Skammdegi, heilsufar, hjúkrunarheimili og þörungar

Eftir hlé voru fjórar kynningar á doktorsverkefnum. Lada Zelinski kynnti rannsókn sína á áhrifum skammdegis á fólk og tengslin á milli árstíðabundinna sveiflna í líðan. Kristrún María Björnsdóttir sagði frá sínu verkefni sem snýr að því hvernig heilsufar á unglingsárum tengist heilsu á fullorðinsárum. Í síðarnefndu rannsókninni er fylgst með hópi fólks fæddu árið 1988. Heilsa þess er svo metin út frá ýmsum þáttum, bæði andlegum og líkamlegum, við ákveðinn aldur. Maria Finster Úlfarsson sagði frá rannsókn sinni um hvernig stuðning og upplýsingar börn þurfa þegar mæður þeirra eru komnar inn á hjúkrunarheimili. Síðast en ekki síst sagði Alexandra Georganti-Ntaliape frá rannsókn sinni á notkun vistfræðilegra lausna við að stjórna þörungum svo þeir mengi ekki bláskel sem ræktuð er við strendur landsins.

Yvonne Höller, prófessor við skólann og aðalleiðbeinandi Lada var með lokaerindið á málþinginu þar sem hún talaði um meistara- og doktorsnema og mikilvægi þess að hlúð sé að framhaldsnemum fyrir áframhaldandi þróun rannsókna. Hún talaði einnig um mikilvægi tengslaneta og minnti á að doktorsnemar væru vísindafólk framtíðarinnar.