Doktorsvörn Valgerðar Guðmundsdóttur

Varði doktorsritgerð við Lagadeild McGill háskóla í Kanada
Doktorsvörn Valgerðar Guðmundsdóttur

Þann 16. desember síðastliðinn varði Valgerður Guðmundsdóttir, lektor við Lagadeild Háskólans á Akureyri, doktorsritgerð sína The Nordic Concept of Gender Equality and „the Other“: The Problems and Particularities of Gender Mainstreaming in Asylum Decision-making við Lagadeild McGill háskóla í Kanada.

Leiðbeinandi hennar var prófessor Colleen Sheppard. Í doktorsnefndinni sátu jafnframt prófessor François Crépeau, einnig við McGill háskóla og prófessor Payam Akhavan við háskólann í Toronto. Andmælendur voru prófessor Alana Klein og prófessor Evan Fox-Decent bæði við McGill háskóla sem og prófessor Catherine Dauvergne við háskólann í Bresku Kólumbíu. Doktorsnámið var styrkt af McGill háskóla og Jafnréttissjóði Íslands.

Um rannsóknina

Í ritgerðinni voru rannsakaðar ákvarðanir stjórnvalda í málum kvenna sem sóttu um hæli á árunum 2017-2020 og fóru í svokallaða efnismeðferð. Ákvarðanirnar voru greindar með tilliti til ýmissa sjónarmiða til að kortleggja hvort, eða hvernig, áhrif kyn umsækjanda hafi haft á úrlausn málsins. Í ritgerðinni eru færð rök fyrir því að í núgildandi jafnréttislögum sé komin skylda á stjórnvöld að innleiða kynjasamþættingarsjónarmið við töku stjórnvaldsákvarðana og skoðað er hvernig það gæti haft áhrif á málsmeðferð stjórnvalda í fyrrgreindum málum.

Niðurstöðurnar sýna fram á að í meirihluta mála sé ekki litið sérstaklega til kyns umsækjanda og hvaða áhrif það gæti haft á stöðu umsækjanda, bæði í heimalandinu sem og í málsmeðferðinni sjálfri. Jafnframt er fjallað um stöðuna á Norðurlöndunum og í Kanada, eins og hægt er, en ríkin eiga það öll sameiginlegt að lítið er til af upplýsingum um þetta hjá þeim. Að lokum eru lagðar fram tillögur til stjórnvalda um hvaða breytingar þurfi að koma til svo að betur sé hægt að taka tillit til þessa þáttar, innleiða kynjasamþættingarsjónarmið í ákvörðunartökuferlið og uppfylla mannréttindaskuldbindingar íslenska ríkisins.

HÁSKÓLINN Á AKUREYRI ÓSKAR DR. VALGERÐI GUÐMUNDSDÓTTUR HJARTANLEGA TIL HAMINGJU MEÐ AÐ HAFA LOKIÐ DOKTORSGRÁÐU SINNI!