Fræðafólk skólans tekur virkan þátt í greinaskrifum á sínum fagsviðum

Á árinu 2024 birtu fræðafólk við skólann í tímaritinu fjöldann allan af greinum í tímaritum.
Fræðafólk skólans tekur virkan þátt í greinaskrifum á sínum fagsviðum

Hafist handa og lestur á yngsta stigi

Á árinu 2024 birtust í tímaritinu Netla veftímarit um uppeldi og menntun, tvær greinar eftir fræðafólk við Kennaradeild í samvinnu við fleiri. Önnur þeirra ber heitið „Ég hreinlega get ekki beðið eftir að hefjast handa“: Áhugahvöt og virkni nemenda í háskólanámi eftir Önnu Ólafsdóttur dósent og Sólveigu Zophoníasdóttur aðjúnkt, báðar við Kennaradeild skólans, þar sem þær skoða hvernig hönnun náms- og kennsluumhverfis getur haft áhrif á virka þátttöku nemenda ásamt því að vekja og viðhalda áhuga nemenda á náminu.

Hina greinina skrifar deildarforseti Kennaradeildar, Guðmundur Engilbertsson, í samvinnu við Fjólu Björk Karlsdóttur sem er aðjúnkt við Viðskiptadeild. Greinin heitir Skipulag og eftirfylgni stuðnings við lestur á yngsta stigi grunnskóla séð með augum læsisfræðinga. Í greininni er fjallað um niðurstöður viðtala við starfandi læsisfræðinga þar sem reynt var að fá innsýn í skipulag við lestrarnám nemenda sem þurfa á auknum stuðningi að halda í skólum sem búa að góðri fagþekkingu í lestrarfræðum.

Hvað ætli gervigreindin segði um lýðræðislegt gildi háskóla?

Þá er líka gefið út Tímarit um uppeldi og menntun. Á árinu 2024 birti fræðafólk við skólann í tímaritinu fjöldann allan af greinum þar sem umfjöllunarefnin og rannsóknir eru af margvíslegum toga. Grenndarkennsla, fæðingarferli og rými í leikskólum er meðal þess sem fjallað er um. Allar greinar fræðafólksins á árinu 2024 má finna hér.

Seinna hefti tímaritsins árið 2024 kom út á dögunum og þar má finna fjórar greinar eftir starfsfólk skólans. Rannveig Oddsdóttir, dósent við Kennaradeild, skrifar þar greinina Fiðófur – Þrifþjóvur – Friðþjófur: Þróun stafsetningar í textaritun barna í 1.-4. bekk þar sem fjallað er um rannsókn sem skoðaði þróun stafsetningarvillna í texta hjá börnum. Anna Ólafsdóttir, dósent við Kennaradeild og Sigurður Kristinsson, deildarforseti Félagsvísindadeildar, birtu grein um niðurstöður rannsóknar sem laut að því að afla vitneskju meðal háskólakennara um birtingarmyndir lýðræðislegs gildis háskóla. Greinin ber heitið „Rödd rökhyggju og skynsemi í öllu“: Lýðræðislegt gildi háskóla frá sjónarhóli háskólakennara.

Þá eins og flest vita er gervigreind í algleymingi og þær Jórunn Elídóttir dósent og Sólveig Zophoníasdóttir aðjúnkt, báðar við Kennaradeild, hafa rannsakað viðhorf kennaranema í HA til ChatGPT sem er gervigreindarforrit. Niðurstöður benda til þess að kennaranemar geri sér grein fyrir þeim tækifærum og áskorunum sem fylgja notkun gervigreindar og leggi áherslu á ábyrga notkun. Fjórða greinin sem birtist fjallar um rannsókn sem skoðaði upplifun nemenda af leshömlum á skólagöngu þeirra, hvernig hún hafði áhrif á nám þeirra og hvað mætti læra af reynslu þeirra. Niðurstöður benda til þess að flestir viðmælendur hafi verið sáttir við þann stuðning sem þeir fengu í grunn- og framhaldsskóla. Þá má sjá í niðurstöðum mikla seiglu í þessum nemendahóp. Greinina skrifuðu Þórdís Hauksdóttir, sérfræðingur hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, og þau Guðmundur Engilbertsson deildarforseti og Rannveig Oddsdóttir, dósent, bæði hjá Kennaradeild HA.

Útgáfuhóf TUM- Tímarit um uppeldi og menntun, verður haldið þann 22. janúar klukkan 15:00 í Stakkahlíð á Menntavísindasviði HÍ og í streymi. Tilefnið er útgáfa 33. árgangs, 2. heftis sem kom út í desember. Ritið er gefið út í samstarfi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri og Félags um menntarannsóknir. Ritstjórar eru Anna Kristín Sigurðardóttir, Háskóli Íslands og Sigríður Margrét Sigurðardóttir, Háskólinn á Akureyri. Hér má sjá nánari upplýsingar um útgáfuhófið