Frambjóðendur í Norðausturkjördæmi mætast í Hátíðarsal HA á morgun

Hraðaspurningar, örframsögur og umræður
Frambjóðendur í Norðausturkjördæmi mætast í Hátíðarsal HA á morgun

Stúdentafélag Háskólans á Akureyri (SHA) með aðstoð Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS) standa fyrir pallborðsumræðum með frambjóðendum í Norðausturkjördæmi á morgun, föstudaginn 15. nóvember kl. 12:00 í Hátíðarsal HA. Einnig verður streymt frá viðburðinum á Vísi og YouTube-rás Háskólans á Akureyri fyrir þau sem hafa ekki tök á að mæta á staðinn.

„Þegar ljóst var að kosningar til Alþingis væru framundan ræddum við í framkvæmdastjórn SHA hvort það væri eitthvað sem við gætum gert með það að markmiði að hvetja ungt fólk til þess að skila sér á kjörstað. Ég forvitnaðist aðeins hvað hefði verið gert áður og komst til dæmis að því að sambærilegur viðburður hefði verið haldinn árið 2016,“ segir Silja Rún Friðriksdóttir forseti SHA.

„Við komumst að þeirri niðurstöðu að viðburðurinn væri kjörið tækifæri fyrir okkur þar sem við gætum sýnt það og sannað að stúdentar vilja svo sannarlega láta málin sig varða. Við sendum því ákall á alla flokka sem bjóða fram í Norðausturkjördæmi og ég er mjög ánægð með viðbrögðin og það er frábært að allir tíu flokkarnir muni mæta til okkar á morgun,“ segir Silja.

Þau mæta:

  • B - Framsóknarflokkurinn: Skúli Bragi Geirdal 4. sæti
  • C - Viðreisn: Ingvar Þóroddsson 1. sæti
  • D - Sjálfstæðiflokkurinn: Jens Garðar Helgason 1. sæti
  • F - Flokkur fólksins: Sigurjón Þórðarson 1. sæti
  • J - Sósíalistaflokkurinn: Ari Orrason 2. sæti
  • L - Lýðræðisflokkurinn: Gunnar Viðar Þórarinsson 1. sæti
  • M - Miðflokkurinn: Inga Dís Sigurðardóttir 4. sæti
  • P - Píratar: Theodór Ingi Ólafsson 1. sæti
  • S - Samfylkingin: Logi Einarsson 1. sæti
  • V - Vinstri græn: Sindri Geir Óskarsson 1. sæti

Viðburðurinn er öllum opinn og við hvetjum öll til að mæta á staðinn eða fylgjast með í streymi. Frambjóðendur fá þrjár mínútur í framsögu, svo verða undirbúnar já og nei hraðaspurningar og að lokum boðið upp á spurningar úr sal. „Kosningabaráttan er mjög hröð í þetta skipti og við höfum ekki langan tíma til þess að mynda okkur skoðun um hvert x-ið fer 30. nóvember. Ég er mjög stolt af því að bjóða kjósendum í Norðausturkjördæmi upp á það tækifæri að kynna sér öll framboðin á einum stað,“ segir Silja.

Við erum öll í þessu saman

Silja segir að mörgu sé að hyggja að fyrir viðburð sem þennan og að það hafi í raun komið á óvart hve mörgum smáatriðum þyrfti að huga að. „Undirbúningurinn hefur gengið ótrúlega vel. Ég hef fengið mjög mikla hjálp frá forseta og framkvæmdastjóra LÍS sem ég er mjög þakklát fyrir. Síðan búum við svo vel að fá greiðan aðgang að húsnæðinu okkar hér í HA í gegnum Rekstur fasteigna sem eru alltaf boðin og búin þegar við fáum hugmyndir sem þessar. Sólveig María hjá Markaðs- og kynningarmálum hefur síðan leitt okkur í gegnum undirbúningsferlið enda hefur hún stýrt ófáum viðburðum í HA og passar vel upp á að við gleymum ekki að huga að einhverjum smáatriðum sem skipta miklu máli. Við ákváðum strax að bjóða upp á streymi fyrir þau sem geta ekki mætt á staðinn enda er kjördæmið stórt. Það er lítil fyrirstaða í því enda búum við svo vel að vera í háskóla sem er í fremstu röð þegar kemur að sveigjanlegu námi og miðlun efnis í gegnum netið. Það verður samt að segjast að það er mjög áhugavert að fá að skipuleggja svona viðburð á bak við tjöldin, ég held að það geri sér ekki allir grein fyrir vinnunni sem liggur að baki, til dæmis bara að streyminu sjálfu. Einhver halda kannski að þetta sé bara plug and play en Valgeir í KHA og Sólveig María hafa svo sannarlega sýnt okkur að það er ekki svo einfalt. Ég er mjög þakklát fyrir allan þann stuðning sem við fáum frá starfsfólki HA, það eru alltaf allir boðnir og búnir til að aðstoða okkur á einn eða annan hátt og ég myndi segja að það sé svolítið einkennandi fyrir samfélagið okkar í HA, við erum öll í þessu saman,“ segir Silja.

Mikilvægt að ungt fólk skili sér á kjörstað

Silja segist vonast til þess að viðburðurinn hvetji ungt fólk til að skila sér á kjörstað. „Við viljum hvetja stúdenta til að kjósa en það hefur oft verið léleg kjörsókn hjá yngri kynslóðinni. Ég myndi segja að viðburðurinn á morgun sé kjörið tækifæri fyrir öll til þess að kynna sér flokkana og stefnumálin þeirra og vonandi auðvelda kjósendum valið 30. nóvember. Von mín er svo að yngri kynslóðin skili sér vel á kjörstað og nýti kosningaréttinn sinn sem er svo sannarlega ekki sjálfgefinn,“ segir Silja að lokum.