Laugardaginn 15. febrúar fór í þriðja skiptið fram Vetrarbrautskráningarathöfn Háskólans á Akureyri. Athöfnin var ætluð kandídötum sem fengu brautskráningarskírteini sín í október 2024 og þeim sem brautskráðust 15. febrúar síðastliðinn. Alls brautskráðust 88 kandídatar af tveimur fræðasviðum í október og febrúar. Af þeim brautskráðust 5 kandídatar úr tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík sem í boði er sem staðnám við Háskólann á Akureyri vegna samstarfs háskólanna tveggja.
„Það krefst aga og skipulags en veitir á sama tíma frelsi og sveigjanleika...“

Þá brautskráðist fyrsti hópurinn úr framhaldsnámi í stjórnun við Viðskiptadeild. Fyrstu stúdentarnir innrituðust í MS og MM nám í stjórnun haustið 2023. Einhildur Ýr Gunnarsdóttir brautskráðist með MM í stjórnun og flutti ávarp fyrir hönd kandídata. Í ávarpinu sagði Einhildur meðal annars: „Háskólinn á Akureyri býður bæði upp á staðnám og fjarnám og fyrir mig sem er eins og Norðlendingar kalla SAS, eða sérfræðingur að sunnan, var fjarnámið rétti kosturinn. Ég tók bæði BS- og MM-gráðuna í stjórnun í fjarnámi, samhliða vinnu, börnum og fjölskyldu. Fjarnám gefur nemendum möguleika á að samþætta nám við daglegt líf og opnar dyr fyrir þau sem annars gætu ekki sótt sér menntun. Það krefst aga og skipulags en veitir á sama tíma frelsi og sveigjanleika sem gerir margt mögulegt eins og það til dæmis að sækja tíma í náttfötunum.“
„Brautskráning ykkar er líka samfélagslegur sigur okkar allra“

Áslaug Ásgeirsdóttir rektor tók þátt í sinni fyrstu brautskráningu við háskólann og hóf athöfnina á ávarpi þar sem hún talaði til kandídata. „Það er sigur ykkar að klára nám. Þið getið verið stolt. Sumum reynist auðvelt að læra, mörg ykkar hafa lagt á ykkur ómælda og oft erfiða vinnu til að ná þessum áfanga. Og þið hafið eflaust flest einhvern tímann efast um hvort þið væruð á réttri hillu. Það er eðlilegt. En þið eruð að brautskrást og getið fagnað. [...] Það þarf heilt samfélag að skipuleggja og halda úti námi og brautskráning ykkar er líka samfélagslegur sigur okkar allra.“
Þá hvatti rektor kandídata jafnframt til að nýta þekkinguna sína „til umbóta á þeim vettvangi sem þið hafið valið ykkur, hvort sem hann tengist náminu eða ekki. Ef þið róið á önnur mið, þá er kannski ekki alltaf augljóst hvernig námið mun verða ykkur til framdráttar. Allt nám nýtist ykkur á einn eða annan hátt. Það er kannski ekki augljóst fyrst, en smátt og smátt sjáið þið að oft getur annað sjónarhorn verið gagnlegt.“
Þá kom Áslaug einnig inn á það hve gaman væri að heyra reynslusögur fyrrum stúdenta háskólans. „Minningar fyrrum stúdenta Háskólans á Akureyri rata stundum til mín sem rektors. Eitt af því skemmtilegasta í starfi mínu er að rekast á fyrrum stúdenta háskólans og heyra hversu vel háskólinn hefur undirbúið þau fyrir störfin sem þau nú gegna. Þau segja mér frá krefjandi námi, uppáhalds kennurum, hjálplegu starfsfólki og góðum vinum sem þau kynntust í náminu.“
Viðurkenningar
Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur hlutu eftirtaldir:
Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið:
- Grunnnám: Aðalheiður Ýr Thomas, hæsta einkunn í grunnnámi við sviðið
- Framhaldsnám: Einhildur Ýr Gunnarsdóttir, hæsta einkunn í framhaldsnámi við sviðið
Hug- og félagsvísindasvið:
- Grunnnám: Ægir Björn Gunnsteinsson, hæsta einkunn í grunnnámi við sviðið
- Framhaldsnám: Kristjana Jónsdóttir, hæsta einkunn í framhaldsnámi við sviðið
Heiðursviðurkenning Góðvina

Frá árinu 2004 hafa Góðvinir Háskólans á Akureyri heiðrað kandídata sem hafa unnið óeigingjarnt starf í þágu háskólans með því til dæmis að kynna hann, efla félagslífið og/eða sitja í hagsmunanefndum fyrir hönd stúdenta. Berglind Ósk Guðmundsdóttir formaður Góðvina flutti ávarp og veitti Huldu Dröfn Sveinbjörnsdóttur, sem brautskráðist með ML gráðu í lögfræði frá Lagadeild 15. október, viðurkenninguna. Í umsögn um Huldu sagði Berglind Ósk meðal annars: „Hulda Dröfn tók virkan þátt í kynningarstarfi háskólans allan þann tíma sem hún stundaði nám við háskólann, bæði í grunn- og framhaldsnámi. Hulda mætti ætíð boðin og búin á Háskóladaginn og Opinn dag þar sem hún var sérstaklega ötull talsmaður Lagadeildar og einnig háskólans í heild. [...] Þeir sem þekkja Huldu Dröfn bera einungis af henni gott orðið. Hún er jákvæð, kraftmikil og traust, þeim verkefnum sem henni er falið sinnir hún ætíð af alúð.“
Myndir frá hátíðinni

Ljósmyndarinn Sindri Swan fangaði gleðina á hátíðinni og kandídatar geta nú nálgast þær myndir hér. Athöfninni var streymt á Facebook síðu háskólans og geta áhugasöm horft á upptöku af athöfninni hér.
Starfsfólk Háskólans á Akureyri óskar öllum kandídötum hjartanlega til hamingju með brautskráninguna og velfarnaðar í lífi og starfi!