Dagana 6.-7. mars tóku 57 stúdentar við Kennaradeild Háskólans á Akureyri þátt í tveggja daga vinnustofu sem haldin var í tengslum við evrópskt samstarfsverkefni sem gengur undir heitinu Green Tales verkefnið.
Green Tales verkefnið miðar að því að auka umhverfisvitund barna með því að beita skapandi aðferðum. Í verkefninu sameinast listsköpun, stafrænar aðferðir og menntun sem miðar að því að efla sjálfbærnihugsun nemenda á leik- og grunnskólastigi.

Þátttakendur í verkefninu eru 100 börn og 12 listamenn frá Spáni, Þýskalandi, Íslandi og Tyrklandi. Í öllum löndunum er unnið að því að skapa átta stuttar sögur sem byggja á fjórum frumöflum náttúrunnar: jörð, lofti, vatni og eldi. Nemendur í 5. og 6. bekk Valsárskóla á Svalbarðsströnd og umsjónarkennari þeirra, Sigrún Rósa Kjartansdóttir, eru fulltrúar Íslands í verkefninu. Sóley Björk Einarsdóttir og Emil Þorri Emilsson, listrænir leiðbeinendur, hafa umsjón með hreyfimyndagerð og tónlist íslensku myndarinnar með nemendum Valsárskóla. Sögurnar eru unnar með teikningum, hljóði og tónlist sem að lokum sameinast í eina stóra hreyfimynd.
Einn þáttur verkefnisins var vinnustofa fyrir stúdenta í Kennaradeild HA þar sem áhersla var lögð á hvernig list, sögugerð og stafrænar aðferðir geta orðið hluti af menntun til sjálfbærni og þar með aukið umhverfisvitund og hvatt þátttakendur til aðgerða.
Þátttakendur fengu þjálfun í stop-motion tækni, þar sem unnar voru átta stuttmyndir með hreyfimyndagerð. Kennsla var í höndum Yann Bonnin, sérfræðings í hreyfimyndagerð, Brynhildar Bjarnadóttur dósents við Kennaradeild og Önnu Karenar Úlfarsdóttur verkefnastjóra á skrifstofu Hug- og félagsvísindasviðs. Með því að nýta stop-motion tækni og skapa stuttmyndir lærðu þátttakendur hvernig hægt er að innleiða skapandi nálganir í kennslu sem auka áhuga og virkni barna í leik- og grunnskólum.
Þátttaka nemenda Valsárskóla í verkefninu sýnir hvernig nálgast má áherslu á sjálfbærni og náttúrufræði á skapandi hátt.
Heimasíðu Green Tales verkefnisins má finna hér.
Verkefnið er fjármagnað af Evrópusambandinu. Þær skoðanir og viðhorf sem hér kunna að koma fram eru aðeins höfunda/r og endurspegla ekki endilega viðhorf Evrópusambandsins eða Framkvæmdastofnunar Evrópu um mennta- og menningarmál (EACEA). Hvorki Evrópusambandið né EACEA bera því ábyrgð á þeim.