Háskóladagurinn í Reykjavík

Tækifæri til að kynna sér allt háskólanám á Íslandi á einum degi
Háskóladagurinn í Reykjavík

Laugardaginn 4. mars frá kl. 12-15 fer Háskóladagurinn í Reykjavík fram í fyrsta skipti í tvö ár. Háskóladagurinn er samstarfsverkefni íslenskra háskóla með því markmiði að kynna allt grunnnám sem er í boði í íslenskum háskólum. Kynningar fara fram í Listaháskólanum, Háskólanum í Reykjavík og í Háskóla Íslands.

Háskóladagurinn

Háskólinn á Akureyri kynnir námsframboð sitt í Grósku hugmyndahúsi. Skrifstofustjórar, verkefnastjórar, náms- og starfsráðgjafar, aðstoðarrektor og starfsfólk Markaðs- og kynningarmála stendur vaktina ásamt fríðum flokki stúdenta. Fremst í flokki er Lilja Margrét Óskarsdóttir kynningarfulltrúi SHA: „Síðast þegar Háskóladagurinn var haldinn með svipuðu sniði var árið 2020 og þá var ég í framhaldsskóla og sjálf að kynna mér námsframboð í háskólunum. Það er skrítið að hugsa til þess hversu margt hefur gerst síðan þá. Við erum allavega mjög spennt að taka þátt í deginum fyrir sunnan og svo vera með svipaða stemmingu í HA vikuna á eftir.“

Í Grósku hugmyndahúsi verða ásamt Háskólanum á Akureyri Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Háskólinn á Hólum, Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskóli Íslands.

„Það er um að gera fyrir alla áhugasama um háskólanám að nýta sér þennan dag og kynna sér allt framboðið – ekki kíkja bara við á einum stað því oft rambar fólk á eitthvað áhugavert nám sem því hefði ekki órað fyrir,“ segir Katrín Árnadóttir, forstöðumaður Markaðs- og kynningarmála sem fer fyrir hópnum.

Háskóladagurinn verður síðan í Háskólanum á Akureyri fimmtudaginn 9. mars milli kl. 11 og 14.