Haustdagar grunnskólanna við Eyjafjörð

Haustdagar grunnskólanna voru haldnir 13. og 14. ágúst í Háskólanum á Akureyri, þar kom saman starfsfólk og stjórnendur úr 16 grunnskólum á svæðinu
Haustdagar grunnskólanna við Eyjafjörð

Haustdagarnir hafa aldrei verið fjölmennari en um 300 kennarar, stjórnendur og starfsfólk grunnskóla tóku þátt. Haustdagarnir eru vettvangur fyrir starfsfólk skólanna til að dýpka faglega þekkingu, efla samheldni og auka samstarf innan skólasamfélagsins við Eyjafjörð. Boðið var upp á áhugaverða fyrirlestra og námskeið um ýmis efni sem tengjast námi og kennslu, farsæld og velferð nemenda og starfsfólks í grunnskólum.

Aðalerindi fluttu Aðalheiður Sigurðardóttir, Linda Rós Rögnvaldsdóttir og Bergþóra Þórhallsdóttir. Aðalheiður setti ráðstefnuna með erindi um erfiða hegðun og hvað liggur að baki henni, Aðalheiður fjallaði um hvernig hægt er að fyrirbyggja og mæta nemendum í tilfinningalegu uppnámi og gaf praktísk ráð og innblástur að kærleiksríkri tengslamyndun og betri skóladegi. Linda Rós hóf seinni daginn með því að segja frá vinnu starfshóps sem unnið hefur að því að kortleggja, greina og draga úr skólaforðunarvanda meðal nemenda á grunnskólastigi á Akureyri. Linda fjallaði m.a. um tillögur starfshópsins að verkferlum og gögnum sem styðja við góða skólasókn nemenda. Í kjölfarið fjallaði Bergþóra um hvernig Kópavogsbær hefur unnið að námskrá í stafrænu læsi og sagði frá verkefninu Vitundin sem snýr að fræðslu í stafrænu læsi og stafrænni borgaravitund en verkefnið miðar að því að aðstoða nemendur við að fóta sig í stafrænum heimi.

Að aðalerindum loknum bauðst stafsfólki skólanna að taka þátt í fjölbreyttum starfsþróunarnámskeiðum en boðið var upp á 34 námskeið þar sem m.a. var hægt var að hanna og skapa í Fablab smiðju, fræðast um íþróttir og hreyfingu, læra að nýta leiki í skólastarfi, kynna sér heimilisfræði og næringu, fá hugmyndir um hvernig hægt er að kenna efnafræði í eldhúsinu og læra eðlisfræði í gegnum áhugaverðar tilraunir með hversdagslega hluti.

Boðið var upp á námskeið í náttúrufræði og útikennslu, þjálfun í að kenna ólíkar STEM greinar í kennslustofunni, kynningu Zankov stærðfræðinni og á því hvernig hægt er að nýta samræður í stærðfræðikennslu. Ýmis námskeið voru í boði fyrir þau sem hafa áhuga á listgreinum, svo sem námskeið í myndlist, sýndarveruleika og stafrænni tækni í sjónlistum, námskeið í leiklist, sjónlist og sviðslist sem og í textílkennslu þar sem áhersla var á hekluð dýr.

Nokkur námskeið voru í boði sem miðuðu að því að efla starfsfólk skóla í móttöku nemenda af erlendum uppruna og í að vinna með nemendum sem læra íslensku sem annað mál. Einnig var hægt að kynna sér og fræðast um börn á einhverfurófi og um málþroskaraskanir, læra að nýta forritið Helperbird til að koma til móts við fjölbreyttan nemendahóp og nýta samtalstækni sem byggir á hugmynda- og aðferðafræði sem kallast Áhugahvetjandi samtal með unglingum.

Hægt var að sitja námskeið um sjálfsrækt og námskeið þar sem starfsfólk skóla fékk þjálfun í að mæta erfiðum tilfinningum og óæskilegri hegðun hjá nemendum.

Að lokum má svo nefna námskeið um læsi á mið- og unglingastigi, námskeið um leiðsagnarnám, hegðunar- og agavanda og farsæld nemenda.

Frábærir dagar að baki þar sem kennarar, stjórnendur og starfsfólk í grunnskólum Eyjafjarðar fengu tækifæri til að hittast, deila reynslu sinni og stilla saman strengi. Miðstöð skólaþróunar og undirbúningsteymi Haustdaga grunnskólanna vonast til að viðburðurinn hafi veitt þátttakendum innblástur sem mun nýtast í starfi með nemendum á komandi skólaári og þakkar þátttakendum fyrir góða og gefandi samveru. 

Miðstöð skólaþróunar er starfrækt við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri og er markmið hennar að stuðla að umbótum og umbreytingum á skólastarfi og vera farvegur þekkingar og þróunar út í daglegt skólastarf.