Hefð hefur skapast fyrir því að bjóða til endurfunda Góðvina í kringum Háskólahátíð en að þessu sinni er stefnan tekin á endurfundi í september og bjóða þá félögum til Végeirsstaða þann 20. september
Á Háskólahátíð heiðruðu Góðvinir Háskólans á Akureyri í 20. skipti kandídata sem hafa unnið óeigingjarnt starf í þágu háskólans með því að kynna háskólann, efla félagslífið og sitja í hagsmunanefndum fyrir hönd stúdenta.
Góðvinir hafa árlega boðið félagsfólki til endurfunda, sérstaklega eins árs útskriftarnemum og svo á fimm ára fresti. Í ár verður því sérstaklega eftirfarandi útskriftarárgöngum boðið; 2023, 2019, 2014, 2009, 2004, 1999, 1994 og 1989. Endurfundir í ár verða á Végeirsstöðum þann 20. september næstkomandi. Dagskrá hefst klukkan 16:00 og verður auglýst nánar innan skamms.
Góðvinir eru félag brautskráðra stúdenta frá Háskólanum á Akureyri. Helstu markmið félagsins eru að auka tengsl háskólans við fyrrum nemendur sína, styðja við uppbyggingu skólans, tryggja félagsfólki greiðan aðgang að starfsemi og þjónustu skólans, ásamt því að tekjum verði ráðstafað til uppbyggingar lærdóms og rannsókna við skólann. Stjórn hefur í vetur unnið að stofnun sjóðs og fjármögnun hans. Verið er að leita til fyrirtækja og til að styrkja fjárhagslegan grundvöll félagsins.
Starfsemi Góðvina og hefðirnar sem breytast
Hefð hefur skapast fyrir því að bjóða til endurfunda í kringum háskólahátíð en að þessu sinni er stefnan tekin á endurfundi í september og bjóða þá félögum til Végeirsstaða þann 20. September klukkan 16:00. Árið 1995 fékk Háskólinn á Akureyri Végeirsstaði að gjöf og var jörðin sett í umsjá Végeirsstaðasjóðs, sem er sjálfseignarstofnun. Ný stjórn Végeirsstaðasjóðs hefur sett skýra sýn og stefnu um að á Végeirsstöðum verði fræðasetur á vegum Háskólans á Akureyri. Einnig er hægt að leigja þar fundar- og kennsluaðstöðu ásamt litlu húsi þar sem starfsfólk getur fengið afdrep til að sinna verkefnum tengdum sínum störfum.
Heiðursverðlaun Góðvina
Félagið Góðvinir leggur sitt af mörkum til samfélagsins í HA og heiðrar á hverju ári kandídata sem sýnt hafa framúrskarandi námsárangur og óeigingjarnt starf í þágu háskólans á meðan á námi stóð.
Slíkar viðurkenningar hafa verið veittar frá árinu 2004 og er sérsmíðuð gullnæla veitt þeim sem hljóta heiðurinn. Nælan, er hönnuð af Kristínu Petru Guðmundsdóttur gullsmið, er eftirlíking af listaverkefninu Íslandsklukkunni sem stendur á háskólasvæðinu.
„Það er gríðarlega mikilvægt að stúdentar taki þátt, segi sínar skoðanir, því félagslífið er ekki síður mikilvægur hluti af lærdómi háskólagöngunnar,“ sagði Bjarki Brynjólfsson, varaformaður Góðvina, í ræðu sinni.
Að þessu sinni hlutu eftirtaldir kandídatar heiðursviðurkenningu Góðvina:
Í framhaldsnámi:
Dagmar Ólína Gunnlaugsdóttir
Dagmar Ólína Gunnlaugsdóttir ásamt þáverandi rektor Eyjólfi Guðmundssyni
„Dagmar Ólína hefur tekið öflugan þátt í háskólasamfélaginu frá því að hún hóf nám í grunnnámi við Kennaradeild. Skólaárin 2021 til 2023 gegndi Dagmar hlutverki fulltrúa í gæðaráði, þar sem þátttaka var bæði öflug og til fyrirmyndar. Árið 2022 tók hún við sem formaður Magister, félags kennaranema, fyrir skólaárið 2022 til 2023 og gegndi því starfi með mikilli ábyrgð og dugnaði. Þar sat hún meðal annars deildarráðsfundi og var í matsnefnd Kennaradeildar. Dagmar er alltaf boðin og búin til þess að taka þátt og leggja hönd á plóg í fjölbreyttum og ólíkum verkefnum innan bæði SHA og háskólans. Hún hefur verið kennaranemum innan handar síðustu ár og hefur í ófá skipti staðið vaktina og kynnt kennaranámið á viðburðum háskólans svo fátt eitt sé nefnt.
Í grunnnámi á Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviði:
Erla Salome Ólafsdóttir, kandídat í hjúkrunarfræði og Fanney Gunnarsdóttir, kandídat í líftækni
Bjarki Brynjólfsson, stjórnarmeðlimur Góðvina, Fanney Gunnarsdóttir, Erla Salome Ólafsdóttir og þáverandi rektor, Eyjólfur Guðmundsson.
Í umsögn um Erlu segir:
„Erla hefur gegnt lykilhlutverkum innan háskólasamfélagsins síðan hún hóf nám sitt. Hún starfaði í stjórn Eirar frá 2021 til 2024, þar sem hún byrjaði sem varaforseti, síðan sem fjarnemafulltrúi og að lokum sem forseti. Á meðan Erla gegndi þessum embættum sat hún jafnframt í Jafnréttisráði og á deildarfundum Hjúkrunarfræðideildar. Þátttaka hennar í gæða- og hagsmunastörfum háskólans hefur verið framúrskarandi, en árin 2022 til 2023 sat Erla í Stúdentaráði sem fulltrúi stúdenta í Gæðaráði og árið eftir sem fulltrúi heilbrigðisvísindanema. Þá hefur Erla verið öflug í kynningarstarfi háskólans, bæði á Opnum dögum og Háskóladeginum á Akureyri og á Egilsstöðum. Þá hefur Erla einnig setið í fulltrúaráði LÍS, Landssamtaka íslenskra stúdenta, sem og verið fulltrúi SHA á landsþingi LÍS. Auk þess hefur Erla verið ötull talsmaður hjúkrunarfræðinnar og verið dugleg að halda erindi fyrir hönd hjúkrunarfræðinema, bæði innanlands og erlendis. Í gegnum fjölbreytt störf innan HA og SHA hefur Erla verið öflugur talsmaður hjúkrunarfræðinema, bæði í því að bæta réttindi þeirra í námi, starfsnámi og í starfi. Þá skemmir ekki fyrir hvað Erla er alltaf jákvæð og boðin og búin til þess að láta gott af sér leiða og taka virkan þátt. Erla er því vel að þessari viðurkenningu komin.“
Í umsögn um Fanneyju segir:
„Fanney hefur verið öflugur og metnaðarfullur stúdent í háskólasamfélaginu við Háskólann á Akureyri allt frá því hún hóf nám við Auðlindadeild. Sem nýnemi byrjaði Fanney strax í Stafnbúa, varð síðan varaforseti og gegndi embætti forseta félagsins á starfsárinu 2023 til 2024. Fanney hefur sinnt störfum sínum innan Stafnbúa af miklum metnaði og séð til þess að það sé alltaf stuð og stemming. Jafnframt hefur hún passað upp á Stafnbúana sína og gætt þess að allir hagi sér vel á viðburðum háskólans. Fanney sat í Stúdentaráði starfsárið 2022 til 2023 sem formaður Nýsköpunar- og frumkvöðlanefndar og á nýliðnu starfsári sat hún í Stúdentaráði sem fulltrúi stúdenta í sjávarútvegsfræði og líftækni. Þá sat hún á sama starfsári deildarfundi Auðlindadeildar og stjórnendafundi fræðasviðsins. Fanney er alltaf tilbúin til að aðstoða og hjálpa við hvað sem er. Hún er gríðarlega metnaðarfull tveggja barna móðir sem hefur sýnt og sannað að allt er hægt ef vilji er fyrir hendi. Þá hefur Fanney tekið mjög virkan þátt í kynningastarfinu og hún má eflaust eigna sér eitthvað af metumsóknum í líftækni fyrir komandi skólaár, enda hefur hún mætt á allar kynningar og staðið sína vakt ásamt því að prýða auglýsingaskilti og auglýsingar á samfélagsmiðlum. Fanney Gunnarsdóttir er ekki aðeins dýrmætur meðlimur í háskólasamfélaginu heldur er hún einnig fyrirmynd fyrir aðra, bæði í námi og daglegu lífi.“
Í grunnnámi á Hug- og félagsvísindasviði:
Silja Rún Friðriksdóttir
Silja Rún Friðriksdóttir
Í umsögn um Silju Rún segir:
„Silja Rún hefur verið öflug innan háskólasamfélagsins frá því að hún hóf nám við HA. Hún var varaforseti SHA á starfsárinu 2022 til 2023 og sýndi þar ábyrgð og elju. Hún lagði mikinn metnað í starf sitt. Þáverandi forseti SHA lýsir Silju sem traustri og yfirvegaðri manneskju sem auðvelt er að leita til og vinna með. Hún gengur í öll verk og kemur til móts við öll. Þá hefur Silja Rún verið virk í hinum ýmsu nefndum og ráðum innan HA en þó sérstaklega í Jafnréttisráði þar sem hún hefur starfað síðastliðin tvö ár af miklum metnaði enda brennur hún fyrir jafnréttismálum. Þá hefur Silja einnig verið fulltrúi stúdenta í Landssamtökum íslenskra stúdenta og staðið sig með prýði þar að gæta að hagsmunum og rödd stúdenta HA. Á liðnu skólaári starfaði Silja Rún sem formaður Kynninganefndar þar sem hún skipulagði í samstarfi við Markaðs- og kynningarmál HA Opna daga og Háskóladaginn. Sólveig María verkefnastjóri segir að samstarfið við Silju Rún hafi verið einstakt enda sé Silja Rún einstaklega metnaðarfull og ábyrg. Alltaf hafi verið hægt að treysta á Silju Rún. Verkefnum sínum sinnir hún vel og örugglega og ef henni er falið eitthvað verkefni, þá gengur hún í málið og klárar það með stæl. Framlag Silju Rúnar til HA til þessa hefur verið ómetanlegt og á HA henni mikið að þakka. Þá verður gaman að fylgjast með henni áfram blómstra en Silja Rún tók nýlega við stöðu forseta SHA. Það er því mikill heiður að veita Silju Rún þessa viðurkenningu hér í dag fyrir hennar mikilvæga framlag til HA.“
Góðvinir Háskólans á Akureyri
Góðvinir eru á facebook