Heimspekibrotin sem tengja skop og grimmd

Fimm bindi af Philosophical Fragments eftir Dr. Giorgio Baruchello væntanleg
Heimspekibrotin sem tengja skop og grimmd

Á næstu árum munu lesendur fá einstakt tækifæri til að kynnast nýjum bókaflokki eftir Giorgio Baruchello, prófessor við Háskólann á Akureyri, en fimm bindi af heimspekilegum bókmenntaverkum hans eru væntanleg hjá útgefandanum Northwest Passage Books í Kanada.

Bækurnar munu koma út á árunum 2025 til 2027, og bera öll bindin heitið Heimspekibrot (e. Philosophical Fragments). Í þessum metnaðarfulla bókaflokki má finna fjölda texta sem spanna gamanleikrit, smásögur, háðsádeilur og nóvellur – og sameina léttleika og dýpt á einstakan hátt. Þótt stíllinn sé skoplegur og glaðbeittur birtast einnig í textunum sýn á alvarlegri málefni svo sem tengsl skops og grimmdar í samtímanum, þar sem hið broslega og bitra mætast á viðkvæmum mörkum.

Hver bók verður einstök að útliti, með frumlegum kápum, skreyttum listaverkum eftir þekkta alþjóðlega ljósmyndara – þar á meðal Armando Gallo, Alberto Terrile, Agata Wilczyńska og Veroniku Korchak.


Höfundur í ýmsum aðstæðum með húmorinn að vopni

Bækur sem láta gott af sér leiða

Það sem gerir þessa útgáfu enn sérstæðari er sú staðreynd að prófessor Baruchello lætur öll höfundarlaun af sölunni renna til góðgerðarsamtaka í borginni Guelph í Ontario, Kanada. Hann bjó í borginni þegar hann var við doktorsnám og á þangað enn sterkar tengingar. Þannig tengir Giorgio afrakstur fræðistarfa sinna við samfélagslega ábyrgð – í anda gagnrýninnar hugsunar og mannúðar.