Verkefnið List fyrir viðskipti á heimskautssvæðum (Art for Arctic Business) hlaut á dögunum styrk frá Háskóla heimskautsslóða (UArctic).
Verkefnið List fyrir viðskipti á heimskautssvæðum (Art for Arctic Business) hlaut á dögunum styrk upp á 400.000 norskar krónur frá Háskóla heimskautsslóða (UArctic) fyrir árin 2024-2026. Verkefnið er leitt af Nord háskóla og samstarfsháskólar eru Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Lapplandi, Norlandia Art, Linn Rebekka Åmo ENK og Myndlistarfélagið.
Í verkefninu munu Háskólinn á Akureyri og Nord háskóli bjóða upp á námskeið í rekstri fyrirtækja fyrir listafólk. Markmið námskeiðanna er að auka skilning og þekkingu á rekstri fyrirtækja tengdum listum og menningu. Þá verður þróað módel sem samtvinnar viðskiptamenntun og þjálfun listafólks með það að markmiði að treysta árangur í rekstri. Háskólinn á Lapplandi mun miðla þekkingu um hvernig inngrip lista og þjónustu henni tengdri hafa áhrif á mismunandi þætti samfélagsins, auk þess hvernig slíkt inngrip getur opnað huga okkar fyrir möguleikum á að skapa sér eigin atvinnu.
„Saman munum við skýra það sem við köllum listkvöðlamenntun (artpreneurship education) og hvernig á að leiða saman fyrirtæki og nemendur í samvinnu“ segir prófessor Bjørn Willy Åmo sem leiðir verkefnið fyrir hönd Nord háskóla.
Kjartan Sigurðsson, lektor við Viðskiptadeild Háskólans á Akureyri er verkefnastjóri fyrir hönd skólans. Hann segir að þessi nálgun fóstri heildstæðan skilning á listum og menningu.
„Það er jarðvegurinn sem þarf til að fram komi nýjar lausnir á þeim einstæðu áskorunum sem samfélög á heimskautssvæðum standa frammi fyrir,“ bætir hann við og segist afar spenntur fyrir verkefninu.