Þegar rætt er um samfélagslega ábyrgð og nýsköpun í atvinnulífinu beinist athyglin oft að stórfyrirtækjum. En hvað með smærri fyrirtæki – þau sem við sjáum daglega í umhverfinu okkar, fjölskyldufyrirtækin og sprotafyrirtækin sem mynda hryggjarstykkið í efnahag margra landa?
Tvær nýlegar rannsóknir frá Háskólanum á Akureyri leiða í ljós að smá og meðalstór fyrirtæki geta haft ótrúlega mikil áhrif – bæði á samfélagið og eigin rekstur – með því að tileinka sér samfélagslega ábyrgð og nýsköpun í sínum daglega rekstri. Kjartan Sigurðsson, lektor við Viðskiptadeild, hefur leitt þessar rannsóknir og þessar áherslur koma skýrt fram í starfi hans, bæði í kennslu og rannsóknum.
Kjartan er meðal höfunda greinarinnar Small Steps, Big Impact: Navigating Social Responsibility with a Social Innovation Focus in SMEs, ásamt Hjördísi Sigursteinsdóttur og Helgu Kristjánsdóttur. Þá skrifaði hann einnig greinina Conversation about Social Responsibility: CSR Reporting in SMEs þar sem hann einblínir á hvernig lítil og meðalstór fyrirtæki miðla upplýsingum um samfélagslega ábyrgð sína í gegnum ársskýrslur og aðra opinbera miðla.
Samfélagsleg ábyrgð byrjar hjá fólkinu
Önnur rannsóknin fjallaði um hvernig smá og meðalstór fyrirtæki tileinka sér samfélagslega ábyrgð og nýsköpun. Rannsóknin heitir Small Steps, Big Impact: Navigating Social Responsibility with a Social Innovation Focus in SMEs og niðurstöður hennar sýna að það eru ekki alltaf fjármagn eða stífar reglur sem ráða för. Í raun eru það persónulegar skoðanir stjórnenda og frumkvöðla sem ráða miklu – fólk sem vill láta gott af sér leiða, bæta samfélagið sitt og taka ábyrgð á áhrifum starfseminnar.
Þótt smærri fyrirtæki glími oft við takmarkaðar auðlindir, finna mörg þeirra leiðir til að styðja við samfélagið – hvort sem það er með umhverfisvænum rekstri, samfélagsverkefnum eða því að hlusta á starfsfólk og viðskiptavini.
Eitt af því áhugaverðara sem kom fram í rannsókninni er hvernig starfsfólk gegnir lykilhlutverki í nýsköpun. Þegar fólk fær að taka þátt og leggja sitt af mörkum skapast nýjar hugmyndir sem nýtast bæði fyrirtækinu og samfélaginu. Þetta sýnir að nýsköpun snýst ekki alltaf um hátæknilausnir heldur líka um smáar, en áhrifaríkar breytingar sem gera hlutina betri og ábyrgari.
Að segja frá – og af hverju það skiptir máli
Hin rannsóknin sem ber heitið Conversation about social responsibility: CSR reporting in SMEs sýnir að það skiptir miklu máli að fyrirtæki séu opin og skýr í miðlun upplýsinga um samfélagslega ábyrgð. Þegar fyrirtæki segja frá því sem þau eru að gera, auka þau traust – bæði hjá viðskiptavinum og samfélaginu í heild. Þá sýndu niðurstöður að fyrirtæki sem hafa skýra stefnu í málefnum sem tengjast samfélaginu nýta sér bæði formlega skýrslugerð og óformlegar leiðir til að kynna aðgerðir sínar. Þau sem ekki hafa slíka stefnu eru oft varkárari og halda að sér höndum, að hluta til vegna óvissu um getu þeirra til að standa undir væntingum.
Samfélagsábyrgð sem samkeppnisforskot
Það sem kemur skýrt fram í báðum rannsóknum er að samfélagsleg ábyrgð er ekki bara siðferðileg ákvörðun – hún getur einnig aukið samkeppnishæfni. Þeir sem hugsa til lengri tíma, hlusta á starfsfólk sitt og umhverfi og tileinka sér nýsköpun með samfélagið í huga, skapa sér sterkari stöðu á markaði.
Lítil fyrirtæki hafa ekki alltaf mesta fjármagnið eða flóknustu stefnurnar. Þau hafa annað: tengsl við samfélagið, nánd við fólkið og sveigjanleika til að bregðast hratt við. Þau eru lifandi dæmi um að ábyrgð og nýsköpun þurfa ekki að gera stórar byltingar – heldur smá skref sem samanlagt hafa mikil áhrif.