Íþróttasálfræði nýtt kjörsvið í rannsóknartengdu meistaranámi í sálfræði

Opið fyrir umsóknir til 12. ágúst
Íþróttasálfræði nýtt kjörsvið í rannsóknartengdu meistaranámi í sálfræði

Opið er fyrir umsóknir í íþróttasálfræði sem er nýtt kjörsvið í rannsóknartengdu meistaranámi í sálfræði. Kjörsviðið verður í boði í fyrsta skipti á komandi haustmisseri og býður upp á spennandi möguleika á sviði sálfræði.

Námið er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og Háskólans í Reykjavík og er það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Það samanstendur af 30 eininga aðferðafræðinámskeiðum við HA, 30 eininga námskeiðum í íþróttasálfræði við HR, auk skrifa á 60 eininga meistaraverkefni sem nemandi skuldbindur sig til að vinna á sviði íþróttasálfræði undir handleiðslu Richard E. Taehtinen, dósents við Sálfræðideild HA.

Einstakt tækifæri

Námið er bæði einstakt tækifæri fyrir stúdenta sem og mikilvægur þáttur í að efla þekkingu og færni innan íþróttasálfræði á Íslandi. „Samstarfið við HR gefur stúdentum okkar í HA einstakt tækifæri til að fá að njóta fjölbreyttrar og sérhæfðrar kennslu auk þess að vinna að raunverulegum rannsóknum undir handleiðslu sérfræðinga. Ég trúi því að þetta nám muni hafa jákvæð áhrif á íþróttasamfélagið okkar og stuðla að heildrænni nálgun á frammistöðu og vellíðan íþróttafólks,“ segir Richard spenntur.

Inntaka í námið er háð því að umsækjandi geti sýnt fram á fyrstu einkunn í grunnnámi, helst á sviði sálfræði en önnur skyld svið t.d. íþróttavísindi koma einnig til greina.

„Námið er fyrir fólk sem hefur brennandi áhuga á að stunda rannsóknir á sviði íþróttasálfræði, er forvitið þegar kemur að ósvöruðum spurningum innan greinarinnar og býr yfir vilja til að skoða núverandi strauma og aðferðir í íþróttasálfræði á gagnrýninn hátt. Það er sérstaklega hentugt fyrir þau sem hafa bakgrunn í íþróttum, hvort sem það er íþróttafólk, þjálfarar, dómarar eða fólk í öðrum hlutverkum innan íþrótta. Þau sem hafa grunn í sálfræði eru sérstaklega vel til þess fallin til þess að nýta sér þetta nám, en önnur skyld svið koma einnig til greina. Þó að námið sé sérstaklega miðað að íþróttasálfræði er mikið af efninu einnig hægt að yfirfæra á önnur svið frammistöðu, svo sem störf innan lögreglu eða sviðslista,“ segir Richard.

Námið býður upp á fjölbreytt tækifæri í vísindalegri aðferðafræði og íþróttasálfræði. Stúdentar læra um úrvinnslu gagna, skrif og birtingu á fræðilegum greinum og hvernig hægt er að bæta frammistöðu og velsæld íþróttafólks. „Þá öðlast stúdentar þekkingu á íþróttasálfræðilegu mati og hönnun íhlutunar, auk þess að læra um tengsl geðheilbrigðis og frammistöðu. Með þessu námi getur sá sem því lýkur lagt sitt af mörkum til þróunar íþróttasálfræðinnar hér á landi. Í dag, og þá sérstaklega í afreksíþróttum, byggist mikið af vinnunni bak við tjöldin á tölum og gögnum. Þar af leiðandi er mikil þörf á einstaklingum sem geta beitt vísindalegri nálgun í starfi. Rannsóknarþátturinn gefur svo sterkan vísindalegan bakgrunn, sem er mikill kostur fyrir framtíðarferil, bæði innan akademíunnar og í öðrum störfum tengdum íþróttum,“ útskýrir Richard.

Námsleiðin svar við eftirspurn eftir sérhæfðu námi á þessu sviði á Íslandi

Íþróttasálfræðinámskeiðin í þessu meistaranámi veita víðtæka vísindalega og hagnýta þekkingu á sviði íþróttasálfræði sem hjálpar stúdentum ekki aðeins að skilja kenningar og reynslugögn, heldur einnig að átta sig á hagnýtum og praktískum þáttum þegar kemur að vinnu með frammistöðu, heilsu og vellíðan íþróttafólks. Með því að ná tökum á bæði fræðilegum og hagnýtum þáttum verða stúdentar færir um að afla gagna, vinna úr þeim og beita þeim á skilvirkan hátt.

„Ég er ótrúlega spenntur fyrir því að þetta meistaranám í íþróttasálfræði sé orðið að veruleika. Það hefur lengi verið skortur á sérhæfðu námi á þessu sviði á Íslandi. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi íþróttasálfræði í því að bæta frammistöðu og geðheilbrigði íþróttafólks. Í dag eru aðeins örfáir einstaklingar sem stunda rannsóknir á sviði íþróttasálfræði hér á landi. Það þýðir að þekkingin á þessu sviði vex ekki nógu hratt. Þetta nám er því afar mikilvægt til að fjölga sérfræðingum sem geta ýtt undir þróun og vöxt þekkingar á íþróttasálfræði á Íslandi. Með þessu námi getum við skapað betri aðstæður fyrir rannsóknir og þróun á íhlutunum sem styðja við íþróttafólk á öllum aldri og á öllum getustigum.“ segir Richard að lokum.

Umsóknarfrestur er til 12. ágúst 2024

Áhugasöm eru beðin um að senda kynningarbréf, námsferilsyfirlit og ferilskrá, auk stuttrar lýsingar á hugmynd að rannsókn (hámark 300 orð) til:

Auk þess er hægt að senda inn önnur gögn sem umsækjandi telur mikilvæg til að styrkja umsóknina. Umsóknarfrestur er til 12. ágúst 2024.

  • Frekari upplýsingar um námið í HA má nálgast hér.
  • Kynningu á íþróttasálfræðinámskeiðum og kennslu í HR má finna hér.

Vakin er athygli á því að aðeins eru lausar ein til tvær stöður stúdenta á íþróttasálfræðikjörsviði.