Háskólar landsins hlutu styrk úr Samstarfi háskóla fyrir vefsíðu til að miðla efni um jafnréttismál
Vefurinn jafnrettisdagar.is opnaði þann sjöunda febrúar síðastliðinn. Ráðist var í það verkefni hratt og vel að vinna vefinn eftir að samráðsvettvangur jafnréttisfulltrúa fékk úthlutað styrk úr Samstarfi háskóla um miðjan febrúar. Tíminn var knappur þar sem Jafnréttisdagar eru nú í vikunni og er vefurinn stór hluti af upplýsingagjöf varðandi þá.
Á fundi ofangreinds samráðsvettvangs fyrir ári síðan, sem samanstendur af jafnréttisfulltrúum frá öllum háskólum landsins, kom upp sú hugmynd að láta hanna vefsíðu fyrir Jafnréttisdaga. Sæunn Gísladóttir, starfsmaður Jafnréttisráðs Háskólans á Akureyri, leiddi vinnuna við umsókn í Samstarf háskóla til að láta byggja upp og viðhalda vef af þessu tagi. Fulltrúar allra háskólanna sameinuðust í umsókn sem unnin var þvert á skólana og óskaði stýrihópur Jafnréttisdaga eftir fundum og tilboðum frá nokkrum vefstofum. Í janúar síðastliðnum fékk svo samráðsvettvangurinn þær gleðilegu fréttir að styrkur upp á 3,8 milljónir hefðu fengist í verkefnið.
Hvað eru Jafnréttisdagar?
Jafnréttisdagar eru haldnir árlega í háskólum landsins og hefur sú hefð staðið frá árinu 2009. Mikilvægt er að vekja fólk til vitundar á fjölbreyttum málefnum hvað varðar jafnrétti, og undanfarin ár hafa skipuleggjendur Jafnréttisdaga til dæmis beint sjónum að bakslagi í hinsegin samfélaginu, stöðu innflytjenda á Íslandi og ofbeldi í íþróttum og tónlistarnámi svo eitthvað sé nefnt. Viðburðir eru opnir öllum og er einnig oft streymt.
Fram að þessu hefur viðburðum Jafnréttisdaga verið streymt á Facebook, allir viðburðir verið auglýstir þar og öllu efni miðlað þar eða á Instagram. Það er ákveðin áskorun að hafa Jafnréttisdaga á Facebook þar sem ekki öll nota þann miðil og sérstaklega hefur fækkað í hópi háskólanema sem nota þann vettvang dagsdaglega.
Vefurinn mikilvægt skref fyrir Jafnréttisdaga sem hafa fest sig í sessi
Fulltrúar samráðsvettvangsins töldu að þar sem Jafnréttisdagar eru búnir að festa sig í sessi og vaxa ár hvert væri tækifæri til að bæta umgjörðina með því að láta smíða vefsíðuna www.jafnrettisdagar.is. Vefsíðan væri verkfæri í miðlun efnis, sé stuðningur við samfélagsumræðu á mikilvægum tímum mannréttinda. Þar væri möguleiki að skoða dagskrána á aðgengilegan hátt bæði í tölvu og í snjallsíma.
Einnig horfði hópurinn til vefsíðunnar Nordic Talks þar sem viðburðir um öll Norðurlönd eru teknir upp og þeim breytt í hlaðvarp svo þeir geti lifað áfram og fólk notið þeirra um ókominn tíma. Til er afar dýrmætt efni sem hefur verið tekið upp á Jafnréttisdögum og væri mikill fengur í að fleiri gætu notið áfram.
Vefurinn fór í loftið eftir ötult starf Netheims, stýrihóps Jafnréttisdaga og verkefnastjóra Jafnréttisdaga. Þar eru jafnréttisdagar nú í forgrunni og síðar meir verður hægt að tikka við þá viðburði sem vekja áhuga og hanna þannig sína eigin dagskrá á honum og nálgast hlaðvörp með upptökum af fyrri Jafnréttisdögum, sem og frekari fræðslu um jafnréttismál.
Vefurinn á að nýtast allt árið um kring þó að reiknað sé með að flestar heimsóknir verði í kringum Jafnréttisdaga. Hann verður nýttur til að miðla fræðsluefni um jafnrétti, umfjöllunum um áskoranir tengdar inngildandi samfélagi og bætt verður við efni á næstu mánuðum til að halda honum við.
Hönnuðu vefinn með aðgengi í huga frá byrjun til enda
Vefurinn er í eigu allra háskóla landsins og verður honum viðhaldið af stýrihópi Jafnréttisdaga, verkefnastjóra Jafnréttisdaga og Netheimi.
Vefurinn er hannaður með aðgengi í huga frá byrjun til enda. Hægt verður að mæla fjölda heimsókna á heimasíðuna og fjöldann sem hlustar á upptökur og hlaðvörp og þannig fylgjast með hvernig gengur að miðla efninu til almennings og hvort þurfi að aðlaga vefsíðuna að öðrum/breyttum þörfum hverju sinni.
Öll eru velkomin á Jafnréttisdaga. Hér má nálgast upplýsingar um viðburði sem fara fram í HA á Jafnréttisdögum.