Kristín Jónsdóttir verður heiðursgestur Háskólahátíðar 2024

Háskólahátíð — brautskráning kandídata frá Háskólanum á Akureyri 2024 fer fram dagana 14. og 15. júní
Kristín Jónsdóttir verður heiðursgestur Háskólahátíðar 2024

Háskólahátíð — brautskráning frá Háskólanum á Akureyri fer fram dagana 14. og 15. júní í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri. Athöfnunum verður einnig streymt á Facebook-síðu HA. Kristín Jónsdóttir verður heiðursgestur hátíðarinnar í ár og mun hún ávarpa kandídata sem brautskrást úr grunnnámi laugardaginn 15. júní.

Kristín starfar sem deildarstjóri jarðvísinda (eldvirkni, jarðskjálfta og jarðhniks) á þjónustu- og rannsóknarsviði Veðurstofu Íslands, en þar hefur hún starfað síðastliðin 11 ár. Kristín lauk jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands árið 1999 og doktorsprófi í jarðskjálftafræði frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð árið 2009. Hún var nýdoktor við University College Dublin á Írlandi og stundaði rannsóknir á jarðskjálftaóróa. Kristín hefur leitt stór rannsóknarverkefni í tengslum við vöktun eldfjalla, kennt við Háskóla Íslands og verið áberandi vegna miðlunar á náttúruvá. Hún hlaut hina íslensku Fálkaorðu árið 2023 og var valin Háskólakona ársins í mars síðastliðnum.

„Við höfum frá árinu 2014 boðið heiðursgesti að ávarpa kandídata á þessum merkisdegi. Þessi hefð hefur heppnast einstaklega vel og í ár bætist Kristín Jónsdóttir í okkar góða hóp. Kristín hefur verið áberandi í íslensku samfélagi vegna sinna starfa. Hún hefur sýnt mikilvægi þess að þekkingu sé komið til almennings með skýrum hætti á tímum óvissu og náttúruvár. Þannig hefur Kristín verið verðugur fulltrúi vísindamanna sem virk fræðimanneskja í beinum samskiptum við samfélagið um málefni er varða samfélagið allt. Það er því sérstaklega vel við hæfi að hún veiti kandídötum heilræði á þessum merku tímamótum í þeirra lífi,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Nánari upplýsingar um dagskrá og fyrirkomulag Háskólahátíðar má nálgast hér: