Lífsgæði, leigumarkaður meðal umræðuefna á Þjóðarspeglinum 2024

Í síðustu viku fór fram árleg ráðstefna Þjóðarspegilsins sem er vettvangur virks samtals við samfélagið utan veggja háskólanna.
Lífsgæði, leigumarkaður meðal umræðuefna á Þjóðarspeglinum 2024

Í síðustu viku fór fram árleg ráðstefna Þjóðarspegilsins sem er vettvangur virks samtals við samfélagið utan veggja háskólanna. Starfsfólk HA tók virkan þátt og kom þar að tíu erindum. Erindin voru þvert á fræðasvið háskólans og starfsfólk Félagsvísinda-, Hjúkrunarfræði-, Kennara- og Viðskiptadeildar tók þátt í Þjóðarspeglinum að þessu sinni.

Viðfangsefni erindanna voru úr öllum áttum, allt frá íslenskum leigumarkaði til samruna háskóla í Evrópu og yfir í munnleg lokapróf. Þá var einnig fjallað um samskipti lögreglu og minnihlutahópa og áhrif vinnuumhverfis á ánægju í starfi.

Þá bar ein málstofan yfirskriftina Langvinnir verkir og lífsgæði sem Hafdís Skúladóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild stýrði. Auk Hafdísar voru Þorbjörg Jónsdóttir dósent og Sigfríður Inga Karlsdóttir prófessor í Hjúkrunarfræðideild með erindi á málstofunni. Öll erindin voru byggð á þverfaglegri rannsókn sem þær vinna að ásamt Evu Halapi dósent við Hjúkrunarfræðideild og Guðmundi Kr. Óskarssyni dósent við Viðskiptadeild. Rannsóknarverkefnið sem ber heitið ICEPAIN felst í því að byggja upp víðtækan gagnagrunn um heilsutengd lífsgæði, lífshætti og verki meðal almennings á Íslandi. Hægt er að finna frekari upplýsingar um verkefnið hér.

Litið í spegilinn með LXS og Æði

Guðbjörg Hildur Kolbeins, dósent við Félagsvísindadeild, hélt erindið Léttvín og lúxus: Neysla áfengis í LXS og Æði þar sem hún fjallaði um þáttaraðirnar út frá glamúrvæðingu áfengisneyslu. „LXS þættirnir flokkast sem skapandi markaðssetning þar sem áhrifavaldar njóta lífsins á ferðalögum, innanlands og erlendis, og auglýsa í raun vörur og þjónustu í leiðinni. Þegar ég rýndi í þættina má sjá að ákveðin kampavínsvörumerki eru vel sýnileg og myndavélinni sífellt beint að þeim. Þá er áfengisneysla í þáttunum sýnd börnum og unglingum sem hluti af ljúfu lífi fyrir ungt og fallegt fólk og þau tengja hana við lífsnautn og skemmtun. Það hefur afleiðingar fyrir viðhorf ungra áhorfenda til áfengis og gæti aukið á áfengisneyslu ungmenna sem er alvarlegt,“ útskýrir Guðbjörg aðspurð um inntak erindisins.

Ráðstefnur eins og Þjóðarspegillinn eru mikilvægur vettvangur fyrir fræðafólk til þess að koma rannsóknum sínum á framfæri við samfélagið, enda er samfélagshlutverk háskóla mikið. Það er því afar ánægjulegt að svona mörg frá HA hafi tekið virkan þátt á ráðstefnunni.