Vissir þú að þörungablómi getur valdið búsifjum í eldi sjávardýra? Sú er raunin og nú hafa rannsakendur HA í samvinnu við fleiri hlotið styrk frá Evrópusambandinu og Breska rannsókna- og þróunarsjóðnum upp á rúmar 400 milljónir króna. Verkefnið snýr að náttúrlegum þörungasýklum og notkun þeirra til að hefta vöxt skaðlegs þörungablóma (PHABB - Pathogens of Algae for Biosecurity and Biocontrol). Oft er um að ræða blágerla (Cyanobacteria), en einnig geta skoruþörungar og kísilþörungar valdið skaðlegum blóma.
Sá hluti verkefnisins sem fram fer við HA og er í samvinnu við sjávarlíftæknifyrirtækið BioPol snýst um að athuga hvort hægt sé að nýta þörungasýkla til að vinna bug á blómanum. Rannsóknirnar snúast þannig um að bera kennsl á, einangra og rækta bæði þörunga blómans og sýkla hans úr sýnum sem tekin verða úr og nærri kræklingarækt á Íslandi. Til að það sé hægt þarf fyrst að átta sig á tegundasamsetningu örverulífríkis á staðnum, og því verður fyrsta verkefnið að gera grunnrannsókn á samsetningu örverulífríkisins á mismunandi árstímum og með og án blóma. Gert er ráð fyrir að fylgjast með örverulífríkinu á tveggja ára tímabili og jafnhliða munu einnig fara fram ræktunartilraunir á bæði þörungunum og sýklum þeirra og öðrum antagónistum.
Doktorsnemi við HA mun sinna þessum rannsóknum undir leiðsögn Odds Þórs Vilhelmssonar prófessors og Auðar Sigurbjörnsdóttur dósents, ásamt Bettinu Scholz sérfræðingi hjá BioPol. Í heild verða 10 doktorsnemar innan verkefnisins við níu evrópska háskóla, en verkefninu í heild er stjórnað frá Náttúruminjasafninu í París. Samtals taka 20 rannsóknastofnanir víðs vegar um Evrópu þátt í verkefninu.